fbpx

Markmið

Að Skjálftinn hæfileikakeppni unglinga á Suðurlandi festi sig í sessi á Suðurlandi og að gott samfstarf myndist milli sunnlenskra skóla. Að nemendur fái vettvang fyrir frjálsa listsköpun, fari í gegnum skapandi ferli svo úr verði lokaafurð sem fær að njóta sín á fullbúnu sviði

Verkefnislýsing

Skjálftinn er hæfileikakeppni unglingastigs í grunnskólum á Suðurlandi sem haldin var í fyrsta sinn í maí 2021, þá fyrir alla skóla í Árnessýslu. Í Skjálftanum 2024 verður öllum skólum á Suðurlandi boðin þátttaka, 17 samtals. Skjálftinn byggist á því að unglingar þrói leikverk frá hugmynd til sviðssetningar. Markmiðin eru að efla sköpunargáfu, kenna unglingum að hugsa út fyrir rammann, kenna verklag, þjálfa þau í markvissu og langvinnu hópastarfi, styrkja sjálfsmynd einstaklinga og skóla, efla samstarf skólanna og efla samstarf milli skóla og félagsmiðstöðva. 

Tengsl við sóknaráætlun 2020-2024

Í Sóknaráætlun Suðurlands er ein af þremur megináherslum: BÆTT MENNING, VELFERÐ, MENNTUN OG SAMSTARF SVO LÍFSGÆÐI EFLIST OG MANNLÍF Á SUÐURLANDI BLÓMSTRI. Menningarverkefni eins og Skjálftinn uppfyllir án vafa öll þessi markmið og eykur á sama tíma hróður Suðurlands þegar kemur að barnamenningu. Þetta leynir sér ekki ef afrakstur Skjálftans 2021 er skoðaður, þrátt fyrir covid takmarkanir. Ímyndið ykkur hvað gerist svo þegar liðin fá að hittast, koma fram fyrir framan fullan sal af áhorfendum, þar sem samnemendur, kennarar og skólastjórnendur hittast til að hvetja sín lið áfram. Þarna verða til töfrar!

Í Skjálftanum fá öll ungmenni jafnt tækifæri til þátttöku, líka þau sem eru af erlendu bergi brotin og oft með minni aðgang að menningu. Ungmenni í sunnlenskum grunnskólum fá nýjan vettvang til listsköpunar og geta fengið nýja innsýn inn í menningu og menningartengd störf. Þau geta upplifað menningu bæði sem beinir framleiðendur og þátttakendur í menningarviðburði og þau sem koma og horfa á fá tækifæri til að vera menningarneytendur á metnaðarfullum menningarviðburði. Eins og glögglega kom í ljós í viðhorfskönnun eftir Skjálftann þá minnkaði þátttaka í Skjálftanum kvíða margra þátttakenda, reynslan var sjálfseflandi og skemmtileg og þannig má færa rök fyrir því að verkefnið geti aukið hamingju Sunnlendinga.

Skjálftinn hefur alla burði til að vera árangursríkt samstarfsverkefni allra sveitarfélaga á Suðurlandi, auka samstöðu byggðarlaga og vera frábært tól fyrir SASS til að uppfylla metnaðarfull markmið sóknaráætlunar

Væntur árangur 

Að sem flestir skólar á Suðurlandi taki þátt í Skjálftanum og gefi þannig ungmennum tækifæri á að koma fram og taka þátt með öðrum jafningjum sínum. 

Árangur verður mældur með viðhorftskönnun að loknum Skjálfta. 


Framkvæmdaraðili
Ása Berglind Hjálmarsdóttir 
Samstarfsaðilar
Allir skólar á Suðurlandi sem vilja taka þátt. 
Heildarkostnaður
10.000.000 kr.
Þar af framlag úr Sóknaráætlun
3.000.000 kr. árið 2022, 4.000.000 kr. árið 2023 og 7.000.000 kr. árið 2024.
Ár
2022
Upphaf og lok verkefnis
Verkefnið hófst á árinu 2022 og verður lokið 31.12.2024
Staða
Í vinnslu 

Númer
243014 (223007)