fbpx

 

606. fundur stjórnar SASS

fjarfundur
2. febrúar 2024 kl. 12:30-13:45

 

Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Árni Eiríksson, Arnar Freyr Ólafsson og Einar Freyr Elínarson. Brynhildur Jónsdóttir, Njáll Ragnarsson og Grétar Ingi Erlendsson boðuðu forföll og í þeirra stað komu Bragi Bjarnason og Eyþór Harðarson. Einnig tekur þátt Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri, sem jafnframt ritar fundargerð. Fundarmenn tengjast fundinum með fjarfundarhugbúnaði.

Formaður býður fundarmenn velkomna.

1. Fundargerð
Fundargerð 605. fundar staðfest og undirrituð síðar. 

2. Aukaaðalfundur SASS 2024

Formaður kynnir undirbúning fyrir aukaaðalfund SASS 2024 sem verður haldinn í Vestmannaeyjum föstudaginn 7. júní nk.

Á aukaaðalfundinum verður kosið í stjórn, lagðar fram tillögur að breyttum samþykktum og önnur atriði sem tengjast rekstri samtakanna.

3. Sóknaráætlun Suðurlands

a) Skipan í fagráð menningar

Stjórn ræðir skipan fagráðs menningar sem meta umsóknir í Uppbyggingarsjóð Suðurlands. Stjórn samþykkir að skipan aðalmanna verði óbreytt 2024 frá fyrra ári en í ráðinu sitja:

  • Inga Lára Baldvinsdóttir, safnvörður myndasafns Þjóðminjasafns Íslands
  • Marteinn Steinar Þórsson, kvikmyndagerðarmaður
  • Inga Jónsdóttir, listfræðingur

Stjórn samþykkir jafnframt að skipa Andra Guðmundsson sem varamann.

b) Uppbyggingarsjóður Suðurlands – opnað fyrir umsóknir

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Suðurlands, fyrri úthlutun ársins. Umsóknarfrestur er til og með 5. mars nk. kl 16:00 og eru aðilar hvattir til að sækja um. Til úthlutunar eru samtals 42 m.kr. sem skiptast jafnt á milli verkefna á sviði menningar og atvinnu- og nýsköpunar. Kynningarfjarfundur fyrir umsækjendur verður haldinn 13. febrúar kl. 12:15. Umsækjendum stendur til boða að sækja ráðgjöf til byggðaþróunarfulltrúana á hverju atvinnusóknarsvæði.

Umsóknarfrestur í seinni úthlutun ársins verður í október nk.

Nánari upplýsingar um Sóknaráætlun Suðurland og Uppbyggingarsjóð Suðurlands er að finna á heimasíðu SASS, sass.is

c) Starfsáætlanir byggðaþróunarfulltrúa

Fyrir fundinum liggur til kynningar starfsáætlun byggðaþróunarfulltrúa árið 2024.

4. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka

Lagðar fram til kynningar; fundargerð 17. fundar stjórnar SSA, fundargerð 146. fundar stjórnar Austurbrúar, fundargerð 797. fundar stjórnar SSS, fundargerð 57. fundar stjórnar Vestfjarðastofu, fundargerð 102. fundar stjórnar SSNV, fundargerð 59. fundar stjórnar SSNE, fundargerðir 571. – 572. funda stjórnar SSH, fundargerð 941. fundar stjórnar sambandsins og fundargerð 93. fundar stýrihóps Stjórnarráðsins.

b. Skýrsla framkvæmdastjóra

Framkvæmdastjóri kynnir helstu verkefni frá síðasta fundi s.s.: gerð ársreikninga, áframhaldandi þátttaka í sprettstarfshópi sem skipaður var af mennta- og barnamálaráðherra, fundur með stýrihóps Stjórnarráðsins og skipulagning og úrvinnsla verkefna.

c. Greining á skipulagi Áfangastaðastofu Suðurlands

Á fundi stjórnar í lok október sl. var samþykkti að framlengja samningi, Markaðsstofu Suðurlands (MSS) og SASS um rekstur Áfangastaðastofu á Suðurlandi, út árið 2024.

Á tímabilinu janúar – mars myndi stjórn SASS láta vinna greiningu á því hvernig fyrirkomulagi eða skipulagi á rekstri Áfangastaðastofu verði best fyrir komið á Suðurlandi.

Verði niðurstaða greiningarinnar á þann hátt að hún krefjist breytinga á starfsemi og/eða samþykktum MSS þá verði þær kynntar haghöfum og lagðar fyrir aðalfund MSS að vori 2024. Komi til breytinga þá mun gefast tími til undirbúnings og aðlögunar að beggja hálfu, SASS og MSS áður en framlengdur samningur rennur út.

d. Fjarfundur með stýrihóp Stjórnarráðsins

Haldinn var fjarfundur 15. janúar sl. með fulltrúum stýrihóps Stjórnarráðsins með formanni og varaformanni stjórnar SASS, framkvæmdastjóra og sviðsstjóra Þróunarsviðs en á fundinum var farið yfir Sóknaráætlun Suðurlands árið 2023. Farið var yfir skipulagið og verklagið á Suðurlandi, starf byggðaþróunarfulltrúa auk þess sem áhersluverkefni voru kynnt og sagt frá verkefnum sem hlotið hafa styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

e. Þátttaka og þóknun fyrir aðra fundi 

Framkvæmdastjóri kynnir málið en fyrir liggur ákvörðun nýliðins ársþings um þóknun stjórnar og hvað skuli greitt fyrir aðra fundi. Samkvæmt óendurskoðuðu uppgjöri fyrir árið 2023 má áætla að heildarkostnaður vegna stjórnar samtakanna verði um 14 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir um 12 m.kr. þannig að kostnaðurinn er tæplega 17% umfram áætlun. Margt bendir til að kostnaður á árinu 2024 verði líka umfram áætlun. Skýringin á þessu er að upp hafa komið tilvik þar sem umfang, tíðni funda og/eða útlagður kostnaður er meiri eða minni en bókun ársþings um þóknun nær yfir. Stjórn telur mikilvægt að skýra málið betur og felur Fjárhagsnefnd samtakanna að yfirfara málið og koma með tillögu og nánari skýringu á verklagi fyrir ársþing samtakanna.

f. Heimavist við FSu 

Stjórn ræðir þá alvarlegu stöðu sem komin er upp varðandi heimavist fyrir nemendur í FSu og samþykkir eftirfarandi bókun varðandi málið:

Stjórn SASS skorar á mennta- og barnamálaráðherra að beita sér tafarlaust fyrir því að óvissu vegna heimavistar við Fjölbrautaskóla Suðurlands verði eytt hið allra fyrsta. Samkvæmt upplýsingum frá skólastjórnendum þá rennur samningur um núverandi húsnæði heimavistarinnar út á vordögum 2024 og engar ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja nemendum sem þess þurfa húsnæðisúrræði fyrir næsta skólaár.

Það markaði tímamót þegar samningar náðust um rekstur heimavistarinnar á haustdögum 2020 eftir nokkurra ára tímabil þar sem engin húsnæðisúrræði voru til staðar. Nýtingin á heimavistinni hefur verið mjög góð og það sætir því furðu að ríkið skuli ekki ganga frá samningum um áframhaldandi rekstur hennar þegar fyrir liggur að tilboð barst frá núverandi rekstraraðila.

Heimavist við skólann er lykilatriði í því að tryggja jafnrétti til náms á starfssvæði skólans og því með öllu óviðunandi að ríkið skuli bjóða ungmennum og fjölskyldum þeirra upp á þá óvissu sem nú er uppi.“

Framkvæmdastjóra og stýrihópi er falið að fylgja erindinu eftir og óska eftir fundi með ráðherra.

g. Ráðstefna um hegðun og líðan barna – fræði í framkvæmd

ART teymið á Suðurlandi stendur fyrir ráðstefnu sem kallast Hegðun og líðan barna – fræði í framkvæmd á Hótel Selfossi 11. apríl nk. Fjallað verður um hegðun og líðan barna á Íslandi út frá þverfaglegu sjónarhorni og erindi verða flutt af fagaðilum sem vinna að velferð barna. Ráðstefnan er hugsuð fyrir alla sem vinna með börnum og/eða hafa áhuga á málefnum þeirra. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu ART teymis www.isart.is og á facebook síðu viðburðarins hér.

Næsti fundur stjórnar verður haldinn föstudaginn 1. mars nk. kl. 12:30. 

Fundi slitið kl. 13:45

Ásgerður K. Gylfadóttir

Einar Freyr Elínarson

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

Arnar Freyr Ólafsson

Árni Eiríksson

Bragi Bjarnason

Eyþór Harðarson

606. fundur stjórnar SASS (.pdf)