fbpx

Ályktanir ársþings SASS í Hveragerði 18. og 19. október 2018

ÁLYKTANIR ÁRSÞINGS SASS 2018

Samgönguáætlun Suðurlands

Vísað er til Samgönguáætlunar Suðurlands 2017-2026 sem kynnt var á ársþingi samtakanna 2017. Skýrslan er ákall sveitarstjórna á Suðurlandi um bætta vegi á Suðurlandi, þörf fyrir nýframkvæmdir, viðhald og bætt öryggi á vegum, betri fjarskipti, ljósleiðara sem og GSM samband. Þá fjallar áætlunin um almenningssamgöngur, að flugsamgöngum og ferjusiglingum meðtöldum.
Ársþing SASS 2018 telur að skýrslan sýni að enn sé aðgerða þörf í samgöngum á Suðurlandi, bæði í uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins til að tryggja öryggi vegfarenda.
Ársþing SASS 2018 fer þess á leit við stjórn SASS að farið verði í að uppfæra þá vinnu sem unnin var í áætluninni og í takt við framkvæmdir sem þegar hefur verið ráðist í frá því skýrslan var gerð. Lagt er til að drögin verði lögð fyrir ársþing SASS 2019.

Umferðaröryggi (einbreiðar brýr, yfirborð vegar)

Ársþing SASS 2018 áréttar niðurstöður Samgönguáætlunar SASS 2017-2026 er varðar öryggi á vegum en fagnar þeim úrbætum sem gerðar hafa verið og voru tilteknar í áætluninni.
Ítrekað er mikilvægi þess að fyrirhuguðum áformum varðandi úrbætur á þjóðvegakerfinu gangi eftir um að tryggja umferðaröryggi s.s. merkingar á vegum. Einnig verði hugað að öryggi hjólandi umferðar, hestaumferðar o.s.frv. Er bent á mikilvægi þess að fara í átak í umferðarfræðslu/forvörnum og gæslu. Upplýsingaveitur eru lykilatriði í að fræða ferðamenn til að draga úr slysahættu á vegum landsins.
Ársþing SASS 2018 leggur áherslu á að litið verið til þeirra forgangsverkefna sem fyrrgreind skýrsla samtakanna tekur til og eiga að vera kláraðar fyrir 2020. Slysahætta af einbreiðum brúm er mikil og nauðsynlegt að gera úrbætur þar á.

Almenningssamgöngur

Ársþing SASS 2018 ítrekar áskorun á ríkisvaldið að standa vörð um almenningssamgöngur í landinu. Óboðlegt er að ekki sé fundin lausn á málinu. Ríkið þarf að sýna ábyrgð og tryggja forsendur almenningssamgangna og það rekstrarfjármagn sem þarf til.
Forsenda þess að ársþing SASS 2018 samþykki fjárhagsáætlun samtakanna fyrir árið 2019 er að samningar náist við ríkið um að halda úti óbreyttum rekstri almenningssamgangna út árið 2019 og að ríkið greiði 50 m.kr. til viðbótar í fjármögnun verkefnisins. Það er jafnframt afdráttarlaus krafa ársþings SASS að ríkið geri upp 36 m.kr. halla vegna ársins 2018. Ef ekki tekst að ná fram verulegum hækkunum til málaflokksins við gerð fjárlaga 2019 telur ársþingið nauðsynlegt að hætta rekstri almenningssamgangna um komandi áramót.
Ársþing SASS 2018 ítrekar fyrri ályktanir um að skilvirkt lagaumhverfi um almenningssamgöngur sé forsenda þess að sveitarfélögin á Suðurlandi geti haldið utan um þetta verkefni. Staða mála nú er í raun algerlega óviðunandi fyrir sveitarfélögin en fyrirséð er að tap verður á rekstri almenningssamgangna hjá SASS fjórða árið í röð.

Ársþing SASS 2018 skorar á stjórn SASS og stjórnvöld að ráðast í þarfagreiningu á þjónustu almenningssamgangna til að mæta betur þörfum notendahópana, sem eru m.a. börn, ungmenni og lífeyrisþegar. Almenningssamgöngur bæta búsetuskilyrði í dreifðum byggðum landsins.
Ársþing SASS 2018 tekur undir ályktun Ungmennaráðs Suðurlands um mikilvægi almenningssamgangna fyrir ungt fólk.
Ársþing SASS 2018 leggur áherslu á að skoðaðar verði leiðir við frekari niðurgreiðslu á innanlandsflugi líkt og aðrar almenningssamgöngur. Lagt er til að þess verði farið á leit við stjórnvöld að vinna við skosku leiðina verði kláruð sem fyrst. Áætlunarflug innanlands er mikilvægur hlekkur í almenningssamgöngum og tryggir aðgengi þeirra sem fjærst búa frá höfuðborgarsvæðinu að nauðsynlegri opinberri þjónustu, sérstaklega heilbrigðiskerfinu.
Ársþing SASS 2018 hvetur til þess að fyrirætlanir um millilandaflug verða teknar til skoðunar við endurskoðun Samgönguáætlunar.
Ársþing SASS 2018 ítrekar mikilvægi fyrri ályktana um að ferjusiglingar til Vestmannaeyja verði skilgreindar sem þjóðvegur. Huga þarf að endurbótum á Landeyjahöfn til að tryggja að höfnin verði heilsárshöfn.

Sjóvarnargarðar, Grynnslin og hafnir á Suðurlandi

Ársþing SASS 2018 ítrekar fyrri ályktanir um að tryggja nægjanlegt fjármagn til viðhalds, rannsókna og uppbyggingar hafna á starfssvæði samtakanna. Vísað er til Samgönguáætlunar Suðurlands 2017-2026 þar sem ítarlega er gert grein fyrir þessum þáttum.

Höfnin í Þorlákshöfn

Ársþing SASS 2018 krefst þess að stjórnvöld tryggi fjármagn til áframhaldandi eflingar og uppbyggingar hafnar í Þorlákshöfn. Höfnin í Þorlákshöfn er orðin gríðarlega mikilvæg hvað varðar atvinnuuppbyggingu fyrir Suðurland í heild.

Vegtollar

Ársþing SASS 2018 leggur til að kafli um veggjöld í Samgönguáætlun SASS 2017-2026 verði endurskoðaður og unnið verði með hugmyndir að heildrænum lausnum hvað varðar veggjöld.
Lögð er áhersla á að hugmyndir um gjaldtöku verði hugsaðar heildrænt og að gjaldtaka einstakra nýframkvæmda séu teknar til sérstakrar skoðunar. Áréttað er að ávallt sé fær hjáleið við gjaldskylda vegi til að tryggja jafnræði búsetu í dreifðum byggðum landsins.
Þá er lögð áhersla á að skipting núverandi tekjustofna skili sér til samgöngubóta og mikilvægt að skipulagsákvörðunarréttur sveitarfélaga sé virtur við nýframkvæmdir vega.

Háhraðatenging

Ársþing SASS 2018 fagnar stefnu ríkisstjórnar í ljósleiðaravæðingu landsins og leggur áherslu á að haldið verði áfram á sömu braut enda er háhraðatenging forsenda búsetu og uppbyggingar atvinnulífs í landinu.

90 daga reglan

Ársþing SASS 2018 telur breytingu á lögum um veitinga- og gististaði (90 daga reglan) sem samþykkt var sumarið 2016 hafa verið misráðna og áréttar nauðsyn þess að gera breytingu á henni og það verði gert í samráði við sveitarfélögin.

Gistináttagjald

Ársþing SASS 2018 telur nauðsynlegt að ríki og sveitarfélög komist að niðurstöðu um gistináttagjaldið og hvernig því skuli skipt á milli sveitarfélaga. Ársþing SASS hvetur ríkið til að ljúka þessari vinnu fyrir áramót þannig að tekjur af gistináttagjaldinu byrji að berast sveitarfélögum í upphafi árs 2019.

Stefnumótun í atvinnumálum í einstökum sveitarfélögum

Ársþing SASS 2018 leggur til að mótað verði áhersluverkefni, sem hefur það markmið að sveitarfélög komi sér upp skýrri formlegri stefnu í atvinnumálum. Stefnurnar munu gefa skýr skilaboð milli hagahafa á Suðurlandi. Ráðgjafar á vegum SASS munu þá aðstoða sveitarstjórnir við gerð og framkvæmd stefna. Mikilvægt er að vinnan hafi sterka skírskotun til nýsköpunar. Verkefnið getur farið í framkvæmd strax.

Afhendingaröryggi raforku og þriggja fasa rafmagn

Ársþing SASS 2018 krefst þess að afhendingaröryggi í raforku á Suðurlandi verði bætt hið snarasta.
Staðan er mjög slæm á mörgum svæðum, bæði þegar horft er til flutnings á orku milli svæða og dreifingu innan svæða. Slæm staða á uppbyggingu á þriggja fasa rafmagni stendur atvinnuuppbyggingu á Suðurlandi fyrir þrifum. Þingið krefst þess af RARIK flýti vinnu sem mest má og að Landsnet styrki byggðalínuna austur um strax.

Fjölgun starfa án staðsetningar

Ársþing SASS 2018 fagnar því að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur sett af stað vinnu vegna fjarvinnslustöðva opinberra stofnana, sbr. aðgerð B.8 í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. Þingið telur tækifæri í dreifingu starfa án staðsetningar um Suðurland einnig vera meðal einkafyrirtækja og vill beina því til SASS að móta áhersluverkefni við að setja af stað vinnu við að greina þau tækifæri og móta aðgerðir sem hvetja fyrirtæki til að skilgreina störf án staðsetningar. Mikilvægt er að það sé haft hugfast að með aukinni fjarvinnslu getur fólk hagað búsetuvali í samræmi við sínar þarfir.

Vandi sauðfjárbænda

Ársþing SASS 2018 krefst þess að stjórnvöld, forysta bænda og stjórnendur afurðastöðva leysi bráðavanda sauðfjárræktar og móti stefnu til framtíðar svo greinin verði blómleg atvinnugrein.
Mikilvægt er að leita nýrra leiða við lausn vandans, þrátt fyrir að ýmislegt jákvætt hafi gerst í þessum málum. Enn er mikill vandi.

Miðhálendisþjóðgarður

Ársþing SASS 2018 lýsir yfir áhyggjum af því að fyrirhuguð stofnun miðhálendisþjóðgarðs muni leiða til skerðingar á skipulagsvaldi sveitarfélaga og þess að lýðræðislegt vald muni færast úr héraði til miðlægrar stofnunar. Ljóst er af umræðum á ársþingi SASS að ekki ríkir sátt um fyrirhugaða stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Afar óheppilegt er að á sama tíma og þverpólitísk nefnd er að hefja störf séu kynnt drög að frumvarpi um Þjóðgarðastofnun og umfangsmiklar tillögur kynntar um friðunaráform í
kjölfar niðurstöðu annars hluta Rammaáætlunar. Slíkum vinnubrögðum er mótmælt.
Vakin er athygli á stöðu nytjarétthafa en þeim hefur verið haldið fyrir utan þessa umræðu og mikilvægt er að þeir eigi fulltrúa í allri vinnu við hugmynd um stofnun þjóðgarðs á afréttum.
Ársþing SASS 2018 fer þess á leit að breyting verði gerð á verklagi varðandi undirbúning að stofnun þjóðgarða almennt, þar sem samþykki sveitarfélaga og nytjarrétthafa verði áskilið, bæði hvað varðar stofnun nýs þjóðgarðs og breytingar á mörkum þeirra þjóðgarða sem þegar eru til. Jafnframt gerir ársþing SASS 2018 alvarlega athugasemd við 10. gr. frumvarpsdraga um þjóðgarðastofnun þar sem
veittar eru víðtækar heimildir til eignaupptöku.

Svæðisskipulag Suðurhálendis

Ársþing SASS 2018 hvetur til að unnið verði svæðisskipulag fyrir Suðurhálendið þar sem horft verði til verndunar og nýtingar á svæðinu í heild.

Fráveituframkvæmdir

Ársþing SASS 2018 telur nauðsynlegt að fella niður eða heimila endurgreiðslu virðisaukaskatts af efniskostnaði og sérfræðiþjónustu við fráveituframkvæmdir. Um brýnt hagsmunamál allra sveitarfélaga er að ræða og óeðlilegt að ríkið hafi beinar tekjur af aðgerðum sveitarfélaga sem miða að vernd umhverfis og náttúru.

Umhverfis- og auðlindastefna Suðurlands

Ársþing SASS 2018 leggur fram tillögu um að mótuð verði umhverfis- og auðlindastefna fyrir Suðurland. Stefnan taki mið af niðurstöðum samráðsfunda sem haldnir voru á Suðurlandi í ágúst og september sl. um helstu tækifæri og áskoranir í umhverfis- og auðlindamálum á Suðurlandi.
Leggur ársþing SASS til að stefnan verði eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands á árinu 2019. Áhersla er á að verkefnið verði vel afmarkað og að árangur verði mælanlegur með skýrum hætti.
Að verkefni loknu eru sveitarfélög á Suðurlandi hvött til að nýta tækifærið og fella stefnuna inn í skipulagsáætlanir sínar við næstu endurskoðun. Aðeins þannig verður stefnan að öflugu stjórntæki til framtíðar.

Umhverfis- og auðlindastefnan taki til eftirfarandi fimm þátta:

1. Lagt er til að unnin verði stöðugreining á kolefnisspori Suðurlands í heild sinni.
2. Auðlindir

Ársþing SASS 2018 leggur til að unnin verði sameiginleg stefna um auðlindir sem taki á eftirtöldum þáttum:
Landbúnaðarland: Skilgreina og flokka landbúnaðarland á Suðurlandi m.t.t. verndunar, nýtingar og endurheimt votlendis. Kanna hver staðan er hjá hinu opinbera og sveitarfélögum, hvaða regluverk og stjórntæki eru til staðar sem getur verið grunnur að sameiginlegri stefnu í málaflokknum fyrir Suðurland.
Landgræðsla: Landgræðsla er öflugt verkfæri til kolefnisjöfnunar, auk þess tekur hún til verndunar og nýtingar lands. Skilgreint verði og flokkað land til landgræðslu. Mótuð verði stefna sem tekur til fyrrgreindra þátta þar sem fram kemur aðgerðaráætlun ásamt innleiðingu í sátt við samfélagið og hagsmunaaðila.
Skógrækt: Kolefnisjöfnun með skógrækt er mikilvæg fyrir Sunnlendinga auk þess sem aukin skógrækt getur haft jákvæð áhrif fyrir íbúa m.a. í formi skjóls fyrir veðri og vindum og til útivistar.
Skilgreina þarf og flokka svæði á Suðurlandi fyrir skógrækt með leiðbeinandi ferlum í góðri samvinnu við hagsmunaaðila.
Jarðefni: Skilgreina og kortleggja jarðefni til verndunar og notkunar á Suðurlandi. Hvernig huga skuli málum varðandi þessa auðlind með langtímanot og verndun í huga.
Vatnsvernd: Greina, rannsaka og kortleggja heitt og kalt vatn á Suðurlandi. Kanna vatnsauðlindir og vatnsforða Sunnlendinga, hverju þarf að huga að til framtíðar fyrir allan landshlutann til að tryggja sjálfbæra nýtingu vatns.
Frárennslismál: Greina þarf stöðuna á Suðurlandi (Umhverfisstofnun og sveitarfélög). Uppfylla þarf lög og reglur um fráveitumál og gera áætlanir um úrbætur þar sem þess er þörf m.t.t. til raunhæfra kosta. Unnin verði heildstæð stefna sem einnig tekur til vatnsverndarsvæða, minni rotþróa og meðferðar efna og tækja á vatnsverndarsvæðum.
Vind- og sjávarfallaorka: Skilgreina og kortleggja Suðurland m.t.t. tækifæra í uppsetningu á vindorkugörðum, sjávarfallaorku og minni orkugjafa þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi.
Greina hvaða þættir hafa áhrif á slíka orkuframleiðslu og hvernig það fer saman við stefnu stjórnvalda í málaflokknum.
Stefnan tekur mið af áherslum Sóknaráætlunar Suðurlands og skal styðja við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, styðja við Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum 2018 – 2030 og Orkunýtingastefnu SASS 2017-2030 sem byggt yrði á hvað þennan þátt varðar.
Stefnan verður eins og hægt er á rafrænu formi og aðgengileg m.a. á Kortavef Suðurlands.
Samráð við hagsmunaaðila í hverjum málaflokki er mikilvægt.

3. Úrgangsmál og meðferð úrgangs

Ársþing SASS 2018 leggur til að unnin verði sameiginleg stefna um úrgangsmál sem taki átilhögun meðferðar úrgangs á Suðurlandi.
Ársþing SASS 2018 skorar jafnframt á stjórnvöld að leiða sameiginlega stefnumótun um úrgangsmál fyrir landið í heild. Einvörðungu þannig verður hægt að uppfylla kröfur Evrópusambandsins um hringrásarhagkerfi úrgangs.
Á samráðsfundunum var kallað eftir aukinni samvinnu sveitarfélaganna á öllum stigum úrgangsmála með nýtingu og sjálfbærni að leiðarljósi. Líta þyrfti á úrgang sem auðlind og finna nýjar leiðir til að nýta úrganginn á grunni hringrásarhagkerfis.
Jafnframt er bent á bókun Ungmennaráðs Suðurlands um samræmt sorpflokkunarkerfi á ölluSuðurlandi en það er mikilvægt innlegg í stefnumörkun fyrir þennan málafokk.
Málaflokkurinn er umfangsmikill og brýnn, en ljóst er að framundan eru nýjar áherslur stjórnvalda í málaflokknum. Staðan er sú að að verið er að vinna að nýrri stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum, sem á að liggja fyrir næsta vor. Stefna ráðherra mun taka mið af nýsamþykktum tilskipunum Evrópusambandsins um hringrásarhagkerfi. Stefnt er að því að mun stærri hluti úrgangs verði endurunninn og að dregið verði stórlega úr urðun úrgangs.
Aukin og ítarlegri ákvæði um útvíkkaða framleiðendaábyrgð munu líklega leiða til þess að fjölgað verði tegundum úrgangs sem munu bera úrvinnslugjald.
Áhersla er á að stefna Sunnlendinga verði unnin í nánu samstarfi við stjórnvöld, þar sem sveitarfélögin leitist við að taka þátt í samráði við gerð þeirrar stefnumótunar sem umhverfis- og auðlindaráðherra vinnur nú að. Þannig geti Sunnlendingar haft bein áhrif á mörkun þeirrar stefnu.
Stefnan verði unnin í samvinnu við sorpsamlögin á Suðurlandi og aðra hagsmunaaðila. Skýrsla Sorpstöðvar Suðurlands SOS, Valkostir í söfnun og meðhöndlun úrgangs frá sveitarfélögum á Suðurlandi, verði nýtt við stefnuna enda mjög yfirgripsmikil og þörf greining á stöðunni í málaflokknum á Suðurlandi.

Verkefnið: Stefnan taki til söfnunar, flokkunar, endurnýtingar og urðunar úrgangs á grunni hringrásarkerfisins. Hún taki einnig á fræðslu og leiðum til að auka skilning á mikilvægi úrgangsmála og tiltækum leiðum við meðferð úrgangs til framtíðar. Við mótun stefnunnar verði tekið mið af áherslum Sóknaráætlunar Suðurlands og  Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna.
Hún styðji einnig við Aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum 2018 – 2030. Stefna verði eins og hægt er á rafrænu formi og aðgengileg á Kortavef Suðurlands.

4. Umhverfisvænar og þematengdar samgöngur

Ársþing SASS 2018 leggur til að unnin verði sameiginleg stefna um ferðaleiðir á Suðurlandi, hjóla- göngu- og reiðleiðir og tengingar þeirra við áningar- og áfangastaði. Markmiðið sé að styrkja betur vannýtt svæði á Suðurlandi m.a. út frá ólíkum markhópum, hægja á ferðamönnum og bæta lífsgæði íbúa. Horft verði til uppbyggingar þemabundinna leiða og uppbyggingar leiðakerfis sem einnig muni styrkja samgöngur á Suðurlandi öllu, íbúum og gestum til heilla.
Á samráðsfundunum var kallað eftir betri stýringu ferðafólks og bætts skipulags áfangastaða, sem gæti tryggt að ekki væri farið yfir þolmörk svæða. Áfanga- og áningarstöðum yrði fjölgað og fundnar leiðir til að ferðamenn staldri lengur við. Í því skyni sé mikilvægt að skipuleggja betur ferðaleiðir, auka fjölbreytni leiðakerfis og tengja betur saman hjóla-, göngu- og reiðleiðir.
Verkefnið: Stefnan taki til mótunar megin hjóla-, göngu- og reiðleiða á Suðurlandi. Við stefnumótunina verði einnig leitast við að tengja lykil áningar- og áfangastaði. Með verkefninu verður allur landshlutinn, áfanga- og áningarstaðir og atvinnuvinnusvæði betur tengd. Verkefnið styður við áfangastaðaáætlun Suðurlands (DMP), ferðamálaáætlun 2011-2020 og Sóknaráætlun Suðurlands. Verkefnið verði eins og hægt er á rafrænu formi og hluti af Kortavef Suðurlands.

5. Náttúruvá

Ársþing SASS 2018 vill tryggja að hugað verði að leiðum til að greina náttúruvá sem og aðrar hættur á Suðurlandi m.t.t. skipulagsáætlana, mannvirkja og framkvæmda í landshlutanum en það var ein af megin áherslum sem fram komu á samráðsfundunum í ágúst og september sl. í tengslum við umhverfis- og auðlindastefnu Suðurlands.
Forvarnir í almannavörnum skipta miklu máli á Suðurlandi til að tryggja öryggi íbúa, ferðamanna sem og eigna og því afar mikilvægt að tillit sé tekið til þeirra í allri skipulagsvinnu sveitarfélaga.
Fyrsta skrefið væri að halda ráðstefnu í samvinnu við lögregluembættin og almannavarnir á svæðinu um náttúruvá og hættur sem skipta máli varðandi skipulagsáætlanir, mannvirki og framkvæmdir. Leggur ársþing SASS til að slík ráðstefna yrði eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands á árinu 2019.

Umhverfis- og auðlindastefnan tekur á mörgum gríðarlega mikilvægum þáttum sem öll sveitarfélög á Suðurlandi hafa á sinni verkefnaskrá með einum eða öðrum hætti og fleiri en ein stofnun á vegum sunnlenskra sveitarfélaga hafa unnið að eða hyggjast gera. Jafnframt verði lögð áhersla á samvinnu við þá opinberu aðila sem um mál þessi fjalla. Mikilvægt er því að samræma verkefni á vegum sunnlenskra sveitarfélaga sem snerta þessi mál og að við vinnslu stefnunnar verði ekki um tvíverknað að ræða og tryggt að fjármunir og starfskraftar nýtist sem best.

Byggða- og sóknaráætlun

Ársþing SASS 2018 skorar á ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála að verja auknu fé til byggðaþróunar á vegum landshlutasamtaka sveitarfélaga. Auka þarf fé til sóknaráætlana landshluta svo þær geti staðið undir væntingum sem sértækar byggðaáætlanir landshlutanna. Með nýrri byggðaáætlun hefur verkefnum landshlutasamtaka fjölgað án þess að fjármagn hafi fylgt. Má þar nefna vinnu við gerð umsókna um sérstæk verkefni sóknaráætlunarsvæða (aðgerð C.1.), framlög vegna verslunar í strjálbýli (aðgerð B.8.) og Fjarvinnslustöðvar (aðgerð A.9.).
Ársþing SASS 2018 leggur til að hafin verði vinna við undirbúning að nýrri stefnumörkun
Sóknaráætlunar Suðurlands til ársins 2024. Áfram verði lögð áhersla á samhæfingu milli
sóknaráætlana og byggðaáætlunar, eins og kveðið er á um í lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69 frá 2015. Samhliða því verði horft til samræmingar á stefnum í landshlutanum og áhersla lögð á bætta upplýsingagjöf um þær stefnur gagnvart íbúum og sveitarstjórnarfólki.

Staða landshlutasamtakanna

Ársþing SASS 2018 fagnar skipan starfshóps sem hefur verið falið að meta stöðu landshlutasamtaka og skilgreina hlutverk þeirra og stöðu, annars vegar gagnvart sveitarfélögum og hins vegar gagnvart ríki.

Ungmennaráð Suðurlands

Ársþing SASS 2018 lýsir yfir ánægju sinni á starfi Ungmennaráðs Suðurlands, en ungmennaráð sveitarfélaga og landshlutasamtaka eru mikilvægur liður til að efla þátttöku ungmenna í sveitarstjórnarmálum. Aðildarsveitarfélög eru hvött til að styðja þátttöku ungmenna, m.a. með því að skipa fulltrúa í ráðið og taka vel á móti fulltrúum þess.

Sjúkraflutningar, þ.m.t. sjúkraþyrlur

Ársþing SASS 2018 hvetur til þess að farið verði í tilraunaverkefni með sérstaka sjúkraþyrlu á Suðurlandi með stuttum útkallstíma og sérhæfðum mannskap staðsettri á Suðurlandi í samræmi við skýrslu starfshóps velferðarráðuneytisins.
Sjúkraflutningar á Suðurlandi hafa vaxið gríðarlega með auknum fjölda íbúa og gesta á svæðinu og því þarf að bregðast við með auknu fjármagni og fjölbreyttari lausnum.

ART verkefnið

Ársþing SASS 2018 ítrekar fyrri ályktanir og beinir því til ríkisvaldsins að nauðsynlegt sé að fjármagn fáist til lengri tíma svo hægt verði að tryggja starfseminni eðlilegt starfsumhverfi og börnum og fjölskyldum þeirra öruggt aðgengi að þjónustunni.

Hjúkrunarrými

Ársþing SASS 2018 lýsir áhyggjum sínum af fjármögnun ríkisins til hjúkrunar-, dvalar- og dagvistunarrýma á Suðurlandi. Á Suðurlandi er fjármögnun hjúkrunarrýma 20% undir raunþörf, sem og annars staðar á landinu. Ljóst er af fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 að framlög til málaflokksins hækka ekki og standa því engan veginn undir þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að veita samkvæmt kröfulýsingum er þau starfa samkvæmt. Ársþingið hvetur ríkisvaldið til þess að bæta hér í og tryggja að fjárframlög standi undir rekstri þessa mikilvæga málaflokks og áframhaldandi aukningu
hjúkrunarrýma á Suðurlandi.

HSU – heilbrigðisþjónusta

Ársþing SASS 2018 krefst þess að tekið verði á rekstrarvanda HSU og að fjárframlög fylgi umfangi i starfsemi stofnunarinnar. Frá sameiningu heilbrigðisstofnanna á Suðurlandi hefur vöxtur í starfseminni verið fordæmalaus og hefur vaxið um tugi prósenta á hverju ári.
Áætlaður rekstrarhalli HSU á árinu 2018 er um 200 milljónir og ríflega 280 m.kr. vantar á árinu 2019 vegna mönnunar lögbundinnar grunnþjónustu í heilsugæslu og sjúkrarýmum á Suðurlandi.

HSU Hornafirði

Ársþing SASS 2018 styður áframhaldandi rekstur Sveitarfélagsins Hornafjarðar á heilbrigðisþjónustu í gegnum þjónustusamning við ríkið.

Löggæsla og sýnileiki hennar

Ársþing SASS 2018 vekur athygli á að þrátt fyrir aukið fjármagn í málaflokkinn er aukningin þó engan veginn næg þar sem álag á starfslið lögreglunnar er gríðarlegt. Við því þarf að bregðast meðal annars með fjölgun starfsfólks svo hægt sé að tryggja fullnægjandi löggæslu, draga úr álagi og bæta starfsumhverfi.

Úrræði fyrir fólk með fíknivanda

Ársþing SASS 2018 tekur undir ályktun Ungmennaráðs Suðurlands um að SASS og sveitarfélögin á Suðurlandi, heilbrigðisráðherra og HSU bæti úrræði fyrir þá sem eiga við fíknivanda að stríða.
Ungmennaráðið telur það ekki síður mikilvægt að fylgja eftir þeim ungmennum sem hafa lokið meðferð. Ungmennaráð og ársþing SASS 2018 vill brýna alla þá sem fara með þennan málaflokk að gera meira í málefnum ungs fólks sem hefur lokið meðferð og bæta eftirfylgni eftir meðferðina.

Forvarnarvinna og fræðsla

Ársþing SASS 2018 tekur undir ákall Ungmennaráðs Suðurlands um stuðning SASS og lögreglunnar á Suðurlandi við að efla fræðslu og forvarnir um fíknivandann og stuðla þannig að öflugum forvörnum.
Ráðið hvetur til þess að farið verði í samstarf við átakið #égábaraeittlíf og/eða annað sambærilegt og fara með fræðslukynningar í alla skóla.

Heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta

Ársþing SASS 2018 hvetur ríkið og sveitarfélögin á Suðurlandi til þess að leita leiða til að samþætta heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu með þarfir þjónustuþega að leiðarljósi.

Fæðingarþjónusta í nærumhverfi

Ársþing SASS 2018 kallar eftir efndum gagnvart því að komið verði til móts við fæðandi konur og fjölskyldur þeirra sem verða fyrir auka kostnaði vegna fæðinga fjarri heimabyggð. Brýnt að aukakostnaður vegna slíks verði ekki lagður á fæðandi konur og fjölskyldur þeirra.

Málefni fatlaðra

Ársþing SASS 2018 vekur athygli á að rekstur málaflokks fatlaðs fólks á Suðurlandi er í járnum og lítið svigrúm hefur verið til uppbyggingar og þróunar þjónustunnar.

Fjarheilbrigðisþjónusta

Ársþing SASS 2018 lýsir ánægju með þá vinnu sem verið er að vinna í þessum málaflokki og hvetur ríkið og sveitarfélög til þess að nýta tækifærin í velferðartækni til bættrar þjónustu.

Framboð og aðgengi að (háskóla)menntun á Suðurlandi

Ársþing SASS 2018 lýsir yfir ánægju sinni með nýtt námsframboð Háskóla Íslands í hagnýtum leikskólafræðum á fagháskólastigi í samvinnu við Háskólafélag Suðurlands fyrir leiðbeinendur í leikskólum á Suðurlandi. Ársþingið hvetur til að haldið verði áfram á sömu braut með fleiri námsleiðum á fagháskólastigi, t.d. í ferðamálagreinum, tæknigreinum og fleiri greinum í almennu háskólanámi.
Sömuleiðis fagnar ársþingið stofnun nýs rannsóknarseturs Háskóla Íslands á sviði sveitarstjórnarmála á Laugarvatni en hvort tveggja er í samræmi við áherslur SASS um aukið samstarf við Háskóla Íslands.

Heimavistarmál o.fl.

Ársþing SASS 2018 tekur undir tillögur Ungmennaráðs Suðurlands um knýjandi þörf fyrir úrbætur í húsnæðisvanda framhaldsskólanemenda á Suðurlandi. Stærsti framhaldsskóli landshlutans er á Selfossi og sá eini sem er með fjölbreytt námsframboð í starfsnámi auk víðtækrar þjónustu við nemendur með sértækar stuðningsþarfir. Óviðunandi er að þar skuli ekki lengur vera starfrækt heimavist. Ársþingið skorar á ríkisvaldið að ganga til samstarfs við heimamenn um úrlausn á þessum vanda.
Ársþing SASS 2018 hvetur skólanefnd Fjölbrautaskóla Suðurlands til þess að skoða það vandlega að bjóða upp á fjarnám/dreifnám við skólann til þess að auka þjónustu við íbúa Suðurlands. Ársþing SASS tekur undir aðrar tillögur Ungmennaráðs Suðurlands, svo sem dreifingu á greiðslum vegna Strætó, aukins aðgengis að námsráðgjöf og sérhæfðri ráðgjöf og aukinni fræðslu um kynjafræði.

Miðsvæði Suðurlands

Ársþing SASS 2018 skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að taka til efnislegrar umfjöllunar tillögur starfshóps sem forsætisráðherra skipaði 9. september 2016 um mótun framtíðarsýnar fyrir svæðið frá Markarfljóti að Öræfum. Í tillögum starfshópsins kemur m.a. fram að menntastofnanir (þ.e. Fræðslunetið og Háskólafélagið) fái stuðning til að halda uppi þjónustu við svæðið og þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri og í Vík fari á fjárlög.

Tengsl skóla og atvinnulífs

Ársþing SASS 2018 fagnar tilkomu Fab Lab smiðjunnar á Selfossi þar sem fjölþætt samstarf sveitarfélaga, atvinnulífs, skóla og ríkisins hefur orðið að veruleika. Ársþingið hvetur atvinnulíf og skóla á Suðurlandi til frekari dáða varðandi aukið samstarf.

Fjármálalæsi

Ársþing SASS 2018 tekur undir tillögu Ungmennaráðs Suðurlands og hvetur sveitarfélögin á Suðurlandi að stuðla að bættu fjármálalæsi hjá ungmennum á Suðurlandi. Auka fræðslu ungmenna um hvernig peningar og skattkerfið virkar á Íslandi.

Íslenska fyrir útlendinga

Ársþing SASS 2018 beinir þeim tilmælum til fjárlaganefndar að auka framlög til kennslu í íslensku fyrir útlendinga. Á starfssvæði SASS er mikill fjöldi útlendinga og sums staðar er um að ræða umtalsverðan hluta íbúa einstakra sveitarfélaga. Afar brýnt er að fræðsluaðilum sé gert kleift að auðvelda aðlögun þessa hóps að íslensku samfélagi með því að bjóða upp á nám í íslensku með fjölbreyttum aðferðum,
með stuðningi hins opinbera.

Menningarmál

Ársþing SASS 2018 leggur áherslu á að standa vörð um fjármagn til menningarmála hjá
Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Mikil gróska er í menningarmálum og því er mikilvægt að hlúa að slíkri starfsemi.

Menningarsalur Suðurlands

Ársþing SASS 2018 hvetur ríkisvaldið til að ganga til samninga við Sveitarfélagið Árborg og Hótel Selfoss um að fullgera Menningarsal Suðurlands, m.a. til að ríkið geti staðið við skyldur sínar varðandi þjónustu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Þjóðleikhússins við landsbyggðina.

EFTIRTALDIR FULLTRÚAR SITJA Í STJÓRNUM RÁÐUM OG NEFNDUM

Stjórn SASS:

Aðalmenn:
Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Sveitarf. Hornafirði
Eva Björk Harðardóttir, Skaftárhreppi
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Vestmannaeyjabæ
Björk Grétarsdóttir, Rangárþingi ytra
Arna Ír Gunnarsdóttir, Sveitarfélaginu Árborg
Ari Thorarensen, Sveitarfélaginu Árborg
Helgi Kjartansson, Bláskógabyggð
Friðrik Sigurbjörnsson, Hveragerðisbæ
Grétar Erlendsson, Sveitarfélaginu Ölfusi
Varamenn:
Kristján Sigurður Guðnason, Sveitarf. Hornafirði
Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppi
Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjabæ
Lilja Einarsdóttir, Rangárþingi eystra
Eggert Valur Guðmundsson, Sveitarf. Árborg
Brynhildur Jónsdóttir, Sveitarfélaginu Árborg
Ása Valdís Árnadóttir, Grímsnes- og Grafningshr.
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Hveragerðisbæ
Jón Páll Kristófersson, Sveitarfélaginu Ölfusi

 

Formaður: Eva Björk Harðardóttir, Skaftárhreppi
Varaformaður: Helgi Kjartansson, Bláskógabyggð

Kjörnefnd

Aðalmenn:
Kristján Sig. Guðnason, Sveitarfél. Hornafirði
Drífa Bjarnadóttir, Mýrdalshreppi
Elís Jónsson, Vestmannaeyjabæ
Haraldur Eiríksson, Rangárþingi ytra
Ingibjörg Harðardóttir, Grímsnes- og Grafningshr.
Valgerður Sævarsdóttir, Bláskógabyggð
Helgi Haraldsson, Sveitarfélaginu Árborg
Aldís Hafsteinsdóttir, Hveragerðisbæ
Steinar Lúðvíksson, Sveitarfél. Ölfusi
Varamenn:
Erla Þórhallsdóttir, Sveitarfél. Hornafirði
Bjarki Guðnason, Skaftárhreppi
Helga Jóhanna Harðardóttir, Vestmannaeyjabæ
Guðmundur Viðarsson, Rangárþingi eystra
Arna Ír Gunnarsdóttir, Sveitarfélaginu Árborg
Björgvin Skapti Bjarnason, Skeiða- og Gnúpv.hr
Árni Eiríksson, Flóahreppi
Eyþór H. Ólafsson, Hveragerðisbæ
Gestur Þór Kristjánsson, Sveitarf. Ölfusi

 

Formaður: Aldís Hafsteinsdóttir, Hveragerðisbæ
Varformaður: Kristján Sigurður Guðnason, Sveitarfél. Hornafirði

Stjórn Fræðslunets Suðurlands

Aðalmaður:
Gunnar Þorgeirsson, Grímsnes- og Grafningshr.
Varamaður:
Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppi

Stjórn Markaðsstofu Suðurlands

Aðalmenn:
Pálmi Kristjánsson, Mýrdalshreppi
Ása Valdís Árnadóttir, Grímsnes- og Grafningshr.

Varamenn:
Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélaginu Ölfusi
Eva Björk Harðardóttir, Skaftárhreppi

Fagráð Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands

Aðalmaður:
Ásta Berghildur Ólafsdóttir, Ásahreppi
Varamaður:
Sæmundur Helgason, Sveitarfélaginu Hornafirði

Stjórn Sorpstöðvar Suðurlands

Aðalmenn:
Jón G. Valgeirsson, Hrunamannahreppi
Arna Ír Gunnarsdóttir, Sveitarfélaginu Árborg
Anton Kári Halldórsson, Rangárþingi eystra
Ingibjörg Kjartansdóttir, Sveitarfélaginu Ölfusi
Gísli Halldór Halldórsson, Sveitarfélaginu Árborg
Varamenn:
Einar Bjarnason, Skeiða- og Gnúpverjahreppi
Helgi Haraldsson, Sveitarfélaginu Árborg
Ágúst Sigurðsson, Rangárþing ytra
Sigurður Einar Guðjónsson, Hveragerðisbæ
Álfheiður Eymarsdóttir, Sveitarfélaginu Árborg

 

Formaður: Jón G. Valgeirsson, Hrunamannahreppi
Varaformaður: Anton Kári Halldórsson, Rangárþingi eystra

Stjórn Heilbrigðisnefndar Suðurlands

Aðalmenn:
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Hveragerðisbæ
Helgi Haraldsson, Sveitarfélaginu Árborg
Guðrún Magnúsdóttir, Bláskógabyggð
Páll Tómasson, Mýrdalshreppi
Styrmir Sigurðarson, Vestmannaeyjabæ
Oddur Árnason, fulltr. atvinnurekenda
Varamenn:
Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélaginu Ölfusi
Guðbjörg Jónsdóttir, Sveitarfélaginu Árborg
Sigurður Sigurjónsson, Hrunamannahreppi
Lilja Einarsdóttir, Rangárþingi eystra
Sigurhanna Friðþórsdóttir, Vestmannaeyjabæ
Sigurður Rafn Hilmarsson, fulltr. atvinnurekenda

Hægt er að niðurhala ályktunum í .PDF formi HÉR