fbpx

430. fundur stjórnar SASS

haldinn að Austurvegi 56, Selfossi,

föstudaginn 11. desember 2009 kl. 11.30

Mætt: Sveinn Pálsson, Margrét Katrín Erlingdóttir, Elliði Vignisson ( í símasambandi), Ólafur Eggertsson, Aðalsteinn Sveinsson, Guðmundur Þór Guðjónsson, Árni Rúnar Þorvaldsson og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

Dagskrá

1. Fundargerð menntamálanefndar SASS frá 18. nóvember sl.

Afhending menntaverðlauna Suðurlands fer fram í tengslum við afhendingu vísindaverðlauna Fræðslunets Suðurlands í janúar nk. Stjórn SASS óskar verðlaunahöfum til hamingju. Fundargerðin staðfest.

2. Fundargerð velferðamálanefndar SASS frá 25. nóvember sl.

Framkvæmdastjóri kynnti drög að dagskrá málþings um tilfærslu málefna fatlaðra sem halda á 8. janúar nk. Rætt um fyrir fyrirkomulag málþingsins. Ákveðið var að halda málþingið á Selfossi. Fundargerðin staðfest.

3. Fundargerð samgöngunefndar SASS frá 4. desember sl.

Stjórnin tekur undir athugasemdir nefndarinnar um fyrirkomulag snjómoksturs. Fundargerðin staðfest.

4. Erindi frá Byggðastofnun, dags. 18. nóvember, 2009, þar sem óskað er umsagnar um ný drög að byggðaáætlun fyrir árin 2010 – 2013, ásamt athugasemdum menningarfulltrúa á landinu við drögin.

Stjórn SASS bendir á að eðlilegt sé að drögin verði innlegg í vinnu við sóknaráætlanir fyrir Ísland sem vinna er hafin við og gerir því ekki athugasemdir við þau að svo stöddu. Tekið er undir þau sjónarmið sem fram koma í athugasemdum menningarfulltrúanna.

5. Erindi frá félagsmálaráðuneytinu, dags. 17. nóvember 2009, varðandi fyrirhugaða tilfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Jafnframt lagt fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 30. nóvember 2009, með ályktun stjórnar sambandsins þar sem sveitarfélög eru hvött til að hefja sem fyrst undirbúning að myndun þjónustusvæða vegna málefna fatlaðra. Einnig lagt fram bréf frá SASS til aðildarsveitarfélaga, dags. 3. desember 2009, um fyrirhugaðan undirbúning að tilfærslunni.

6. Bréf frá heilbrigðisráðuneytinu, dags. 6. nóvember 2009, vegna ályktunar á ársþingi SASS.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt:

,,Stjórn SASS lýsir miklum áhyggjum með þær hagræðingaraðgerðir sem felast í skerðingu á þjónustu heilbrigðisstofnana á svæðinu og fækkun starfa á landsbyggðinni. Er það í hróplegri mótsögn við þá stefnu ríkisvaldsins að fjölga beri opinberum störfum á landsbyggðinni ef þess er kostur.

Stjórn SASS mótmælir harðlega þeirri ákvörðun að leggja niður vaktþjónustu á skurðdeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi sem mun leiða til lokunar á fæðingarþjónustu stofnunarinnar þar sem óhugsandi er talið að starfrækja fæðingardeild sem ekki er studd af fæðingarlækni á bakvakt. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að að fæðingar á síðasta ári voru um 200 talsins auk allrar annarrar þjónustu sem fæðingardeildin veitir. Þessi þjónusta færist því til Landsspítalans með öllu því óhagræði sem því fylgir fyrir notendur þjónustunnar. Auk þess er bent á að öryggi sjúklinga og sængurkvenna getur verið ógnað vegna ótryggra samgangna að vetri til.

7. Bréf frá Rangárþingi ytra, dags. 26. nóvember 2009, varðandi svæðaskiptingu sóknaráætlunar fyrir Ísland 20/20.

Stjórn SASS tekur undir það sjónarmið að skort hafi samráð við sveitarfélögin þegar svæðaskiptingin var ákveðin en leggur áherslu á að vinna við sóknaráætlunina taki tillit til fjölbreytilegra aðstæðna á Suðurlandi.

Guðmundur Þór vék af fundi.

8. Bréf frá Vestmannaeyjabæ, dags. 25. nóvember 2009, með ályktun um málefni Landeyjahafnar.

Til kynningar.

Elliði gerði grein fyrir margvíslegri skerðingu á þjónustu í samgöngumálum á undanförnum mánuðum.

Ólafur vék af fundi.

9. Erindi frá Alþingi þar sem óskað er umsagnar um:

a. Frumvarp til laga um sveitarstjórnarmál (fjöldi sveitarstjórnarfulltrúa) 15. mál

Lagt fram.

b. Frumvarp til laga um tekjuskatt o.fl. (landið eitt skattumdæmi) 226. mál.

Stjórn SASS leggst gegn samþykkt frumvarpsins þar sem ljóst er að breytingin mun leiða til fækkunar starfa og þá sérstaklega hálaunastarfa og skerðingar á þjónustu. Ennfremur skal á það minnt að samkvæmt vandaðri skýrslu fjármálaráðuneytisins 2008 leiðir sameining ríkisstofnana sjaldnast til sparnaðar eða í undir 15% tilvika.

c. Frumvarp til laga um friðlýsingu Skjálfandafljóts, 44. mál.

Lagt fram.

d. Frumvarp til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum, 93. mál.

Stjórn SASS gerir athugasemdir við að þjóðgarðurinn verði að öllu leyti undanþeginn lögum um frístundabyggð. Eðlilegra væri að tiltaka þær greinar laganna um frístundabyggð sem ekki eigi við um þjóðgarðinn. Stjórn SASS leggur jafnframt til að við 2. grein laganna verði bætt ákvæði um að fulltrúi Bláskógabyggðar fái sæti í Þingvallanefnd til viðbótar þeim 7 þingmönnum sem í henni sitja, eða, til vara, fái áheyrnarfulltrúa í nefndinni. Rökin eru augljós, verkefni nefndarinnar skarast að sumu leyti á við verkefni sveitarfélagsins skv. lögum og því nauðsynlegt að fullt samráð sé á milli þessara aðila auk þess sem nauðsynlegt upplýsingaflæði væri tryggt.

e. Frumvarp til laga um dómstóla (sameining héraðsdómstóla) 100. mál

Eftirfarandi umsögn um málið sem stjórn SASS hefur samþykkt hefur verið komið á framfæri.

„Stjórn SASS leggur þunga áherslu á að áfram verði starfandi héraðsdómstóll og dómþinghár á þeim stöðum sem í dag eru á starfsvæði SASS, þ.e.a.s. á Selfossi, Höfn í Hornafirði og í Vestmannaeyjum og leggst eindregið gegn öllum þeim hugmyndum sem verða til þess að þjónusta í hinum dreifðu byggðum skerðist. Stjórn SASS telur að fækkun dómstóla á starfssvæði SASS leiði til þess að réttarvernd almennings verði skert og kostnaður íbúa við að sækja rétt sinn fyrir dómi verði óhóflegur. Enn og aftur sér stjórn SASS sig knúna til að minna á landfræðilega sérstöðu Vestmannaeyja og Hafnar í Hornafirði þar sem í dag eru starfræktir dómstólar og harmar það skilningsleysi sem ríkir gagnvart þessari sérstöðu. Stjórn SASS bendir einnig á að ekkert í frumvarpinu bendir til þess að hagræðing verði af fækkun dómstóla. Þá varar stjórn SASS við því að dómstólaráð skuli eiga að fara með ákvörðunarvald um fjölda dómstóla á landinu og telur hætt við að hagsmunir þess mótist fyrst og fremst af hagsmunum dómara en ekki íbúa hinna dreifðari byggða.

Stjórn SASS harmar einnig vaxandi tilhneigingu ríkisvaldsins til að flytja störf og áhrif úr hinum dreifðari byggðum og þá ekki síst vel launuð störf sem krefjast háskólamenntunar. Á það er minnt að fyrir liggja hugmyndir um niðurlagningu skattstofa, embætta lögreglustjóra, embætta sýslumanna og fl. Þessar fyrirætlanir stríða gegn tveimur leiðarljósum þeirrar byggðaáætlunar sem nú er í gildi sem er annars vegar að stórefla menntun á landsbyggðinni og hins vegar að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, sbr. meðfylgjandi byggðaáætlun 2006 – 2009 sem samþykkt var á Alþingi 3. júní 2006.

Stjórn SASS minnir einnig í þessu sambandi á vandaða úttekt fjármálaráðuneytisins frá 2008 sem gefin var út í ritinu ,,Sameining ríkisstofnana og tengdar breytingar“. Þar kemur skýrt fram að reynsla ríkisins af sameiningu stjórnsýslueininga og fækkun þeirra leiðir gjarnan til kostnaðarauka og aukins flækjustigs. Stjórn SASS telur líkur til að frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla sé undir þá sök seld.

Að lokum bendir stjórn SASS á að nýhafin er vinna við sóknaráætlanir í öllum landshlutum, undir forystu forsætisráðuneytisins í samvinnu við heimamenn, þar sem meðal annars er fyrirhugað að fjalla um opinbera þjónustu og uppbyggingu hennar. Eðlilegt hýtur að teljast að beðið verði með róttækar breytingar á stjórnsýslu ríkisins á landsbyggðinni þangað til að sú stefnumótun liggur fyrir.“

Formaður og framkvæmdastjóri skýrðu frá fundi um málið sem þeir sátu í gær, 10. desember, með allsherjarnefnd Alþingis ásamt fleiri umsagnaraðilum.

10. Erindi til kynningar.

a. Efni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

b. Fundargerð stjórnar Skólaskrifstofu Suðurlands frá 26. nóvember sl.

Stjórn SASS tekur eindregið undir ályktun stjórnarinnar um álit menntamálaráðuneytisins um skólagöngu fósturbarna. Einnig lagt fram bréf Skólastjórafélags Suðurlands sama efnis til menntamálaráðherra, dags. 20. nóvember 2009.

Stjórn SASS ítrekar það meginsjónarmið að lögheimilissveitarfélag barns greiði allan kostnað af skólagöngu þess. Þá telur stjórn SASS með öllu óeðlilegt að menntamálaráðuneytið hafi afskipti af skiptingu kostnaðar á milli sveitarfélaga. Jafnframt óskar stjórn SASS eftir því að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga taki þetta mál til umfjöllunar.

 

 

Fundi slitið kl. 13.55

Sveinn Pálsson
Aðalsteinn Sveinsson
Margrét Erlingsdóttir
Árni Rúnar Þorvaldsson
Þorvarður Hjaltason