fbpx

Komin er út ný skýrsla um félagsleg þolmörk íbúa á Suðurlandi gagnvart ferðamönnum og ferðaþjónustu en hún er lokaafurð áhersluverkefnis Sóknaráætlunar Suðurlands. Rannsóknin fór af stað haustið 2017 og var unnin af Þorvarði Árnasyni og Arndísi Láru Kolbrúnardóttur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Hornafirði.

Helsta markmið verkefnisins var að afla upplýsinga um viðhorf íbúa á Suðurlandi gagnvart ferðaþjónustu og greina þannig þolmörk íbúa gagnvart ferðamönnum og ferðaþjónustu út frá hinum ýmsu þáttum í innviðum samfélagsins. Einnig var markmiðið með að afla þessara upplýsinga að fá fram stöðumat og þar með forsendu til ákvarðanatöku til að bregðast við ef þurfa þykir.

Könnuð voru viðhorf íbúa til ýmissa þátta ferðaþjónustunnar, bæði í landshlutanum í heild en einnig tekin fyrir sérstaklega uppgangssvæðin Bláskógabyggð, Mýrdalshreppur og Sveitarfélagið Hornafjörður. Ýmis jákvæð og neikvæð viðhorf komu fram og meðal þeirra jákvæðu voru efling atvinnulífs, sköpun nýrra starfa, fjölgun íbúa, bætt lífskjör og aukin lífsgæði. Það sem helst kom fram sem neikvæð áhrif voru meiri og hættulegri umferð á þjóðvegum og aukið álag á ýmsa grunnþjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu og löggæslu.

Rannsakendur telja að á heildina litið megi álykta að áhrif af völdum ferðaþjónustu – og þá hvort heldur jákvæð eða neikvæð – þurfi ekki að birtast með sama hætti í öllum byggðarlögum, jafnvel þótt umfang ferðaþjónustunnar sé af sömu stærðargráðu. Munur á staðbundnum aðstæðum getur þannig ráðið miklu um hvort viðhorf til einstakra áhrifa af völdum ferðaþjónustunnar verði jákvæð eða neikvæð.

Hér er hægt að nálgast skýrsluna í heild – Nýr veruleiki í mótun?

Einnig er hægt að nálgast hér ítarlega skýrslu sem Félagsvísindastofnun vann í tengslum við rannsóknina.