fbpx

Nýverið auglýstu Samtök sunnlenskra sveitarfélaga eftir umsóknum um styrki til menningar- og nýsköpunarverkefna á Suðurlandi. Um er er að ræða fyrri úthlutun styrkveitinga á árinu úr nýjum sjóði, Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Alls bárust að þessu sinni 184 umsóknir. Styrkur var veittur 93 verkefnum og er heildar fjárhæð styrkveitinganna rúmlega 42 milljónir. Styrkveitingar til menningarverkefna voru um 18 mkr. og 24 mkr. til nýsköpunarverkefna. Verkefnin eru fjölbreytt og ná til ólíkra atvinnu- og listgreina og styðja við verkefni vítt og breytt um landshlutann. Umsóknir að þessu sinni gefa okkur tilefni til að vera bjartsýn þegar litið er til framtíðar. Úthlutað verður héðan í frá tvisvar sinnum á ári úr sjóðunum, bæði til menningar- og nýsköpunarverkefna.

Uppbyggingarsjóður Suðurlands hefur það hlutverk að styrkja menningar-, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni, auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlun Suðurlands og stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshlutans. Verkefnastjórn Sóknaráætlunar á Suðurlandi fer með endanlegt hlutverk úthlutunarnefndar en úthlutunarnefndir á sviði menningarmála annars vegar og atvinnuþróunar og nýsköpunar hins vegar, skiluðu tillögum til verkefnastjórnar. Umsjón og ábyrgð Uppbyggingarsjóðsins er hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.

Sjá lista yfir samþykktar styrkveitingar hér.

Nánari upplýsingar um úthlutunina veitir verkefnisstjóri Uppbyggingarsjóðsins, Þórður Freyr Sigurðsson, í síma 480-8200 eða með tölvupósti á netfangið thordur@sudurland.is.