fbpx

Byggðaþróunarfulltrúar á Suðurlandi ásamt staðgengli sviðsstjóra þróunarsviðs SASS komu saman í síðastliðinni viku í Skaftárhreppi þar sem árlegur vorfundur þeirra fór fram. Markmið fundarins var að efla samstarf og tengsl milli byggðaþróunarfulltrúa og SASS og jafnframt að kynna þeim svæðið þar sem fundurinn fer fram.

Dagskráin hófst á mánudegi á því að Unnur Einarsdóttir Blandon, byggðaþróunarfulltrúi Skaftárhrepps leiddi hópinn í dagsferð um svæðið. Á ferðinni kynntist hópurinn nokkrum staðbundnum fyrirtækjum, þar á meðal Sandhóli sem er þekkt fyrir framleiðslu á repju og höfrum úr eigin ræktun. Kristín Lárusdóttir, bóndi á svæðinu, bauð hópnum í kaffi og með því á hestabúgarð sinn þar sem hún og eiginmaður hennar sérhæfa sig í hestatamningum. Auk þess naut hópurinn fjórhjólaferðar með Bjössa á Arndardrangi um Meðalandið í frábæru, en köldu vorveðri.

Á þriðjudeginum fundaði hópurinn og var þá farið yfir og rýnt í Sóknaráætlun Suðurlands. SASS, eins og önnur landshlutasamtök, vinna nú að uppfærslu áætlunarinnar, og er væntanleg ný útgáfa í lok árs sem mun gilda frá árinu 2025 til 2029. Ferlið verður kynnt ítarlegar á næstunni og Sunnlendingar munu í því fá tækifæri til að hafa áhrif á nýja stefnuna.

Á Suðurlandi eru starfandi byggðaþróunarfulltrúar á öllum sjö atvinnusóknarsvæðunum. Við hvetjum alla til að kynna sér þá fjölbreyttu þjónustu sem þeir bjóða upp á, þar á meðal ráðgjafarþjónustu. Nánari upplýsingar má finna á www.sass.is/radgjof.