fbpx

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hafa óskað eftir þátttöku sveitarfélaga í verkefninu Hjólreiðaferðamennska á Suðurlandi og jafnframt er óskað eftir upplýsingum um skráðar hjólaleiðir í sveitarfélaginu.  Markmið verkefnisins er að til verði samræmdar upplýsingar yfir hjólaleiðir, sem nota megi til kynningar opinberlega s.s. með kortaútgáfu, af ferðamála- eða markaðs- og kynningarfulltrúum, hagsmunaaðilum eða öðrum við markaðssetningu á Suðurlandi í heild sinni eða að hluta. Einnig er von  SASS að þessi vinna nýtist aðildarsveitarfélögunum við endurskoðun aðalskipulaga og við gerð umsókna í opinbera sjóði vegna fjármögnunar á uppbyggingu hjólaleiða á Suðurlandi.

Verkefnið og verkþættir þess voru kynntir þann 27. febrúar síðastliðinn á Selfossi, á stofnfundi klasa um hjólreiðaferðamennsku á Suðurlandi. Góð mæting  var á fundinn og mættu þar aðilar frá einkafyrirtækjum, sveitarfélögum og opinberum stofnunum og reyndist mikill áhugi vera fyrir verkefninu.

Endanlegt markmið verkefnisins er að Suðurland verði ákjósanlegur áfangastaður fyrir hjólreiðaferðamenn. Einn mikilvægur þáttur í þeirri uppbyggingu er að til verði góður grunnur hjólaleiða um landshlutann. Ferðamenn gera almennt ekki greinarmun á sveitarfélagamörkum og því er markmiðið að þessar upplýsingar verði til á einum stað yfir allan landshlutann, þar sem þær verða aðgengilegar öllum sem vinna að kynningar- og markaðsmálum fyrir sérhvert sveitarfélag, stærri svæði eða landshlutann í heild. SASS mun í framtíðinni halda utan um þessar upplýsingar inn á vefnum sudurland.is.

Verkefnið er rekið á styrk sem kemur úr Vaxtarsamningi Suðurlands, á vegum Samtaka sunnlenskra sveitafélaga, en SASS fer jafnframt með verkefnisstjórn í verkefninu. Þórður F. Sigurðsson hefur yfirumsjón með verkefninu af hendi SASS og Sigrún Kapitola Guðrúnardóttir er starfsmaður verkefnisins,  klasastjóri og tengiliður sveitarfélaganna og annarra aðila að verkefninu. Verkefnið leggur til stuðning til sveitarfélaga í formi vinnu starfsmanns þar sem það á við.

Nánari upplýsingar um verkefnið veita Sigrún Kapitola Guðrúnardóttir, (bike@sudurland.is) og Þórður (thordur@sudurland.is).

Mynd tekin af netinu.