fbpx
Söfn um allt Suðurland og í Vestmannaeyjum bjóða upp á fjölbreytta menningardagskrá helgina 5. – 8. nóvember 2009. Yfirskrift dagskrárinnar verður Safnahelgi á Suðurlandi með undirtitilinum Matur og menning úr héraði því auk hins sögulega og menningarlega hluta dagskrárinnar verður minnt á gamlar og nýjar hefðir í matargerðarlist í héraðinu. Það eru Samtök safna á Suðurlandi og Matarkista Suðurlands sem standa að dagskránni með hátt í eitt hundrað aðilum. Verkefnið nýtur stuðnings Menningarráðs Suðurlands. Hugmyndin að baki Safnahelgi á Suðurlandi er að þjappa þeim fjölmörgu aðilum sem vinna við sunnlenska menningu saman um eina sameiginlega viðburðahelgi og bjóða íbúum héraðsins og gestum að njóta þess fjölbreytta menningarstarfs sem er í boði. Á veitingastöðum verður boðið upp á það besta í sunnlenskri matarhefð. Boðið er upp á dagskrá frá fimmtudegi til sunnudags, en staðirnir eru þó með mismunandi opnunartíma. Safnahelgin verður formlega …

opnuð í tengslum við málþing sem haldið verður í tilefni 60 ára afmælis Byggðasafnsins í Skógum fimmtudaginn 5. nóvember.

Meðal fjölmargra dagskráratriða má nefna sýningar, tónleika, fyrirlestra, upplestra og leiðsagnir. Svo verður víða hægt að smakka á gömlum og nýjum réttum eins og ástarpungum, heitu súkkulaði, lunda, fýl, sviðum, humarsúpu, pönnukökum, sunnlensku grænmeti og kartöfluréttum. Söfn og veitingastaðir verða opin upp á gátt og starfsfólk þeirra tekur fagnandi á móti gestum og gangandi.

Sunnlensk menningararfleifð býður gesti velkomna á Safnahelgi á Suðurlandi 5. – 8. nóvember. Dagskráin er birt í heild á vefnum www.sofnasudurlandi.is

Nánari upplýsingar veita: Dorothee Lubecki menningarfulltrúi Suðurlands í síma: 896-7511, menning@sudurland.is Anna Sigr. Árnadóttir talsmaður matarklasans í síma: 894-2522. annaarna@gmail.com Lýður Pálsson formaður Samtaka safna á Suðurlandi í síma: 891 7766. lydurp@snerpa.is