fbpx

 

Suðurland: Paradís náttúruunnenda en áskoranir í atvinnumálum og innviðum

Niðurstöður Íbúakönnunar landshlutanna 2023 voru nýverið birtar í Deiglunni, riti atvinnuþróunarfélaganna, Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna. Könnunin var unnin af Vífli Karlssyni hagfræðingi, ráðgjafa og dósent við HA og Hrafnhildi Tryggvadóttur, ráðgjafa við SSV.

Könnunin, sem nær til alls landsins og byggir á svörum yfir 11.500 íbúa, sýnir að íbúar Suðurlands eru almennt ánægðir með náttúruna, friðsældina og öryggi á svæðinu. Þjónusta sveitarfélaganna, sérstaklega á sviði leikskóla og dvalarheimila, þykir íbúum góð. Þá hefur fækkað í hópi þeirra sem hyggjast flytja frá landshlutanum, sem gæti bent til aukinnar ánægju með búsetu.

Samkvæmt könnuninni eru íbúar á Suðurlandi óánægðastir með vöruverð, framfærslukostnað og takmarkað atvinnuúrval. Þessir þættir hafa versnað frá síðustu könnun og eru íbúum mjög mikilvægir. Að auki benda niðurstöðurnar til þess að bæta þurfi framboð leiguhúsnæðis og almenningssamgangna.

Fjöldi ferðamanna er einnig áhyggjuefni fyrir marga íbúa, sérstaklega í Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslum þar sem helmingur íbúa telur að of margir ferðamenn séu á svæðinu.

Hvar er best að búa á Suðurlandi?

Þó svo að val á búsetu sé persónubundið veitir könnunin vísbendingar um kosti og galla hvers svæðis:

Vestmannaeyjar: Mjög góð þjónusta sveitarfélagsins og öryggi en áskoranir eru í almenningssamgöngum og heilbrigðismálum.

Rangárvallarsýsla: Náttúrufegurð, friðsæld og góð þjónusta við aldraða, en hátt vöruverð, takmarkað atvinnuúrval og of margir ferðamenn valda áhyggjum.

Árnessýsla: Ásamt náttúrufegurð og friðsæld býður nálægð við höfuðborgarsvæðið upp á fjölbreyttari atvinnutækifæri og þjónustu, en almenningssamgöngur þarfnast úrbóta ásamt því að vöruverð og framfærslukostnaður er of mikill.

Skaftafellssýslur: Einstök náttúrufegurð og friðsæld, en hátt vöruverð, takmarkað atvinnuúrval og innviðir þarfnast úrbóta.

 

Íbúakannanir á borð við þessa eru ómetanlegt tæki fyrir stjórnvöld á öllum stigum. Þær veita mikilvæga innsýn í líf og afstöðu íbúa, sem gerir stjórnvöldum kleift að taka upplýstar ákvarðanir um stefnumótun og úthlutun fjármuna. Þær hjálpa til við að bera kennsl á styrkleika og veikleika samfélaga og þar með auka lífsgæði íbúa.

Samantekt á niðurstöðum má skoða hér.