fbpx

Menntaverðlaun Suðurlands sem veitt eru af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga voru afhent í fjórtánda sinn fimmtudaginn 13. janúar á árlegum hátíðarfundi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands. Athöfnin fór fram í streymi og var send út frá Fjölheimum á Selfossi.

Alls bárust átta tilnefningar til Menntaverðlaunanna fyrir árið 2021:

  1. Fjallmennskunámið hjá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu
  2. Magnús J. Magnússon fyrrverandi skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri
  3. Ásta Kristjana Guðjónsdóttir sérkennari, sérfræðingur og ráðgjafi í nýtingu snjalltækja og annarra rafrænna bjargráða í námi og kennslu grunnskólabarna
  4. Valgreinar á unglingastigi í Grunnskólanum í Þorlákshöfn
  5. Guðlaug Einarsdóttir kennari á unglingastigi í Grunnskólanum í Þorlákshöfn
  6. Garðar Geirfinnsson náttúrufræðikennari við Grunnskólann í Þorlákshöfn
  7. Skjálftinn hæfileikakeppni
  8. Eyjólfur Eyjólfsson fyrir Langspilsverkefni

Allar átta tilnefningarnar eru verðugar verðlaunanna og er öllum þeim sem sendu inn tilnefningar þakkað, þær voru fjölbreyttar og gefa góða mynd af því öfluga menntastarfi sem er á Suðurlandi.

Úthlutunarnefndin sem skipuð var af stjórn SASS fjallaði um tilnefningarnar og var niðurstaðan sú að Menntaverðlaun Suðurlands hlaut Magnús J. Magnússon fyrrum skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri fyrir framlag hans til eflingar leiklistarstarfs meðal grunnskólanema.

Ásamt því að vera skólastjóri, stýrði Magnús leikhópnum Lopa sem er nemendaleikhópur skólans. Auk þess hefur hann nýtt leiklistina til að efla samskipti og samskiptahæfni í bekkjum skólans, sem hefur eflt nemendur og styrkt þá í félagsfærni og samskiptum. Þá hefur Magnús verið ein af aðal spírum Þjóðleiks sem er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og margra grunn- og framhaldsskóla, menningarráða, sveitarfélaga og áhugaleikfélaga á landsbyggðinni. Hefur hann sýnt óþrjótandi fórnfýsi hvað varðar tíma og eftirfylgni til eflingar leiklistarstarfs meðal gunnskólanema og landshlutans í heild.

Við óskum Magnúsi til hamingju með verðlaunin.

Helgi Kjartansson varaformaður SASS og Magnús J. Magnússon