fbpx

 

607. fundur stjórnar SASS

Austurvegi 56 Selfossi

5. apríl 2024, kl. 12:30-14:20

 

Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Árni Eiríksson, Arnar Freyr Ólafsson, Einar Freyr Elínarson, Brynhildur Jónsdóttir og Njáll Ragnarsson. Margrét Harpa Guðsteinsdóttir og Grétar Ingi Erlendsson boðuðu forföll og í þeirra stað komu Anton Kári Halldórsson og Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir. Einnig taka þátt Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir starfandi sviðsstjóri Þróunarsviðs SASS og Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri sem jafnframt ritar fundargerð.

Formaður býður fundarmenn velkomna.

1. Fundargerð
Fundargerð 60. fundar staðfest og hún og eldri fundargerðir undirritaðar.  

2. Aukaaðalfundur SASS í Vestmannaeyjum 

Formaður kynnir drög að dagskrá aukaaðalfundar SASS í Vestmannaeyjum 7. júní nk. Framkvæmdastjóra falið að uppfæra dagskrá í samræmi við umræður á fundinum.

3. Sóknaráætlun Suðurlands

Þann 5. mars sl. rann út umsóknarfrestur í Uppbyggingarsjóð Suðurlands í fyrri úthlutun 2024. Alls bárust sjóðnum 134 umsóknir sem eru nokkru fleiri en á síðasta ári. Umsóknir skiptust þannig; 89 umsóknir í flokk menningarverkefna og 45 umsóknir í flokk atvinnu- og nýsköpunarverkefna. Við úrvinnslu fagráða var ein umsókn var færð úr flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar og í menningarflokkinn.

Guðrún Ásdís kynnir vinnu fagráðanna tveggja og forsendur sem liggja til grundvallar tillögum þeirra. Fagráðin gera tillögu að úthlutun alls 40,5 m.kr. til samtals 65 verkefna.

Fagráð menningar gerir tillögu um að veita 49 verkefnum af 89 styrk eða um 50%, samtals að fjárhæð 22 m.kr.

Stjórn samþykkir tillögur fagráðs menningar.

Njáll vék af fundi þar sem fyrirtæki sem hann tengist á umsókn. Þetta er gert til að tryggja málsmeðferð við úthlutunina og er til samræmis við sveitarstjórnarlög nr. 138/2011.

Fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar gerir tillögu um að veita 16 verkefnum af 45 styrk eða 36%, samtals að fjárhæð 18,3 m.kr. Í óvenju mörgum atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefnum var sótt um háar styrkfjárhæðir og var ein umsókn yfir 2,5 m.kr. mörkunum og því ekki tekin til álita. Helmingur verkefna óskuðu eftir 2 m.kr. eða hærri styrkfjárhæð. Fagráð saknar umsókna um áhugaverð nýsköpunarverkefni, jafnvel frá starfandi fyrirtækjum eða aðilum sem eru komnir áleiðis með verkefni sín og ekki aðeins hugmyndum á frumstigi.

Stjórn samþykkir tillögu fagráðs atvinnuþróunar- og nýsköpunar óbreytta.

Ákveðið að skerpa á úthlutunarreglum fyrir næstu úthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands a.m.k. hvað varðar styrkfjárhæð og hámarksfjárhæð yfir ákveðið tímabil. Stjórn tekur undir sjónarmið fagráða um að það vanti umsóknir um áhugaverð nýsköpunarverkefni, jafnvel frá starfandi fyrirtækjum eða aðilum sem eru komnir áleiðis með verkefni sín og ekki aðeins hugmyndum sem eru á frumstigum. Loks áréttar stjórn SASS mikilvægi þess að umsækjendur leiti sér aðstoðar við gerð umsókna hjá byggðaþróunarfulltrúum.

Um leið og stjórn SASS óskar öllum styrkhöfum til hamingju þá þakkar hún öðrum umsækjendum fyrir áhugaverðar umsóknir.

Miðvikudaginn 9. apríl nk. verða niðurstöður styrkúthlutunar birtar á rafrænni úthlutunarhátíð sem hefst kl. 12:15, sjá nánar á sass.is.

Njáll kom á fundinn að lokinni umfjöllun um umsóknir í flokki menningarverkefna.

4. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka

Lagðar fram til kynningar; fundargerðir 18. og 19. funda stjórnar SSA, fundargerð 147. fundar stjórnar Austurbrúar, fundargerðir 798. og 799 funda stjórnar SSS, fundargerðir 58. og 59. funda stjórnar Vestfjarðastofu, fundargerðir 103. og 104. funda stjórnar SSNV, fundargerðir 60 og 61. funda stjórnar SSNE, fundargerðir 573. – 575. funda stjórnar SSH, fundargerðir 942.- 946. funda stjórnar sambandsins og fundargerðir 94. og 95. funda stýrihóps Stjórnarráðsins.

b. Skýrsla framkvæmdastjóra

Framkvæmdastjóri kynnir helstu verkefni frá síðasta fundi s.s.: gerð ársreikninga, áframhaldandi þátttaka í sprettstarfshópi sem skipaður var af mennta- og barnamálaráðherra, ferð Íslandsstofu og landshlutasamtaka á fjárfestingaráðstefnuna MIPIM í Frakklandi, Uppbyggingarsjóður Suðurlands, Svæðisskipulega fyrir Suðurhálendið og fundur með fulltrúum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um framlag til Sóknaráætlunar Suðurlands. 

c. Sameiginleg þróunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurnes, Suðurland og
Vesturland – Hvítá Hvítársvæðið

Formaður kynnir erindi framkvæmdastjóra SSH um að farið verði í að skoða möguleika á sameiginlega þróunaráætlun fyrir Hvítá Hvítársvæðið. Stjórn telur áhugavert að kanna
grundvöll þess og nefnir sem dæmi almenningssamgöngur. Stjórn felur framkvæmdastjóra að fylgja málinu eftir.

d. Heimavist við FSu 

Stjórn SASS lýsir yfir ánægju með og fagnar að samningur hafi náðst við ríkið um
áframhaldandi rekstur heimavistar við Fjölbrautaskólann á Suðurlandi.
Stjórn SASS endurnýjar umboð Einars Freys Elínarsonar, Jóhönnu Ýrar Jóhannsdóttur,
Antons Kára Halldórssonar, Sveins Ægis Birgissonar og Sólmundar Sigurðarsonar til að
vinna að hagsmunum FSu tengt framtíðaruppbyggingu heimavistar og húsnæðis.

e. Nám í fjallamennsku við framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu

Undanfarin ár hefur Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) boðið upp á nám í
fjallamennsku, það eina á landinu, og þannig verið leiðandi menntastofnun þegar kemur
að menntun fjallaleiðsögumanna á Íslandi. Nú ríkir óvissa um með hvaða hætti boðið
verður uppá námið en ljóst er að einhverjar breytingar verða á vegna kostnaðar við það.
Stjórn SASS hvetur menntamálaráðuneytið og skólannn til að leita allra leiða til að boðið
verði áfram upp á námið við FAS því augljóst er að ef ekki verði menntaðir leiðsögumenn til starfa í fjalllendi muni fagmennska minnka og öryggi ferðamanna einnig.

f. ART ráðstefna

ART teymið á Suðurlandi stendur fyrir ráðstefnu sem kallast Hegðun og líðan barna –
fræði í framkvæmd á Hótel Selfossi 11. apríl nk. Fjallað verður um hegðun og líðan barna á Íslandi út frá þverfaglegu sjónarhorni og erindi verða flutt af fagaðilum sem vinna að velferð barna. Ráðstefnan er hugsuð fyrir alla sem vinna með börnum og/eða hafa áhuga á málefnum þeirra.

g. 80. ára afmæli lýðveldisins 2024

Formaður kynnir erindi frá forsætisráðuneytinu tengt 80 ára afmæli lýðveldisins. Atriði
sem felst m.a. í flutningi kóralags, gönguferðar um þjóðlendur, útgáfu bókarinnar
„Fjallkona. Þú er móðir vor“ og að boðið verði upp á lýðveldis köku á þjóðhátíðardaginn.

h. Borgarstefna

Formaður kynnir að borgarstefnan sé til umsagnar á Samráðsgátt stjórnvalda. Formanni
og framkvæmdastjóra falið að skrifa umsögn um málið, sbr. hér.

Stjórn samþykkir að boðað verði til auka stjórnarfundar um miðjan apríl til að fara yfir úttekt Artemis á áfangastaðasofu. Næsti reglulegi fundur stjórnar er föstudaginn 10. maí nk. kl. 12:30

Fundi slitið kl. 14:20

Ásgerður K. Gylfadóttir

Einar Freyr Elínarson

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

Arnar Freyr Ólafsson

Árni Eiríksson

Brynhildur Jónsdóttir

Njáll Ragnarsson

Anton Kári Halldórsson

Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir 

607. fundur stjórnar SASS (.pdf)