fbpx

 

Setning aukaaðalfundar

Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður SASS setur fundinn og býður þingfulltrúa velkomna á aukaaðalfund SASS, þakkar hún Vestmannaeyingum fyrir móttökurnar.

 

Kosning fundarstjóra og fundarritara

Formaður tilnefnir fyrir hönd stjórnar Pál Magnússon og Eyþór Harðarson frá Vestmannaeyjabæ  sem fundarstjóra og Rósu Sif Jónsdóttur frá Sveitarfélaginu Árborg sem fundarritara. Er það samþykkt samhljóða.

Í lok máls felur formaður fundarstjórum stjórn fundarins.

 

Páll og Eyþór taka til máls og bjóða fundargesti velkomna til Vestmannaeyja á aukaaðalfund SASS.

 

Kosning kjörbréfanefndar

Páll tekur til máls og leggur fram svohljóðandi tillögu stjórnar SASS að kjörbréfanefnd.

Kjörbréfanefnd                                           Sveitarfélag
Aldís Hafsteinsdóttir                                Hrunamannahreppur
Sigurjón Vídalín Guðmundsson           Sveitarfélagið Árborg
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir         Rangárþing ytra

Er tillagan samþykkt samhljóða og tekur kjörbréfanefnd þegar til starfa.

 

Yfirlit um störf stjórnar

Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður flytur skýrslu stjórnar sem fjallar um helstu verkefni á milli aðalfundar og aukaaðalfundar samtakanna 26. október 2023 og til 7. júní 2024.

Kynnir hún fimmtán aðildarsveitarfélögin sem standa að samtökunum, einnig fer hún yfir stjórn SASS en það verða breytingar á stjórn nú á fundinum. Hún kynnir skipurit og fer yfir starfsmenn SASS en  breytingar hafa orðið á starfsmannahópnum.

Þriggja ára samningur um ART verkefnið er að renna út um næstu áramót. Hafið er samtal við mennta- og barnamálaráðuneytið um endurnýjun á samningi. Starf ART teymisins hefur eflst mikið frá upphafi og árangurinn verið góður. Vonast er eftir að viðræður um endurnýjun á samningi gangi vel.
Fer hún yfir samninga sem samtökin eru aðilar að s.s. um Sóknaráætlun Suðurlands, þjónustusamninga við SOS og EFS, samning um atvinnu- og byggðaþróun við Byggðastofnun, samning við samstarfsaðila vegna verkefna byggðaþróunarfulltrúa, samning við Íslandsstofu um samstarf um kynningarmál, upplýsingamiðlun og framgang fjárfestingaverkefna ásamt samning um áfangastaðastofu við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.

Grunnstarfsemi SASS snýst um að sinna hagsmunagæslu fyrir aðildarsveitarfélögin og eru þau að vinna að því alla daga.  

Haldnir hafa verið átta stjórnarfundir frá síðasta aðalfundi og hafa þeir flestir verið í fjarfundi. Upplýsingafundir formanns og framkvæmdastjóra hafa verið haldnir fyrir sveitarstjórnir og hafa þeir verið vel sóttir og mörg málefni verið rædd og kynnt. Einnig eru haldnir reglulegir fundir með öðrum landshlutasamtökum og formanni og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Samningur við Markaðsstofu Suðurlands um rekstur á áfangastaðastofu rann út um áramótin og nýr árssamningur var gerður á milli MSS og Ferðamálastofu en sveitarfélögin eiga eftir að ákveða hvert framhaldið verður.

Bjarni hefur unnið í sprett hópi mennta- og barnamálaráðuneytisins um farsældarmálin. Nú er í boði viðaukasamningur við ríkið vegna farsældarráðsverkefnis undir merkjum Sóknaráætlunar og er nú tækfæri fyrir sveitarfélögin að vinna að þessum málum saman og fá greitt frá ríkinu.

Byggðaþróunarmálin eru stór þáttur í vinnu samtakanna, en með uppskiptingu á Suðurlandi í sjö atvinnusóknarsvæði varð til öflugur hópur fulltrúa sem vinna þétt saman og aðstoða hvert annað.

Sóknaráætlun hefur breyst, nú er nýr samningur að taka við sem gildir fyrir tímabilið 2025 – 2029 og við það verða einhverjar breytingar á áherslum.

Fjárframlög til landshlutasamtaka verða alltaf fyrir lækkun í fjárlögum og hefur það verið þannig í mörg ár. Samtökin hafa árlega gert athugasemdir við fjárlög og hafa þá fengist hækkanir við afgreiðslu fjárlaganefndar. Það er mikilvægt að fylgja þessu vel eftir.  

Hlúa þarf að Uppbyggingarsjóði Suðurlands og styðja við verkefnið, við það eykst fjölbreytileiki atvinnulífs á Suðurlandi og hefur jákvæð áhrif á samfélagsþróun.  

Í haustúthlutun 2023 bárust 96 umsóknir og var úthlutað 36,9 m.kr. til 64 verkefna. Verkefnin voru 54 í flokki menningar að fjárhæð 23,95 m.kr. og tíu verkefni í flokki atvinnu- og nýsköpunarverkefna að fjárhæð 12,9 m.kr.

Í vorúthlutun 2024 bárust 134 umsóknir og var úthlutað tæpum 40,5 m.kr. til 66 verkefna. Verkin voru 50 í flokki menningar að fjárhæð 22,2 m.kr. og 16 verkefni í flokki atvinnu- og nýsköpunarverkefna að fjárhæð 18,3 m.kr.

Gerð er þjónustukönnun meðal styrkþega einu sinni á ári og hefur þjónusta SASS verið að koma vel út og eru aðilar sem nýta sér þjónustuna almennt mjög ánægðir.

Það skiptir máli að fá niðurstöður úr árangursmati meðal þeirra sem hljóta styrki en stór hluti styrkþega segja að verkefnið hefði ekki orðið að veruleika án styrkveitingar frá SASS.

Það geta allir sent inn tillögu að áhersluverkefni á vef SASS, nú eru í vinnslu eða nýlokið 33 verkefnum. 
Að lokum spyr hún “Hvernig virkjum við Sóknaráætlun Suðurlands til næstu ára?”

 

Niðurstöður kjörbréfanefndar um lögmæti fundarins

Aldís Hafsteinsdóttir formaður kjörnefndar kveður sér hljóðs og kynnir niðurstöður um lögmæti fundarins. Kemur fram að kjörnir fulltrúar eru 70. Alls eru 52 aðalfulltrúar mættir, 16 varamenn og 2 fjarverandi. Fundurinn úrskurðast því lögmætur.

 

Ársreikningur SASS 2023

Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS kynnir ársreikning SASS fyrir árið 2023. Tekjur SASS á liðnu ári voru 208 m.kr., rekstrargjöld 216 m.kr. og fjármunatekjur um  8 m.kr. Rekstrartap ársins var því um 100 þ.kr. Fasteignamat fasteignar félagsins að Austurvegi 56 á Selfossi er fært upp í bókum samtakanna og mun framvegis fylgja fasteignamati. Eigið fé samtakanna er neikvætt um 1 m.kr.

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

 

Páll fundarstjóri ber ársreikning samtakanna 2023 undir atkvæði og er hann samþykktur samhljóða.

 

Tillögur að breytingum á samþykktum SASS

Árni Eiríksson formaður allsherjarnefndar SASS fer yfir tillögu um breytingar á samþykktum samtakanna og leggur fram eftirfarandi rökstuðning allsherjarnefndar fyrir tillögu um tvo fundi á ári:

 

Samantekt með breytingartillögu allsherjarnefndar SASS sem lögð var fyrir ársþing samtakanna 2023 og nú lögð fram að nýju en afgreiðslu var á ársþinginu frestað til næsta auka- eða aðalfundar SASS. Tillagan er lögð fram óbreytt.

 

Allsherjarnefnd leggur til við ársþing SASS að gera breytingar á samþykktum SASS, um að halda skuli tvo árlega fundi í stað ársþings að hausti. Lagt er til að halda aðalfund á ársþingi að vori og haustfund á haustþingi. Er tillagan sett fram til að auka og efla upplýsingamiðlun og samráð kjörinna fulltrúa á Suðurlandi. Hafa umræður í allsherjarnefnd verið á þá leið að efla megi upplýsingamiðlun enn frekar með þeim breytingum. Með tveimur fundum á ári gefist tækifæri til aukinna umræðna á hvorum fundi fyrir sig og unnt sé að fela hvorum fundi sértæk hlutverk. Í stað þess að kveðið sé á um ársþing SASS að hausti er ársþing SASS haldið að vori. Samhliða ársþingi SASS að vori er aðalfundur haldinn og samhliða haustþingi er haldinn haustfundur. Á aðalfundi yrðu hefðbundin aðalfundarstörf, s.s. lagður fram ársreikningur, starfsskýrsla liðins árs og kosningar. Samhliða kosningum er lagt til að skipa í milliþinganefndir sem starfi frá aðalfundi fram að haustfundi. Hlutverk aðalfundar eru því fremur hefðbundin miðað við tímasetningu fundar að vori, þar sem unnt er að leggja meiri áherslu á nýliðið starfsár samhliða framlögðum ársreikningi og starfsskýrslu. Haustfundur fær þá í megin atriðum það hlutverk uppskeru umræðna og skoðanaskipta milliþinganefnda sem skila afurðum sínum inn í umræður um störf næsta árs. Hlutverk haustfundur verður því að fjalla um framlagðar tillögur nefnda um ályktanir og tillögur að verkefnum, samhliða umfjöllun um fjárhagsáætlun næsta árs og framlagðar áætlunar til þriggja ára. Gert er ráð fyrir því að skýrslur nefnda og ráða, tillögur stjórnar og tillögur sem borist hafa frá aðildarsveitarfélögunum eða réttkjörnum þingfulltrúum eigi við á báðum fundum. Þó er gengið út frá að megin þungi í málefnavinnu eigi sér stað á haustfundi. Með þessum breytingum er ársreikningur til umfjöllunar á eðlilegri tíma að mati nefndarinnar, unnt er að leggja meiri áherslu á umræður um starfsemi nýliðins árs og formfesta um leið störf milliþinganefnda. Lögð er til ákveðin útfærsla um milliþinganefndir sem gefur aðalfundi tækifæri til aukins sveigjanleika um hlutverk og heiti tiltekinna nefnda. Með því geta samtökin brugðist við áskorunum líðandi stundar út frá mati á þörf hverju sinni. Tillagan tekur einnig mið af þeim breytingum sem gerðar voru árið 2016 með því að tilgreina starfsnefndir en útfærslan tekin áfram og eins tekið mið af núverandi framkvæmd óháð úthlutunarreglum, s.s. með leiðbeinandi verklags fyrir nefndarvinnu. Eins er tekinn af allur vafi um lögmæti fjarfunda hvort sem um ræðir stjórnar-, nefnda- eða aðal- og haustfundi.

Árni Eiríksson

Formaður allsherjarnefndar 

 

Bragi Bjarnason bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar leggur fram eftirfarandi tillögu bæjarfulltrúa Árborgar um breytingar á samþykktum SASS:

 

Lagt er til að stjórn SASS verði falið að láta endurskoða samþykktir SASS. Umræða hefur verið um breytingar á einstaka greinum í samþykktunum og telja undirrituð að það sé skynsamlegur kostur að horfa til heildarendurskoðunar á samþykktum SASS. Endurskoðaðar samþykktir yrðu þá lagðar fram til umræðu og afgreiðslu á haustfundi SASS 2024.

 

Fulltrúar Sveitarfélagsins Árborgar

 

Fundarstjóri gefur orðið laus til máls taka Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Íris Róbertsdóttir, Ása Valdís Árnadóttir, Einar Freyr Elínarson, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, Ari Björn Thorarensen, Álfheiður Eymarsdóttir, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir og Jón Bjarnason.

 

Tillaga bæjarfulltrúa Árborgar um að fara í heildarendurskoðun á samþykktum SASS er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

 

Ásgerður Kristín Gylfadóttir tekur til máls og ræðir um breytingar á samþykktum en hlutverkið þarf að vera skýrt. Spyr hún hvort að stjórn SASS hafi umboð sveitarfélaga til að vinna að farsældarmálum og geti þá fengið starfsmann í verkefnið. Biður hún sveitarfélögin að taka fyrir erindi sem sent hefur verið á öll sveitarfélögin um farsældarverkefni og senda niðurstöður til SASS.

 

Páll Magnússon fundarstjóri tekur til við stjórn fundarins.

 

Kosning í stjórn og nefndir

Aldís formaður kjörbréfa- og kjörnefndar tekur til máls og leggur til eftirfarandi tilnefningar til við fundinn um aðal- og varamenn í stjórn SASS, kosið verði sér um formann og varaformann SASS:

Stjórn SASS

Aðalmenn:
Gauti Árnason, Sveitarfélagið Hornafjörður

Jóhannes Gissurarson, Skaftárhreppur

Anton Kári Halldórsson, Rangárþing eystra

Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjabær

Árni Eiríksson, Flóahreppur

Brynhildur Jónsdóttir, Sveitarfélagið Árborg

Arnar Freyr Ólafsson, Sveitarfélagið Árborg
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Hveragerðisbær
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir, Sveitarfélagið Ölfus


Varamenn:

Eyrún Fríða Árnadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppur
Eyþór Harðarson, Vestmannaeyjabær
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Rangárþing ytra
Bragi Bjarnason, Sveitarfélagið Árborg
Ellý Tómasdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Jón Bjarnason, Hrunamannahreppur
Sandra Sigurðardóttir, Hveragerðisbær
Erla Sif Markúsdóttir, Sveitarfélagið Ölfus

Páll fundarstjóri leggur fram tillögu kjörnefndar um aðal- og varamenn í stjórn SASS og er hún  borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Aldís formaður kjörnefndar leggur fram eftirfarandi tillögur kjörnefndar um formann og varaformann SASS:

 

Lagt er til að Anton Kári Halldórsson, Rangárþingi eystra verði formaður SASS og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Hveragerðisbæ  verði varaformaður.

Fundarstjóri gefir orðið laust, enginn tekur til máls.

Tillaga að formanni og varaformanni SASS er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir fráfarandi formaður tekur til máls. Þakkar hún fyrir tímann sem hún hefur verið formaður og í stjórn SASS sl. 6 ár, þetta hefur verið góður tími og hún hefur lært margt. Hún óskar nýrri stjórn velfarnaðar og hvetur sveitarstjórnarmenn til að bjóða sig fram til setu í stjórn SASS þegar tækifæri gefst.

 

Anton Kári Halldórsson nýkjörinn formaður SASS tekur til máls og þakkar traustið fyrir að fá að stýra samtökunum til næstu tveggja ára. Hlakkar hann til að vinna með nýrri stjórn en um leið þakkar hann fráfarandi stjórn fyrir samstarfið.  

 

Nýkjörinn formaður og framkvæmdastjóri kveða sér hljóðs og þeir fá Njál Ragnarsson og Einar Freyr Elínarson til að flytja lag og texta en þar er fyrrverandi formanni þakkað fyrir vel unnin störf fyrir samtökin á liðnum árum.

 

Ásgerði Kristínu Gylfadóttur, Grétari Inga Erlendssyni, Margréti Hörpu Guðsteinsdóttur og Einari Frey Elínarsyni, er færður þakklætisvottur fyrir setu í stjórn en þau ganga úr stjórn að þessum fundi loknum.  

 

Eyþór fundarstjóri tekur við stjórn fundarins.  

 

Ásgerður Kristín Gylfadóttir tekur til máls og leggur fram tillögu fyrir fundinn um að fundurinn samþykki að teknar verði fyrir ályktanir á fundinum.

Eyþór leggur til að tillaga Ásgerðar um að ályktanir verði lagðar fram á fundinum verði samþykkt, er hún borin undir atkvæði samþykkt samhljóða.

 

Ályktun vegna óstaðsettur í húsi

Ása Valdís Árnadóttir tekur til máls og leggur fram eftirfarandi tillögu að ályktun á aukaaðalfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldinn er í Vestmannaeyjum 7. júní 2024:

Sunnlensk sveitarfélög leggja til að farið verði í breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur sem feli í sér að einstaklingar, sem ekki eru með lögheimili í skráðu íbúðarhúsnæði, verði skráðir með ótilgreint heimilisfang í því sveitarfélagi þar sem viðkomandi var með tilgreint heimilisfang síðast, en ekki í því sveitarfélagi þar sem viðkomandi hefur haft þriggja mánaða samfellda dvöl. Það frjálsræði við skráningu lögheimilis sem leiðir af túlkun Þjóðskrár á núgildandi ákvæði í 2. mgr. 4. gr. laga um lögheimili og aðsetur er í andstöðu við skýr fyrirmæli laga um að lögheimili skuli skráð í íbúðarhúsnæði og að föst búseta sé óheimil í frístundabyggð. Túlkun Þjóðskrár er einnig til þess fallin að grafa undan forræði sveitarfélaga í skipulagsmálum og getur auk þess haft slæm áhrif á rekstrargrundvöll þeirra. Markmiðið á bak við tillögu þessa að lagabreytingu er því að koma í veg fyrir að unnt sé að sniðganga bann við fastri búsetu og skráningu lögheimilis í frístundabyggð.

 

Greinagerð
Aukaaðalfundur Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga beinir eftirfarandi ályktun, annars vegar til Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hafa eftirfarandi atriði í stefnumörkun sinni í skipulags- og húsnæðismálum:

6.7 Unnin verði áætlun um að útrýma óviðunandi og hættulegu íbúðarhúsnæði og sporna gegn óleyfilegri búsetu. Samhliða verði lögð áhersla á viðeigandi lausnir í húsnæðismálum fyrir þá sem búa í slíku húsnæði.

6.8 Sambandið beiti sér fyrir breytingum á lögum um lögheimili og aðsetur þar sem sérstaklega verið litið til fjölgunar þeirra sem skrá lögheimili án tilgreinds heimilisfangs. Við útfærslu lagabreytinga verði unnið út frá þeirri meginreglu að skipulag sveitarfélaga ráði því hvar heimilt er að skrá lögheimili og einnig hvar sveitarfélögum er skylt að veita þjónustu við íbúa.

Og hins vegar til innviðaráðherra sem fer með málefni sveitarfélaga og Þjóðskrár.

Grundvallar málaflokkur fyrir þróun byggðar, búsetufrelsis og samfélags eru skipulagsmál hvers sveitarfélags og er það í gegnum skipulagsáætlanir, þ.m.t. aðalskipulag, sem vinnan á sér stað. Við gerð og endurskoðun aðalskipulags fyrir sveitarfélag er að mörgu að huga en í aðalskipulagi á að koma fram stefna sveitarfélagsins um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál. Í aðalskipulagi hafa sveitarstjórnir ákveðna landnotkunarflokka sem þær vinna með til ákvörðunar m.a. um búsetufyrirkomulag og stýra þannig íbúa- og byggðaþróun með sínum skipulagsáætlunum og meta út frá því hverskonar uppbygging þarf að eiga sér stað í sveitarfélaginu. Samhliða aðalskipulagi eru unnar ýmsar áætlanir, m.a. húsnæðisáætlun sem aðstoða sveitarstjórnir og starfsmenn sveitarfélaga við að gera áætlanir um þjónustu og innviðauppbyggingu í samfélaginu. Innviðir í sveitarfélögum eru t.d. leik- og grunnskólar, fráveitur og vatnsveitur.

Sveitarstjórnir hafa skipulagsvaldið og því fylgir ábyrgð en það er með skipulagsáætlunum sem ákveðið er hvernig íbúa- og byggðaþróun er í sveitarfélögunum og er það eins og áður sagði byggt á ýmsum áætlunum og stefnum sem unnar eru út frá hagsmunum hvers sveitarfélags. Skipulagsáætlanir geta svo vissulega tekið breytingum með formlegu skipulagsferli en aðalskipulagi er þó almennt ætlað að móta stefnu sveitarfélags til langs tíma.

Samkvæmt 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands skulu allir, sem löglega búa á landinu, ráða búsetu sinni sjálfir og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem settar eru í lögum. Í lögum um lögheimili og aðsetursegir að lögheimili skuli skráð í íbúð eða húsi sem er skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og hefur staðfang. Í skipulagslögum og skipulagsreglugerð kemur skýrt fram að frístundabyggð sé ekki ætluð til fastrar búsetu og að föst búseta sé óheimil í frístundabyggð. Sú þróun sem er að eiga sér stað með aukinni skráningu á einstaklingum með ótilgreint heimilisfang, sem ekki búa í skráðu íbúðarhúsnæði, hefur einnig áhrif á skipulagsáætlanir sveitarfélaga sem og hagsmuni einstaklinga sem hafa keypt sér frístundahús eða frístundahúsalóð með væntingar um að þar verði framtíðar frístundahúsabyggð með takmarkaðri búsetu en ekki heilsársbúsetu.

Sunnlensk sveitarfélög lýsa yfir áhyggjum sínum yfir þeim aukna fjölda skráninga einstaklinga með ótilgreint heimilisfang innan sveitarfélaganna og auknum fjölda einstaklinga sem dvelja í atvinnuhúsnæði. Mest er skráning einstaklinga með ótilgreint heimilisfang í sveitarfélögum með miklar frístundabyggðir, en þó þekkist slík skráning víðar. Tilvikum sem þessum fjölgar ört innan sunnlenskra sveitarfélaga og er hlutfall einstaklinga sem skráðir eru án tilgreinds heimilisfangs mjög hátt þar í samanburði við íbúafjölda, svo og í samanburði við önnur sveitarfélög. Slík skráning setur m.a. íbúa- og byggðaþróun sveitarfélags úr skorðum, sem og mögulega stjórnsýslu sveitarfélags og uppbyggingu innviða, en dæmi eru um það að íbúar með ótilgreint heimilisfang séu 14,5% af íbúum sveitarfélags. Sunnlensk sveitarfélög telja að sú framkvæmd Þjóðskrár Íslands, að skrá einstaklinga með lögheimili í sveitarfélagi á grundvelli dvalar í frístundahúsi, grafi verulega undan skipulagsvaldi og sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna og sé í ósamræmi við meginreglur laga um lögheimili og aðsetur sem og skipulagslög. Að störfum er starfshópur skipaður af innviðaráðuneytinu í mars 2023 til að greina hvar einstaklingar sem skráðir eru ótilgreint í hús eru búsettir og hvort verið sé að misnota 2. mgr. 4. gr. laga um lögheimili og aðsetur til að auðvelda einstaklingum búsetu t.d. í frístundabyggð og sniðganga þar með bann við fastri búsetu og skráningu lögheimilis á slíkum svæðum. Áætlað er að hópurinn skili af sér niðurstöðum á næstu vikum.

Sunnlensk sveitarfélög leggja til að farið verði í breytingu á lögum um lögheimili og aðsetur sem feli í sér að einstaklingar, sem ekki eru með lögheimili í skráðu íbúðarhúsnæði, verði skráðir með ótilgreint heimilisfang í því sveitarfélagi þar sem viðkomandi var með tilgreint heimilisfang síðast, en ekki í því sveitarfélagi þar sem viðkomandi hefur haft þriggja mánaða samfellda dvöl. Það frjálsræði við skráningu lögheimilis sem leiðir af túlkun Þjóðskrár á núgildandi ákvæði í 2. mgr. 4. gr. laga um lögheimili og aðsetur er í andstöðu við skýr fyrirmæli laga um að lögheimili skuli skráð í íbúðarhúsnæði og að föst búseta sé óheimil í frístundabyggð. Túlkun Þjóðskrár er einnig til þess fallin að grafa undan forræði sveitarfélaga í skipulagsmálum og getur auk þess haft slæm áhrif á rekstrargrundvöll þeirra. Markmiðið á bak við tillögu þessa að lagabreytingu er því að koma í veg fyrir að unnt sé að sniðganga bann við fastri búsetu og skráningu lögheimilis í frístundabyggð.

Fundarstjóri gefur orðið laust til máls taka Haraldur Þór Jónsson og Helgi Kjartansson.

Tillaga að ályktunin vegna íbúa með ótilgreint heimilisfang er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Njáll Ragnarsson tekur til máls og leggur fram eftirfarandi tillögu að ályktun á aukaaðalfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldinn er í Vestmannaeyjum 7. júní 2024:

Aukaaðalfundur SASS skorar á Alþingi að samþykkja tafarlaust samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038. Innviðaframkvæmdir á sjó, á landi og í lofti velta á því að áætlunin sé samþykkt og því ekki hægt að ljúka þingstörfum án þess að Alþingi afgreiði málið.

Þá hvetur fundurinn ríkisstjórnina til þess að tryggja fjármögnun rannsókna á jarðlögum á milli lands og Vestmannaeyja sem vinnuhópur um fýsileika Vestmannaeyjagangna telur nauðsynlegt að fara í til að hægt sé að taka ákvörðun um framtíðar samgöngur við Vestmannaeyjar.

Fundarstjóri gefur orðið laust til máls taka Axel Árnason Njarðvík, Álfheiður Eymarsdóttir, Íris Róbertsdóttir, Anton Kári Halldórsson, Arnar Freyr Ólafsson og Njáll Ragnarsson.

Njáll Ragnarsson tekur til máls og leggur fram eftirfarandi breytingatillögu eftir umræður á fundinum:

Aukaaðalfundur SASS skorar á Alþingi að samþykkja tafarlaust samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038. Innviðaframkvæmdir á sjó, á landi og í lofti velta á því að áætlunin sé samþykkt og óásættanlegt að ljúka þingstörfum án þess að Alþingi afgreiði málið.

Þá hvetur fundurinn ríkisstjórn til þess að tryggja fjármögnun rannsókna á jarðlögum á milli lands og Vestmannaeyja sem vinnuhópur um fýsileika Vestmannaeyjagangna telur nauðsynlegt að fara í til að hægt sé að taka ákvörðun um framtíðar samgöngur við Vestmannaeyjar.

Breytingatillaga að ályktun vegna samgönguáætlunar er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

 

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar kynnir sveitarfélagið.

Íris ræðir um þær áskoranir sem Vestmannaeyjar standa frammi fyrir í hagsmunagæslu.
Ræðir hún um samgöngumálin. Það er mikilvægt að auðvelt sé að komast milli lands og Eyja. Eftir Covid-19 var ekki boðið upp á flug til Vestmannaeyja en nú á að bjóða út ríkisstyrkt flug næsta vetur en það verður einungis styrkt yfir vetrartímann.

Rekstur Herjólfs hefur gengið vel, var þó erfiður þegar að Covid-19 stóð yfir. Dýpkun og höfnin í Landeyjum er áhyggjuefni og kostnaðarsöm og hefur áhrif á mannlífið í Eyjunni, það ríkir mikil óvissa meðal íbúa. Það þarf að fara í endurbætur á húsnæði Herjólfs í Vestmannaeyjum og lagfæringu á stórskipakanti.

Það þarf að skoða vel hvort að jarðgöng séu ákjósanlegur valkostur og betri rekstrarlega þegar til lengri tíma er litið.

Vatnsleiðsla til Vestmannaeyja skaddaðist í nóvember sl. og er mikilvægt að koma upp varalögn til eyjunnar. Vestmannaeyjar hafa verið á hættustigi fram til þessa, ef lögnin fer þá er ekki hægt að halda uppi mannlífi og atvinnulífi. Einnig þarf að huga að rafstrengnum til Eyja því ef hann fer er keyrt á varaafli sem er keyrt á díselolíu. Það er ekki nóg að vera með einn rafstreng. Það er komið inn í kerfisáætlun að bæta við tveimur rafstrengjum og vonast hún eftir að farið verði í þær framkvæmdir. Ræðir hún um kostnaðinn við að vera á köldum svæðum, það eru ekki í lögum að heimilum sé tryggð forgangsorka en stórfyrirtækin eru með samninga varðandi það.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands rekur sjúkrahús og dvalarheimili í Vestmannaeyjum. Það er ekki mikill skilningur hjá yfirstjórn varðandi reksturinn og getur ástæðan verið að það sé of langt í stjórnina, það væri æskilegt að aðili úr Eyjum væri í stjórn. Það þarf að gera móttöku á bráðamóttöku skilvirkari, einnig er nokkuð um sjúkraflug til og frá Vestmannaeyjum.

Að lokum ræðir hún um hvaða stóru mál eiga að vera á borði landshlutasamtakanna, það þarf að leggja ákveðin mál  í forgrunn, það er betra að taka færri mál fyrir og  gera það vel.

 

Stefnumörkun fyrir Sóknaráætlun Suðurlands 2025 – 2029

Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir og Þórður Freyr Sigurðsson kynntu vinnufund um Sóknaráætlun Suðurlands 2025-2029 á aukaaðalfundi SASS 7. júní 2024.

Hólmfríður Sveinsdóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu, tekur til máls en hún er formaður í sóknarnefndinni en eitt helsta verkefni nefndarinnar er Sóknaráætlun landshluta.

Kynnti hún verkefnið Sókn fyrir atvinnulíf og samfélag sagði hún frá upphafinu og hvernig verkefnið hefur gengið fyrir sig varðandi Sóknaráætlun Suðurlands og hverju þær hafi áorkað fyrir ríki og sveitarfélög. Það hefur orðið mikil valddreifing og landshlutarnir eru orðnir mun öflugri. Með áætluninni hefur gengið vel að samþætta opinbera stefnu og áætlanir og með því verður meiri skilvirkni og gagnsæi. Það er gríðarlega mikil samstarf og samráð milli aðila.

Landshlutasamtökin og sóknarnefndin tengja saman 12 ráðuneyti og 63 sveitarfélög. Nýr samningar munu gilda til ársins 2030.

Þegar að sóknaráætlun er tilbúin þá er auðveldara að fara í aðgerðir og nota þær stefnur sem tilheyra hverju máli fyrir sig.

Það þarf að huga að því hvernig er hægt að nýta vannýttan mannauð, hugsa um, hvernig getum við og hvernig ætlum við að gera landshlutann enn betri og hvernig er hægt að láta alla róa í sömu átt. Einnig velti hún fram þeirri spurningu hvort sveitarstjórnir þekki sóknaráætlanir sem eru í gildi hjá þeim?  

Þórður Freyr fer yfir stöðuna. Það er erfitt að fara yfir mælanleg markmið en markmiðin voru sett fyrir fimm árum síðan. Best er að finna út bestu mögulegu aðgerð til að ná ákveðnu markmiði.

Að meðaltali hafa 56 verkefni fengi úthlutað í hverri úthlutun. Farið verður í 10. úthlutunina í haust. Gerðar hafa verið þjónustukannanir og þjónustumat en það er mikilvægt að sjá hverju styrkveitingarnar eru að skila. Hægt er að skoða dreifingu um svæðið og einnig er hægt að sjá hvernig byggðaþróunarfulltrúum gengur að ná til aðila á sínu svæðum.

Velja þarf réttu áhersluverkefnin til að ná árangri. Eitt að markmiðunum er að auka fjármuni til nýrra verkefna í landshlutanum.

Kynnt er myndband en þar flytur Bergur Ebbi Benediktsson erindi um Sóknaráætlun Suðurlands.

Fundarmenn vinna í starfshópum að stefnumótendavinnu.

Á meðan á vinnu starfshópa stendur og í lokin draga Guðrún og Þórður saman upplýsingar sem komu úr vinnu sem fram fór á fundinum og kynna fyrir fundarmönnum.

Fundarstjórar óskar eftir heimild til handa fundarritara og fundarstjórum að ganga frá fundargerðinni og senda hana til sveitarfélaganna.

Nú er komið að fundarlokum aukaaðalfundar SASS og gefa fundarstjórar Antoni Kára Halldórssyni formanni orðið. Þakkar hann sveitarstjórnarmönnum fyrir góðan, málefnalegan og gagnlegan fund. Einnig þakkar hann fundarstjórum, starfsmönnum SASS og öðrum starfsmönnum fyrir góðan undirbúning fyrir fundinn og Vestmannaeyingum fyrir viðurgjörning allan.

Fundi slitið kl. 16:03

Rósa Sif Jónsdóttir fundarritari.

Fundargerð aukaaðalfundar SASS 2024 (pdf.)