fbpx

Stjórn SASS hefur fjallað um tillögur fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar annars vegar og fagráðs menningar hins vegar um úthlutun verkefnastyrkja úr Uppbyggingasjóði Suðurlands. Um er að ræða seinni úthlutun sjóðsins árið 2023. Umsóknir voru samtals 96, í flokki atvinnuþrónar- og nýsköpunarverkefna bárust 22 umsóknir og 74 í flokki menningarverkefna.

Að þessu sinni var 36,9 m.kr. úthlutað, rúmlega 12,9 m.kr. til 10 verkefna í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar og 23,95 m.kr. til 54 verkefna í flokki menningar. Samtals eru veittir styrkir til 64 verkefna.

Hæsta styrkinn í flokki menningarverkefna hlaut að þessu sinni Listasafn Árnesinga fyrir verkefnið „4 einkasýningar“ að upphæð 1,2 m.kr. Listasafn Árnesinga hefur á síðustu árum komið með hverja sýninguna á fætur annari sem slá í gegn og ná mjög vel til almennings. Í þessari sýningu eru það fjórir vel þekktir listamenn í senunni: Hrafnkell Sigurðsson, Erla Haraldsdóttir, Kristinn Már og Sigga Björg sem sameinast með fjórum einkasýningum sem sýningarstjórinn Birta Guðjónsdóttir heldur utan um. Birta er einnig einn af okkar fremstu sýningarstjórum og var hún td. sýningarstjóri Shoplifter í Feneyjum árið 2019 með CHROMO SAPIENS.

Í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar hlaut Sighvatur Lárusson fyrir verkefnið PackWall Byggingaplötur styrk að upphæð 2,5 m.kr. Verkefnið snýr að framleiðslu á PackWall byggingaplötunum. Jafnframt er ætlunin að þróa aðferðir til að safna hráefni á nýjan hátt svo ekki þurfi að flokka allt hráefnið hjá söfnunaraðilum.

Þá hlaut Norea ehf. fyrir verkefnið Norea Medical styrk að upphæð 2 m.kr., Norea Medical er fyrirtæki sem veitir heilbrigðisþjónustu þar sem sú almenna nær ekki til.
Starfsemin er þríþætt á sviði leiðangra, viðburða og fræðslu. Verkefnið gengur út á að efla okkar viðskiptahóp og stækka markaðssvæðið með því að fullmóta og þróa okkar vöru og þjónustu, skapa nýtanlegt markaðs- og kynningarefni og koma því á framfæri þar sem mestur hagur hlýst af.

Lista yfir öll verkefni sem hlutu styrk má sjá hér.

Úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Suðurlands fór fram 14. nóvember kl. 12:15 og má horfa á hana hér: