fbpx

Markmið

Markmið verkefnisins er að auka sýnileika og eftirspurn eftir sunnlenskri matvöru. Með aukinni eftirspurn verður til betra rekstrarumhverfi til nýsköpunar, framleiðslu og sölu á sunnlenskri matvöru á öllum vinnslustigum, frá frumframleiðslu til fullunninnar vöru og framreiðslu. 

Verkefnislýsing

Matarmenning Suðurlands er auðlind sem vert er að kynna. Árin 2019-2020 var matarauðurinn greindur, kortlagður og ítarlegar upplýsingar settar fram á vef. Nú er komið að því að draga þessar upplýsingar saman í áhugaverðar sögur, skapa umtal og gera matarmenninguna að eftirsóttri vöru og upplifun. Verkþættir miða að því að auka sýnileika og þar með eftirspurn eftir sunnlenskri matvöru og skapa frjóan jarðveg fyrir nýsköpun í matvælaframleiðslu.  

Útbúin verður birtingaáætlun og myndrænt og áhugavert efni um matartengda menningu, sölustaði, veitingastaði og matvælaframleiðendur á Suðurlandi útbúið og kynnt skv. áætlun. Aflað verður myndefnis og texti/sögur skrifaðar fyrir samfélagsmiðla, kort, blogg vef. Ásamt því að þessu verður komið á innlenda og erlenda fjölmiðla m.a. í gegnum Íslandsstofu. Haldin verður opin vefvinnustofa um sögutækni með matvöru þar sem öllum einstaklingum og fyrirtækjum innan matvælageirans á Suðurlandi verður boðin þátttaka

Tengsl við sóknaráætlun 2020-2024

Verkefnið tengist megináherslunni Atvinna og nýsköpun þar sem lögð er áhersla á öflugt atvinnulíf á Suðurlandi sem og auka framleiðni fyrirtækja. 

Væntur árangur

 

Í upphafi verkefnis verður gerð greining á umfangi matartengdra upplýsinga á miðlum MSS, og umferð um þá. Sama greining verður gerð að verkefnistíma loknum og aftur á miðju ári 2025.  

  • Í lok árs 2024 eru vefsíður um Matarauð Suðurlands innan south.is vel sýnilegar og notendavænar. Nýjar bloggfærslur hafa verið skrifaðar um matarmenninguna og færslur fyrir samfélagsmiðla verið skapaðar. Merki eru um aukna umferð um matartengdar síður south.is. Matur hefur hlotið fastan sess á samfélagsmiðlum MSS með auknu efni frá aðilum tengdum sunnlenskum mat.  
  • Minnst 20 aðilar (einstaklingar eða fyrirtæki) tengdir matarmenningu Suðurlands hafa tekið þátt í vinnustofu tengdu verkefninu og fengið kennslu í sögutækni sem nýtist þeim í eigin ímyndarsköpun og markaðssetningu.  
  • Allt kynningarefni, textar og myndefni sem verður til við vinnslu verkefnisins mun vera aðgengilegt Markaðsstofu Suðurlands og SASS

Lokaafurð

Lokaafurð verkefnisins er vel hannað kynningarefni í formi færslna á samfélagsmiðlum, vefsvæðis south.is og í bloggfærslum. Ávinningur samfélagsins er aukin vitund um matarmenningu Suðurlands, aukin eftirspurn eftir sunnlenskum matvælum og þar með bætt umhverfi til nýsköpunar og rekstrar í matvælaiðnaði í landshlutanum. 

 


Framkvæmdaraðili
Markaðsstofa Suðurlands 
Samstarfsaðilar

SASS og byggðaþróunarfulltrúar á Suðurlandi

Heildarkostnaður

5.804.336 kr. 

Þar af framlag úr Sóknaráætlun

2.500.000 kr. 
Ár
2024
Upphaf og lok verkefnis
Janúar – desember 2024
Staða
Í vinnslu 
Númer

243004