fbpx

Út er komin greining á vegum SASS um stöðu og þróun atvinnulífs á Suðurlandi, með sérstakri áherslu á ferðaþjónustuna. Í greiningunni koma m.a. fram upplýsingar um rekstrartekjur greinarinnar, fjölda starfa og hlutfall erlendra ríkisborgara í greininni – upplýsingarnar eru sundurliðaðar niður á sveitarfélög á Suðurlandi.

Um miðjan mars 2020 þegar ljóst var að COVID-19 myndi hafa mikil áhrif á samfélag og atvinnulíf á Suðurlandi, hófust Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) handa við að greina möguleg áhrif sem COVID-19 gæti valdið. Frá þeim tíma hefur stór hluti verkefna þróunarsviðs SASS snúist um mótvægisaðgerðir og stuðning við atvinnulíf á Suðurlandi.  Sérstök áhersla hefur verið lögð á ferðaþjónustuna, sem hefur verið í miklum ólgusjó það sem af er ári.

Ferðaþjónustan á Suðurlandi hefur um langt skeið spilað gríðarlega mikilvægt hlutverk í atvinnulífi á Suðurlandi. Vægi ferðaþjónunnar hefur aukist mikið á s.l. 10 árum, mismikið eftir sveitarfélögum. Að mati SASS hefur vantað töluvert af upplýsingum til að fá skýra mynd af ferðþjónustunni á Suðurlandi og þá sérstaklega gögn sem greinanleg eru niður á sveitarfélög. Til að bregðast við því hefur SASS unnið að greiningu á atvinnulífinu á Suðurlandi sem ber heitið Hagtölur um atvinnulíf á Suðurlandi með sérstaka áherslu á ferðaþjónustu. Greiningin er unnin af Hrafni Sævaldssyni, nýsköpunar- og þróunarstjóra Þekkingarseturs Vestmannaeyja, sem jafnframt er ráðgjafi á vegum SASS. 

Útgangspunktur greiningarinnar er ferðaþjónusta á Suðurlandi en upplýsingum er jafnframt gerð skil um atvinnulíf svæðisins í heild. Öflun gagna var unnin í nánu samstarfi við Hagstofu Íslands. Nokkrar af helstu niðurstöðum greiningarinnar eru:

  • Störfum fjölgaði mikið á Suðurlandi á tímabilinu 2012 til 2019 eða um 3.491 einstaklinga í aðalstarfi. Störfum í ferðaþjónustu fjölgaði um 1.937 eða 55,4% allra nýrra starfa. Íbúum fjölgaði á sama tíma um 4.834.
  • Í þeim sveitarfélögum þar sem vægi ferðaþjónustunnar er hvað hæst er mest fjölgun aðalstarfa á milli ára. Ferðaþjónustustörfum fjölgaði sem dæmi um 634% á milli áranna 2009 – 2019 í Mýrdalshreppi. Árið 2019 var rúmlega helmingur aðalstarfa í Mýrdalshreppi í ferðaþjónustu eða 52,3%. Árið 2009 var hlutfallið þar 15,3%. Næst hæst, árið 2019, var hlutfallið í Skaftárhreppi, 51,1%. Lægst, árið 2019, var hlutfallið í Ölfusi, 10,3%.
  • Tæplega 100 ma.kr. voru greiddar í heildarlaun á Suðurlandi árið 2019. Meðallaunin voru 498 þús. á mánuði. Launþegar á skrá voru 22 þús. einstaklingar. Hæst meðallaun voru í Vestmannaeyjum eða 562 þús. á mánuði.
  • Heildarlaun í ferðaþjónustu voru tæpar 16 ma.kr. eða tæplega 16% heildarlauna á Suðurlandi. Meðallaun í ferðaþjónustu á Suðurlandi voru 423 þús. á mánuði árið 2019 eða um 15% lægri en meðallaun almennt á Suðurlandi á sama tíma. Hæst meðallaun í ferðaþjónustu voru í Vestmannaeyjum eða 513 þús. á mánuði.
  • Ferðþjónustan skapar 18,8% starfa á Suðurlandi og 16% launa.
  • Ársverk í ferðaþjónustu voru 3.124 á árinu 2019. Þar af voru erlendir ríkisborgarar 1.517 (48,6%) og íslenskir ríkisborgarar 1.607 (51,4%). Hlutfall erlendra ríkisborgara af öllu atvinnulífinu á Suðurlandi er 21,4%.
  • Hlutfall rekstrartekna í ferðaþjónustu af heildar rekstrartekjum allra atvinnugreina á Suðurlandi á árinu 2018 var 17% á Suðurlandi. Hæst var hlutfallið í Mýrdalshreppi, 78,7% og þar á eftir í Skaftárhreppi, 55,1%. Lægst var hlutfallið í Vestmannaeyjum, 3,9%.
  • Um 13% fyrirtækja á Suðurlandi starfa í ferðaþjónustu.
  • 41% ársverka erlendra ríkisborgara á Suðurlandi voru í ferðþjónustu.

 

Í maí s.l. skilaði Byggðastofnun minnisblaði um áhrif hruns ferðaþjónustu vegna COVID19 á sveitarfélögin á Íslandi. Níu sveitarfélög voru þar sérstaklega tiltekin og voru fimm þeirra á Suðurlandi; Sveitarfélagið Hornafjörður, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra og Bláskógabyggð. Samráðsteymi sveitarfélaga vegna efnahagsáhrifa COVID-19 var sett á fót sem lagði fram tillögur að aðgerðum. Þegar hafði starfshópur starfað með sveitarfélögunum á Suðurnesjum. Í framhaldi kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skiptingu 150 milljóna króna fjárveitingar til sex sveitarfélaga. Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Skútustaðahreppur fá hvert um sig úthlutað 32 m.kr. en Bláskógabyggð, Rangárþing eystra og Sveitarfélagið Hornafjörður fá hvert um sig 18 m.kr. Gögn úr greiningunni voru m.a. lagðar til grundvallar í vinnu samráðsteymisins.

SASS hefur þegar lagt til 65 mkr. í aðgerðir til aðstoðar ferðaþjónustunni á Suðurlandi. Fjármunirnir eru hluti af Sóknaráætlun Suðurlands og voru tilkomnir vegna aukafjárveitingar og vegna endurákvörðunar SASS á ráðstöfun fjármuna til verkefna á árinu 2020. Hafa m.a. verið veittir beinir verkefnastyrkir til 96 ferðaþjónustufyrirtækja á Suðurlandi, unnið að markaðsátaki fyrir Suðurland í heild sinni og unnið að fræðsluverkefnum með ferðaþjónustufyrirtækjum.

SASS hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á að hafa tiltæk gögn sem geta gefið greinargóða mynd af þróun og stöðu samfélags og atvinnulífs á Suðurlandi. Stefnt er að því að upplýsingar sem þessar verði í náinni framtíð birtar með reglubundnum og gagnvirkum hætti. Greininguna má nálgast hér að neðan eða hlaða henni niður hér (.pdf).

Nánari upplýsingar veita;

Þórður Freyr Sigurðsson, sviðsstjóri þróunarsviðs SASS (thordur@sass.is)
Hrafn Sævaldsson, nýsköpunar- og þróunarstjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja (hrafn@setur.is)

 

201022. Hagtölur um atvinnulíf á Suðurlandi með sérstaka áherslu á ferðaþjónustu