fbpx

SAMTÖK SUNNLENSKRA SVEITARFÉLAGA

522. fundur stjórnar SASS
haldinn að Laugalandi í Holtum
föstudaginn 25. ágúst 2017, kl. 12:00

Mætt: Gunnar Þorgeirsson formaður, Sandra Dís Hafþórsdóttir, Eggert Valur Guðmundsson, Sæmundur Helgason, Anna Björg Níelsdóttir, Lilja Einarsdóttir, Unnur Þormóðsdóttir og Eva Björk Harðardóttir. Trausti Hjaltason tengdist fundinum með fjarfundabúnaði. Páll Marvin Jónsson forfallaðist. Einnig sat fundinn Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritaði fundargerð. Á fundinn komu einnig eftirfarandi fulltrúar sveitarstjórnar Ásahrepps; Egill Sigurðsson oddviti, Elín Grétarsdóttir varaoddviti og Nanna Jónsdóttir sveitarstjóri. 

Formaður bauð fundarmenn velkomna á fund stjórnar með sveitarstjórn Ásahrepps.

Heimsókn til sveitarstjórnar Ásahrepps Oddviti og sveitarstjóri, tóku undir orð formannsins og fögnuðu því að stjórnarfundur SASS væri haldinn að Laugalandi í Holtum. Sveitarstjóri var með áhugaverða og fróðlega kynningu á helstu málefnum sveitarfélagsins. Hann og aðrir fulltrúar í sveitarstjórn svöruðu framkomnum spurningum og umræður voru um málefni sveitarfélagsins og samtakanna.

1. Fundargerð

Fundargerð 521. fundar undirrituð.

2. Drög að dagskrá ársþings og aðalfundar SASS 
 1. Dagskrá ársþings og aðalfundar
  Formaður og framkvæmdastjóri kynntu drög að dagskrá komandi ársþings og aðalfundar SASS sem fram fer á Selfossi 19. – 20. október nk. Lagt er til að Arna Ír Gunnarsdóttir og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar verði fundarstjórar á þinginu og Rósa Sif Jónsdóttir verði fundarritari og var það samþykkt. Endanleg dagskrá verður staðfest á næsta fundi stjórnar.
 2. Starfsskýrsla SASS 2016 – 2017 Er í vinnslu hjá starfsmönnum samtakanna.
 3. Tillaga að launum stjórnar, ráða og nefnda Stjórn samþykkti á fundi sínum 3. febrúar sl. hvernig haga bæri breytingum á launum stjórnar, ráða og nefnda á vegum SASS. Samþykkt tillaga verður tekin til afgreiðslu á komandi ársþingi.
 4. Drög að fjárhagsáætlun SASS 2018 Er í vinnslu hjá starfsmönnum samtakanna.
3. Almenningssamgöngur
 1. Minnisblað frá Sambandinu um ný lög um farþegaflutninga á landi
  Minnisblað frá Sambandinu um ný lög um farþegaflutninga á landi dags. 31. maí sl. lagt fram til kynningar. Stjórn SASS hvetur ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála að ráðast sem fyrst í gerð sérlaga um almenningssamgöngur.
 2. Standandi farþegar
  Ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála ráðgerir að breyta reglugerð um öryggis- og verndarbúnað í ökutækjum. Farið var yfir fyrirhugaðar breytingar. Einnig var farið yfir umsögn Sambandsins um breytingar á reglugerðinni. Stjórn tekur undir umsögn Sambandsins.
 3. Rekstrarstaða janúar – júní 2017
  Á fyrstu fimm mánuðum ársins 2017 hefur farþegum fækkað um 6% samanborið við sama tímabil árið 2016. Ef horft er til rekstrarniðurstöðu fyrstu sex mánuði ársins 2016 þá var tapið 9,6 m.kr. en það er nú 13,3 m.kr. Staðan í ár er verri sem nemur 3,7 m.kr. Versnandi staða skýrist af minnkun á tekjum af sölu fargjalda en þær hafa minnkað um 5 m.kr. milli ára.
  Nokkur óvissa ríkir um reksturinn á seinni hluta ársins en ef gengið er út frá svipaðri þróun það sem eftir lifir árs má gera ráð fyrir að 10 m.kr. tap verði á rekstrinum. Vonandi hefur þó kynningarherferðin, fyrir notagildi Strætó sem ferðamáta, áhrif á ferðahegðun þannig að fleiri kjósi að nota almenningssamgöngur.
 4. Samningur við Vegagerðina
  Formaður kynnti núverandi samning við Vegagerðina um almenningssamgöngur. Að óbreyttu er ekki grundvöllur fyrir samtökin, og þar með sveitarfélögin á Suðurlandi, að halda utan um rekstur almenningssamgangna eins og verið hefur. Áframhaldandi tap á rekstri almenningssamgangna er óásættanleg niðurstaða fyrir samtökin og sveitarfélögin á Suðurlandi.
4. Drög að lögreglusamþykkt fyrir umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi 

Formaður kynnti að öll sveitarfélögin í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi hefðu samþykkt lögreglusamþykktina. Ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála og lögreglustjórinn á Suðurlandi eru nú með hana til umfjöllunar og komi ekki fram athugasemdir mun ráðherra undirrita hana.

5. Skaftárhreppur til framtíðar

Eva vék af fundi. Formaður fór yfir erindi Skaftárhrepps og Kirkjubæjarstofu tengt verkefninu Skaftárhreppur til framtíðar. Verkefnisstjórn Sóknaráætlunar Suðurlands hefur yfirfarið verkefnið og samþykkt að það verði eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar árið 2018. Stjórnin staðfestir niðurstöðu verkefnisstjórnar.

6. Sóknaráætlun

Unnur, formaður verkefnisstjórnar Sóknaráætlunar Suðurlands kynnti fyrirhugaða Sjálfbærniráðstefnu sem haldin verður að Þingborg í Flóahreppi 7. september nk. Hún fjallaði einnig um fyrirhugaðan fund samráðsvettvangs sóknaráætlunar sem verður haldinn á sama stað 8. september nk. Hún kynnti einnig dagskrá fundarins. Fundarboð hefur verið sent til skipaðra fulltrúa sveitarfélaganna í samráðsvettvangnum, sveitarstjóra og kjörinna fulltrúa og eru þeir allir hvattir til að mæta á fundinn.

7.  Önnur mál til kynningar og umræðu 
 1. Landshlutasamtök sveitarfélaga og sóknaráætlun Lagðar fram til kynningar, fundargerð FV frá júní sl., fundargerð SSNV nr. 20 frá ágúst sl., fundargerð SSA nr. 11 frá júlí sl., fundargerð Eyþings nr. 297 frá ágúst sl. og fundargerð Sambandsins nr. 851 frá júní sl.
 2. Erindi frá SSNV Stjórn og starfsmenn SSNV hafa óskað eftir því að heimsækja samtökin í haust. Stjórn SASS er áhugasöm um að hitta stjórn SSNV til að skiptast á skoðunum. Framkvæmdastjóra falið að vera í sambandi við systursamtökin.
 3. Samgönguáætlun 2018 – 2029 Samtökunum hefur borist erindi frá ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála sem ritað er f.h. samgönguráðs. Óskað er eftir að farið verði yfir verkefni sem eru á samgönguáætlun og horft til forgangsröðunar framkvæmda á Suðurlandi. Stjórn felur samgöngunefnd að senda drög sín að samgönguáætlun SASS til samgönguráðs.
 4. Frumvarp til laga um póstþjónustu – umsögn Sambandsins Lagt fram til kynningar.
 5. Húsnæðismál SASS Formaður kynnti að Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings hefði tímabundið tekið hluta af húsnæði samtakanna á leigu meðan verið er að breyta húsnæði þeirra í Hveragerði.
 6. Skipan í skólanefnd FAS Erindi hefur borist frá ráðuneyti mennta- og menningarmála þar sem óskað er eftir tilnefningu samtakanna á fulltrúum í skólanefnd Framhaldsskóla Austur- Skaftafellssýslu á Höfn í Hornafirði. Samþykkt var að skipa eftirtalda:
  Aðalmenn:
  Eva Björk Harðardóttir
  Sæmundur Helgason
  Varamenn:
  Ásgerður K. Gylfadóttir
  Gunnar Þorgeirsson
 7. Heimavist við framhaldsskóla á Suðurlandi Stjórn SASS skorar á ráðherra mennta- og menningarmála að fundin verði lausn á því ófremdarástandi sem ríkir í aðgengi nemenda að framhaldsnámi á Suðurlandi. Upptökusvæði framhaldsskóla á Suðurlandi er dreift og eins og staðan er nú búa hluti ungmenna á framhalsskólaaldri við það að eiga ekki möguleika á því að nýta almenningssamgöngur til að stunda nám við framhaldsskóla á svæðinu og ekki er boðið upp á heimavist við framhaldsskóla á Suðurlandi nema einungis á Laugarvatni. Nauðsynlegt er að ríkið ráðist í viðeingandi úrbætur þannig að nemendur hafi aðgang að heimavist við alla skóla á Suðurlandi, enda mikilvægt að allir framhaldsskólanemendur á Íslandi hafi jafnt aðgengi að námi.

Næsti fundur stjórnar verður haldinn í Vatnsholti 7. og 8. september nk.

Fundi slitið kl. 15:25.

Gunnar Þorgeirsson Lilja Einarsdóttir Sandra Dís Hafþórsdóttir Eggert Valur Guðmundsson Sæmundur Helgason Anna Björg Níelsdóttir Unnur Þormóðsdóttir Eva Björk Harðardóttir Trausti Hjaltason Bjarni Guðmundsson

522. fundur stjórnar SASS (PDF)