fbpx

Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga var haldið 15. og 16. október sl á Höfn í Hornafirði.  Þingið tókst í alla staði mjög vel.  Á þinginu voru haldnir aðalfundir SASS, Atvinnuþróunarfélags Suðurlands, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Skólaskrifstofu Suðurlands og Sorpstöðvar Suðurlands.  Á ársþinginu voru samþykktar fjölmargar ályktanir um hin ýmsu hagsmunamál landshlutans.  Þá var kosið í stjórnir, ráð og nefndir.  Í stjórn SASS voru kosin Sveinn Pálsson Mýrdalshreppi formaður, Aðalsteinn Sveinsson Flóahreppi varaformaður, Guðmundur Þór Guðjónsson Hveragerðisbæ, Margrét Katrín Erlingsdóttir Sveitarfélaginu Árborg, Elliði Vignisson Vestmannaeyjabæ, Ólafur Eggertsson Rangárþingi eystra og Árni Rúnar Þorvaldsson Sveitarfélaginu Hornafirði.  Aðalsteinn, Ólafur og Árni Rúnar eru nýir í stjórn og komu í stað  Sigurðar Inga Jóhannssonar, Unnar Brár Konráðsdóttur og Reynis Arnarsonar. Skýrslur stjórnar og  nefnda sem lagðar voru fram á fundinum ásamt aðalfundargerð er að finna hér til  hliðar á vefsíðunni. Sjá nánar ályktanir ársþingsins: Ályktanir ársþings Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga 16. október 2009 Samgöngumál   Staðið verði við áform um stórframkvæmdir Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009, leggur mikla áherslu á að staðið verði við samgönguáætlun. Það á einkum við um breikkun Suðurlandsvegar á milli Selfoss og Reykjavíkur ásamt brú yfir Ölfusá við Selfoss og nýtt vegstæði um Hornafjörð. Á síðasta ári náðist mikilvægur árangur í helstu baráttumálum SASS á sviði samgangna. Framkvæmdir eru í gangi við Landeyjahöfn og veg að henni, brú yfir Hvítá og veg á milli Flúða og Reykholts, Lyngdalsheiðarveg á milli Laugarvatns og Þingvalla og Suðurstrandarveg á milli Þorlákshafnar og Grindavíkur.    Nauðsynlegt er fyrir framtíðaruppbyggingu samfélagsins að innviðir þess verði styrktir  og þar eru samgöngur ein af grunnstoðunum.  Mikilvægt er einnig að sporna gegn samdrætti og atvinnuleysi með verklegum framkvæmdum hins opinbera. Fjármögnun Suðurlandsvegar Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009, áréttar nauðsyn tvöföldunar Suðurlandsvegar á milli Selfoss og Reykjavíkur.  Við forgangsröðun framkvæmda í vegagerð hlýtur breikkun Suðurlandsvegar og brú yfir Ölfusá við Selfoss að  vera í fyrsta sæti.  Kemur þar margt til.  Í fyrsta lagi er mjög mikil og vaxandi umferð. Í öðru lagi há slysatíðni Þriðja lagi liggur fyrir að arðsemi tvöföldunar er mjög mikil, sbr. svar samgönguráherra við fyrirspurn á Alþingi 11. ágúst sl.  einnig er ljóst að almenningur telur þessa framkvæmd langbrýnasta úrlausnarefnið í samgöngumálum þjóðarinnar, sbr. nýgerða skoðanakönnun Gallup.   Þá  liggur fyrir að skipulagsmál standa ekki í vegi fyrir því  að hægt sé að hefja verkið og nú þegar er hluti leiðarinnar tilbúinn til útboðs hjá Vegagerðinni. Þingið telur því afar brýnt  að að breikkun Suðurlandsvegar  verði forgangsverkefni og gerir kröfu um að  í þessar framkvæmdir verði ráðist sem allra fyrst og nýtt verði þau tækifæri sem nú bjóðast til fjármögnunar.   Sjóvörn við Vík Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009,   krefst þess að sjóvörn við Vík verði sett í forgang. Nú er svo komið að mannvirki eru í beinni hættu á komandi vetri og því algjörlega nauðsynlegt að hefja framkvæmdir strax. Árið 1994 var gerð áætlun af Siglingastofnun um sjóvörn í Vík. Fjöruborðið er komið langt inn fyrir þau viðmiðunarmörk sem þá voru sett.  Einungis eru 50 m frá fjörukambi að íþróttavelli og 180 m að íþróttamannvirkjum. Ef ekkert verður að gert sem allra fyrst munu mannvirki fyrir hundruð milljóna verða í stórhættu. Áhersla á tengivegi og safnvegi. Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009,  leggur mjög mikla áherslu á að gerðar verði gagngerðar endurbætur á tengi- og safnvegakerfinu eftir tímasettri framkvæmdaáætlun. Mikil umferðaraukning hefur orðið á þessum vegum og þeir gegna mun stærra hlutverki nú en áður vegna breyttra atvinnuhátta og stóraukins ferðamannastraums.  Þá minnir þingið á nauðsyn þess að meðan þessir vegir hafa ekki verið lagðir bundnu slitlagi er mjög brýnt að framlög til viðhalds malarvega og snjómokstur verði aukin.   Tvíbreiðar brýr í stað einbreiðra Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Hornafirði 15. og 16. október 2009,   vekur sérstaka athygli á að enn er fjöldi einbreiðra brúa í vegakerfinu á suðursvæði Vegagerðarinnar.  Staðreyndin er að um 20 einbreiðar brýr eru á þjóðvegi 1 í Skaftafellssýslum, flestar í A-Skaftafellssýslu.  Á meðan þær eru við lýði er öryggi vegfaranda ógnað. Sú ógn fer vaxandi með aukinni  og þyngri umferð  stórra flutningabíla. Því er mikilvægt að gert verði stórátak í tvöföldun brúa. Fylgjast þarf grannt með breytingum á farvegum jökulfljóta á Skeiðarársandi með tilliti til hugsanlegra rofa á hringvegi Nýtt vegstæði fyrir Hornafjörð Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009,   leggur mikla áherslu á að farið verði að aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar þegar ráðist verður í gerð nýs vegstæðis yfir Hornafjörð     Sú leið sem aðalskipulag gerir ráð fyrir styttir vegalengdir innan sveitar um tæpa 5 kílómetra en lengir þó ekki leið þeirra sem leið eiga um þjóðveg 1. Nefndin telur mikilvægt að ákvörðun verði tekin sem fyrst  og framkvæmdir hefjist strax í kjölfarið.   Ný Vestmannaeyjaferja Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009,  bendir á mikilvægi þess að undirbúningur að smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju hefjist sem fyrst.  Ljóst er að frátafir verða meiri á siglingum á meðan núverandi Herjólfur verður í ferðum á milli Vestmannaeyja og nýrrar hafnar.  Grundvallaratriði er að möguleikar til stórbættra samgangna við Vestmannaeyjar verði nýttir til fulls.  Ársþingið  leggur jafnframt áherslu á að tímasetningar  vegna framkvæmda við Land-Eyjahöfn standi  en áætlað er að fyrsta ferð Herjólfs um höfnina verði farin 1. júlí á næsta ári.  Jafnframt telur nefndin mikilvægt að staðið verði við þá áætlun um gjaldskrá og ferðatíðni sem kynnt hefur verið.   Flugsamgöngur til Vestmannaeyja og Hornafjarðar Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009, leggur þunga áherslu á að ekki verði horfið frá þeirri stefnu samgönguyfirvalda að tryggja flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja.  Þörf eyjasamfélags eins og Vestmannaeyja fyrir  traustar flugsamgöngur verður áfram mikil þótt samgöngur á sjó verði bættar. Jarðgöng undir Reynisfjall Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009vekur athygli á því að vegurinn fyrir Reynisfjall er einn erfiðasti faratálmi á þjóðvegi 1 allt austur á land. Nauðsynlegt er að koma jarðgöngum um Reynisfjalli á samgönguáætlun. Fjarskiptamál Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009,leggur áherslu á  að allir landsmenn hafi aðgang að háhraða gagnaflutningskerfi. Þingið leggur áherslu á  að fyrirtækjum sem starfa á þessum markaði verði gert skylt að tryggja fullnægjandi gæði á þeim svæðum þar sem þau bjóða þjónustu sína.  Sjái þau sér það ekki fært láti  Fjarskiptastofnun fara fram  útboð á þessum svæðum. Almenningssamgöngur Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009,   telur mikilvægt  að stórefla almenningssamgöngur bæði á Suðurlandi og á milli Suðurlands og höfuðborgarsvæðisins.  Efling almenningssamgangna er þjóðhagslega hagkvæm, þær leiða til sparnaðar í rekstri samgöngukerfisins, draga úr mengun og síðast en ekki síst draga úr útgjöldum einstaklinganna.  Um síðustu áramót hófu sveitarfélagið Árborg og Hveragerðisbær rekstur almenningssamgangna milli Selfoss, Hveragerðis og Reykjavíkur í samvinnu við Strætó bs.  Verkefnið hefur gefist vel en ljóst er að ríkið sem hefur einna mestra hagsmuna að gæta leggur aðeins fram brot af hinum samfélagslega kostnaði  en viðkomandi sveitarfélög bera meginhluta hans.   Mikilvægt er að ríkið komi mun öflugar að þessu þjóðþrifamáli í framtíðinni. Hornafjarðarflugvöllur Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009, leggur áherslu á að Hornafjarðarflugvöllur fái aftur löggildingu sem millilandaflugvöllur með áherslu á ferju- og einkaflug. Atvinnumál   Orkunýting á Suðurlandi Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga haldið á Höfn í Hornafirði dagana 15. og 16. október 2009 lýsir þungum áhyggjum af atvinnuástandi á Suðurlandi. Um 700 manns eru atvinnulausir á svæðinu og því mikilvægt að sveitarfélög og ríki vinni saman að því að skapa þessu fólki atvinnu. Ársþingið telur mikilvægt að ríki og sveitarfélög á Suðurlandi standi saman að atvinnuuppbyggingu á þeim svæðum þar sem landrými er fyrir hendi og virkjanleg orka til staðar. Mikilvægt er að sveitarfélög á Suðurlandi standi vörð um þessi mál sérstaklega þegar höfð eru í huga þau áform Landsnets að byggja upp línu frá Hellisheiði út á Reykjanes með flutningsgetu frá 1600 – 2000 MW. Nái áform Landsnets fram að ganga er ljóst að öll orka sem verður til á Suðurlandi í nánustu framtíð verður flutt á annan landshluta til atvinnuuppbyggingar.   Einnig lýsir ársþingið yfir stuðningi við þær aðalskipulagsbreytingar sem samþykktar hafa verið af sveitarstjórnum á Suðurlandi og byggja á því að virkja ákjósanleg svæði til orkuöflunar og styrkja þar með atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga  átelur stjórnvöld fyrir að draga úr hófi fram staðfestingu skipulaga Flóahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps og sniðganga þar með góða stjórnsýsluhætti. Með skynsamlegri nýtingu orkunnar á Suðurlandi má skapa um 1000 störf sem kalla á a.m.k. 1500 afleidd störf eða um 2500 störf í héraði sé rétt á málum haldið af sunnlenskum sveitarstjórnarmönnum. Skerðing á þjónustu ríkisins á landsbyggðinni. Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga haldið á Höfn í Hornafirði dagana 15. og 16. október 2009  undrast þær áherslur sem fram hafa komið í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um þjónustu ríkisins á landsbyggðinni.  Allir eru meðvitaðir um að það þarf að draga saman í ríkisrekstri en fundurinn gerir þá kröfu að í því verkefni hafi ríkisstjórnin það að leiðarljósi að jafnræðis sé gætt milli landshluta.  Sérstaklega sé horft til þess að stór svæði utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar nutu að engu eða að litlu leyti þess uppgangs sem var fyrir efnahagshrunið. Niðurlagning sýslumannsembætta, embætta lögreglustjóra, héraðsdómara, skattstjóra og skerðing á grunnþáttum í heilbrigðisþjónustu svo sem sjúkraflutningum eru dæmi um vinnubrögð þar sem þessa jafnræðis er ekki gætt. Ekki hefur verið sýnt fram á sparnað af þessum tillögum. Slíkar aðgerðir munu hins vegar leiða af sér verra aðgengi að þjónustu og aukinn kostnað við að fá þjónustu sem lenda mun á íbúum svæðisins.  Veruleg hætta er á að störfum sem krefjast menntunar fækki við áformaðar aðgerðir.  Þingið bendir einnig á að rekstrarkostnaður á landsbyggðinni getur verið umtalsvert lægri en á höfuðborgarsvæðinu.   Ársþing SASS varar við tillögum sem fela í sér upplausn stjórnkerfisins aukna embættismannavæðingu og miðstýringu frá höfuðborgarsvæðinu.  Slíkar tillögur eru einungis til þess fallnar að rjúfa tengsl við grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og takmarka möguleika landsbyggðarinnar til að nýta auðlindir sínar og mannauð.   Ársþing SASS telur nauðsynlegt að nánara samstarf verði við sveitarfélögin og íbúa þegar ráðist er í breytingar á grunnþjónustu. Einungis þannig verður tryggt að um raunverulegan sparnað sé að ræða en ekki einungis tilflutning á störfum og valdi frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins: Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga haldið á Höfn dagana 15. og 16. október 2009 hvetur ríkisstjórn Íslands til að vinna með hagsmunaaðilum og sveitarfélögum í landinu að því að endurskoða fiskveiðistjórnunarkerfið þannig að sanngirni sé gætt. Sanngirnin er ekki fólgin í því að setja fyrirtæki og sveitarfélög í rekstrarvanda. Fiskveiðistjórnunarkerfið er mannanna verk og mikilvægt að það sé sífellt til endurskoðunar en þó þannig að stöðugleika sé gætt, bæði fyrir fyrirtækin, starfsmennina og ekki síst íbúa sveitarfélaga sem eiga allt sitt undir. Sveitarfélög á starfssvæði SASS byggja m.a. grundvöll sinn á sjávarútvegi og felst styrkur útgerðarinnar í fjölbreytileika veiða og vinnslu. Bein störf í sjávarútvegi á starfssvæði SASS eru ríflega 1600 og eru sjávarútvegsfyrirtæki kjölfesta sjávarbyggða.  Öllum má því vera ljóst að ef hriktir í stoðum sjávarútvegsins, þá hefur það róttæk áhrif á alla samfélagsgerð þar. Kjölfesta atvinnulífs er skilyrði fyrir því að  þróun, nýsköpun og nýjar atvinnugreinar fái þrifist. Raforkuverð til garðyrkjubænda Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga haldið á Höfn dagana 15. og 16. október 2009, skorar á þingmenn Suðurlands að beita sér fyrir því að fundin verði viðunandi lausn á rafmagnsverði til garðyrkjubænda. Suðurland er vagga matvælaframleiðslu á Íslandi og til þess að styrkja samkeppnisgrundvöll blóma- og grænmetisframleiðenda á tímum sem þessum er mjög mikilvægt að lækka rafmagnskostnað til framleiðenda til samræmis við það verð sem selt er á til stórnotenda. Þetta alvarlega ástand gæti hæglega leitt til gjaldþrota í stórum stíl í stéttinni með þeim afleiðingum að framleiðsla íslensks grænmetis mun minnka í stað þess að aukast eins og mjög mikilvægt er að gerist með tilliti til veikrar stöðu krónunnar.   Sjálfbær orka Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga haldið á Höfn í Hornafirði dagana 15. og 16. október 2009 skorar á ríkisstjórn Íslands að styðja við sjálfbæra orkuframleiðslu og hvetur sveitarfélög í landinu til að móta sér stefnu um notkun slíkra orkugjafa s.s fyrir bifreiðar og önnur farartæki. Sóknaráætlun 2020 Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga haldið á Höfn í Hornafirði dagana 15. og 16. október 2009 hvetur ríkisstjórn Íslands til að vinna sóknaráætlanir fyrir Ísland í samstarfi  við landshlutasamtök sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélögin í landinu og nýta sér þá stefnumótandi vinnu sem þegar hefur farið fram m.a. í tengslum við vaxtarsamninga.     Mennta- og menningarmál   Menntun fyrir alla alls staðar Ársþing SASS haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009 leggur ríka áherslu á uppbyggingu menntunar á öllum skólastigum og góðrar aðstöðu til fjarkennslu í öllum fjórðungnum. Gott aðgengi að menntun er ein mikilvægasta forsenda byggðar í landinu og stuðlar að nýsköpun í atvinnulífi. Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt að standa vörð um og efla aðgengi fólks að endur- og símenntun.   ART verkefnið á Suðurlandi Ársþing SASS haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009 skorar á ríkisvaldið að tryggja nauðsynlegar fjárveitingar til ART verkefnisins á Suðurlandi. ART verkefnið hefur staðið frá árinu 2006. Nú starfa 3 sérfræðingar í 2,5 stöðugildum við meðferð og ráðgjöf úti í skólunum sjálfum. Mjög mikilvægt er að verkefnið fái áframhaldandi framlag á fjárlögum, þar sem um meðferðarúrræði er að ræða en ekki eiginlegt skólastarf. ART verkefnið skiptir miklu máli fyrir fjölmarga einstaklinga og fjölskyldur auk þess að styrkja skólastarf á Suðurlandi í heild. Háskólafélag Suðurlands og önnur þekkingarsetur á Suðurlandi Ársþing SASS haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009 lýsir yfir ánægju með að starfsemi Háskólafélags Suðurlands er hafin og leggur áherslu á að sveitarfélög standi áfram þétt að baki félaginu.   Einnig leggur ársþingið áherslu á að  ríkisvaldið tryggi félaginu og þeim háskóla- og þekkingarsetrum sem þegar eru starfandi í fjórðungnum áframhaldandi fjármagn til reksturs starfseminnar.  Mjög mikilvægt er að greiða fyrir aðgangi fólks að framhalds- og háskóla­námi á Suðurlandi og ekki síst nú þegar kreppir að í atvinnumálum. Þá ríður á að treysta grunnstoðir þjóð­félagsins til framtíðar. Minjavörður Suðurlands og fræðasetur á Skógum Ársþing SASS haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009 fagnar því að komið hefur verið á fót stöðu minjavarðar á Suðurlandi með staðsetningu á Skógum.   Ársþingið hvetur jafnframt til þess að komið verði á fót fræðasetri á Skógum í safnafræðum.  Þar er unnið stórmerkilegt frumkvöðlastarf og uppbygging verið á undanförnum áratugum og því við hæfi að staðsetja slíka stofnun þar. Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði Ársþing SASS haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009 skorar á Alþingi að tryggja áframhaldandi framlag til starfsemi Rannsóknarmiðstöðvar HÍ í jarðskjálftaverkfræði. Rannsóknarmiðstöðin hefur verið starfrækt á Selfossi undan­farinn áratug og þar hafa verið stundaðar grundvallarrannnsóknir á jarðskjálftum og áhrifum þeirra. Án tilkomu stöðvarinnnar lægju ekki fyrir mælingar og rannsóknir á afleiðingum tveggja stórra jarðskjálfta sem riðið hafa yfir Suðurland frá því að stöðinni var komið á fót. Þær rannsóknir hafa þegar nýst og leitt til sparnaðar og aukins öryggis fyrir almenning. Þá nýtur jarðskjálftamiðstöðin alþjóðlegrar viður­kenningar og er einn af þáttum jákvæðar ímyndar sem Ísland þarfnast nú á erfið­leika­tímum.  Jarðskjálftamiðstöðin hefur að mestu verið rekin fyrir sjálfsaflafé en jafnframt notið framlags af fjárlögum.   Falli það framlag niður verður tæpast lengur grundvöllur fyrir starfseminni á Selfossi. Áskorun til RÚV um aukna þjónustu á Suðurlandi Ársþing SASS haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009 skorar á Ríkis­útvarpið að efla þjónustu sína á Suðurlandi t.d. með því fréttamaður hafi starfsaðstöðu á Suðurlandi.  Svæðisútvarp fyrir Suðurland var lagt niður 2007 en svæðisútvarp er áfram rekið á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi og þjónusta við Vesturland aukin á síðasta ári með ráðningu fréttamanns. Full rök eru fyrir því að þjónusta RÚV eigi að vera með sambærilegum hætti á Suðurlandi og annars staðar á landsbyggðinni.   Verknámshús við Fjölbrautaskóla Suðurlands Ársþing SASS haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009 hvetur menntamálaráðuneyti til  að taka fyrsta skref að eflingu verknáms á Suðurlandi með því að ljúka sem fyrst gerð samkomulags við sveitarfélögin um að hefja hönnun viðbyggingar við verknámshús Fjölbrautaskóla Suðurlands á grundvelli þarfagreiningar sem liggur fyrir. Sveitarfélögin hafa þegar lagt fram fé til verkefnisins  sem hægt er að nýta til hönnunarinnar. Lögð er áhersla á að hönnun ljúki á næstu mánuðum.  Stefnt verði að því að verkið verði síðan boðið út á seinni hluta árs 2010.   Nám á mörkum skólastiga – samfella í námi Ársþing SASS haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009 skorar á stjórnvöld mennta- og fjármála að draga til baka fyrirætlanir um niðurskurð á fjármagni til framhaldsskóla vegna kennslu þeirra nemenda sem stunda nám í einstökum framhaldskólaáföngum samhliða grunnskólanámi. Með niðurskurði þessum er ekki verið að spara fé þegar til langs tíma er litið heldur er verið að hægja á námi öflugra nemenda. Niðurskurður af þessu tagi er ekki í samræmi við gildandi lög um grunn- og framhaldsskóla.   Efling framhaldsnáms í Rangárvalla og V-Skaftafellssýslu Ársþing SASS haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009 hvetur til þess að átak verði gert í að efla staðbundið framhaldsnám í Rangárvalla- og Skaftafellssýslu. Kannaðir verði möguleikar á útibúi frá framhaldsskólum á Suðurlandi.   Framlög til jöfnunar námskostnaðar (dreifbýlisstyrkur) Ársþing SASS haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009 skorar á ríkisvaldið að tryggja óbreytt framlög til jöfnunar á námskostnaði.  Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að framlög til jöfnunar á námskostnaði verði lækkuð um 30% frá fyrra ári eða úr 700,2 milljónum í 472,7 milljónir sbr. fjárlagalið 02-884. Þessi niðurskurður mun koma mjög hart niður á þeim sem hafa m.a.a treyst á jöfnunarstyrkinn til að hafa möguleika á að stunda framhaldsskólanám fjarri heimili sínu og er þannig vegið gróflega að jafnrétti til náms. Menningarsamningur Suðurlands Ársþing SASS haldið á Höfn í Hornafirði 15. – 16. október 2009 leggur áherslu á mikilvægi þess að Menningarráði Suðurlands verði tryggður áframhaldandi starfsgrundvöllur.  Menningarráðið hefur verið gríðarlega mikilvægt allri menningarstarfsemi á Suðurlandi.  Styrkir frá menningarráðinu hafa skipt sköpum í eflingu stærri og smærri menningarviðburða og –verkefna á svæðinu.  Þingið skorar á ríkisvaldið að tryggja fjármagn til endurnýjunar menningarsamnings. Velferðarmál Tilfærsla málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009, felur stjórn samtakanna í samvinnu við sveitarfélög á Suðurlandi að hefja nú þegar undirbúning að tilfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga og skipuleggja vinnu næstu mánaða þannig að ákvörðun um skipulag þjónustunnar Suðurlandi liggi fyrir vorið 2010.  Málefni fatlaðra eru í eðli sínu viðkvæmt verkefni og því leggur ársþing SASS til að staðið verði með vönduðum hætti að undirbúningi tilfærslunnar með hagsmuni hinna fötluðu að leiðarljósi. Heilbrigðisþjónusta á Suðurlandi Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009, leggur áherslu á að boðaður niðurskurður í heilbrigðismálum verði ekki látinn koma niður á grunnþjónustu til almennings. Þegar hefur verið hagrætt í rekstri heilbrigðisþjónustunnar á Suðurlandi með sameiningu stofnana sem skilað hefur góðum árangri. Sérstök áhersla er á eftirfarandi þætti:  

  • Tryggja örugga vaktþjónustu á skurðdeild Heilbrigðisstofnun Suðurlands en lokun hennar hefur áhrif á fæðingarþjónustu stofnunarinnar.
  • Tryggja að núverandi fyrirkomulag sjúkraflutninga í Rangárþingi skerðist ekki frekar.

Meðferðarúrræði barna og unglinga Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009, hvetur stjórn SASS til að taka til umfjöllunar, verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga varðandi barnaverndarmál og meðferðarvinnu. Grunnskólar og barnavernd  eru á  ábyrgð sveitarfélaganna og því telur fundurinn mikilvægt að taka til endurskoðunar verkaskiptasamning ríkis og sveitarfélaga og hlutverk Barnaverndarstofu í því samhengi.   Heildræn einstaklingsmiðuð þjónusta Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009,  leggur til að skipulögð þverfagleg teymi séu í hverju sveitarfélagi sem samanstendur af fulltrúa frá félagsþjónustu, heimahjúkrun og svæðisskrifstofu þegar það á við ásamt öðrum þeim sem að þjónustu koma í heimahúsi.  Mikilvægt er að tekið sé mið af þörfum hvers og eins. Veita þarf þjónustu samhliða frá þeim aðilum sem að skjólstæðingnum koma. Þá er sérstaklega átt við kvöld- og helgarþjónustu. Á þeim svæðum sem heilsugæslan veitir kvöld- og helgarþjónustu þarf að sama skapi að vera aðgengileg félagsþjónusta á þeim tíma. Einnig er mikilvægt að bæði heilsugæslur og sveitarfélög séu tilbúin að veita þjónustu til íbúa svæða á öðrum tímum en dagtímum þegar þörf þykir og fagaðilar hafa metið svo. Gæta þarf að jafnræði íbúa innan svæða og leitast skal við að jafnræði sé á milli svæða.   Tilkynningaskylda starfsfólks sem vinnur með börnum til barnaverndarnefnda Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009,  minnir á skyldu þeirra sem vinna með börnum að tilkynna ef grunur leikur á að barn sé beitt ofbeldi eða sæti vanrækslu.  Fram hefur komið að slíkum tilfellum hefur fjölgað í kjölfar efnahagskreppunnar og því er enn ríkari ástæða til  en áður.   Grunur þarf ekki að vera rökstuddur heldur er það í höndum barnaverndarnefnda að rannsaka slíkar tilkynningar.   Atvinnuleysi og  aðrar afleiðingar kreppunnar Efnahagskreppan sem riðið hefur yfir sl. ár  hefur þegar haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjölda fólks.  Atvinnuleysi hefur stóraukist og hagur margra fjölskyldna er mjög erfiður.  Álag á félagsþjónustu sveitarfélaganna hefur því stóraukist.  Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009, hvetur sveitarfélög og ríkið að standa vörð um hagsmuni þessa fólks og ekki síst barna og unglinga með öllum tiltækum ráðum.   Þjónustusamningur Sveitarfélagsins Hornafjarðar og ríkis um heilbrigðis og öldrunarmál Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. og 16. október 2009, hvetur heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytið til þess að ganga til samninga við Sveitarfélagið Hornafjörð um endurnýjun á þjónustusamningum um heilbrigðis- og öldrunarmál í sveitarfélaginu. Samningar hafa verið lausir frá 1. janúar 2007. Sveitarfélagið hefur annast reksturinn frá 1996 og mikilvægt er að eyða óvissu um hann.   Umhverfis- og skipulagsmál Fráveituframkvæmdir sveitarfélaga Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. – 16. október 2009 harmar að ríkisvaldið skuli hafa hætt að veita styrki til sveitarfélaga vegna fráveituframkvæmda. Þingið skorar á það að hefja sambærilegan stuðning á ný. Ljóst er að sveitarfélög munu eiga mjög erfitt með að uppfylla þær lagaskyldur sem á þau eru settar nema með áframhaldandi stuðningi. Sveitarfélög á landsbyggðinni búa mörg hver við mjög viðkvæma viðtaka og verða því að fara í mjög kostnaðarsamar aðgerðir til þess að koma sínum fráveitumálum í lag. Hafa verður þessa erfiðu stöðu sveitarfélaga á landsbyggðinni í huga í allri umræðu um auknar kröfur gagnvart sveitarfélögum um úrlausnir í fráveitumálum. Ársþingið vill einnig árétta að málefnið er ekki hagsmunamál einstakra sveitarfélaga heldur lífríkisins alls og þar með sameiginlegur ávinningur allra. Í ljósi þess að íslenskum sveitarfélögum er gert að uppfylla strangari kröfur í reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp heldur en tilskipun ESB gerir ráð fyrir, beinir Ársþing SASS þeim eindregnu tilmælum til ríkisins að halda áfram að veita styrk vegna fráveituframkvæmda. Ársþing SASS bendir sérstaklega á  að taka út úr reglugerðinni hið íslenska ákvæði sem snýr að því að sveitarfélög við sjó þurfa að uppfylla mun strangari kröfur um þynningarsvæði en gerist og gengur í löndum Evrópusambandsins. Lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. – 16. október 2009 hvetur ríkisstjórn til að setja sem fyrst reglugerð skv. lögum 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og gefa þannig sveitarfélögunum tæki til útfærslu á lögunum. Með lögunum eru settar nýjar skyldur á sveitarfélögin auk útvíkkaðra skyldna á eldri verkefnum.  Þar er heimild til reglugerðarsetningar um frekari útfærslu á þeim og telja sveitarfélögin að slík reglugerð sé nauðsynlegt tæki til að vinna að þessum málum á samræmdum og samhæfðum grunni.   Þjóðgarðurinn á Þingvöllum Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. – 16. október 2009 er sammála um að Þjóðgarðurinn á Þingvöllum sé dýrmæt náttúruperla sem ber að vernda og umgangast af virðingu. Sunnlensk sveitarfélög eru einnig stolt af þeirri alþjóðlegu viðurkenningu sem Þjóðgarðurinn á Þingvöllum hefur fengið með því að vera skráður á heimsminjaskrá UNESCO sem verndarsvæði vegna einstaks landslags og menningarminja. Í ljósi þessara menningar- og umhverfislegu þátta vill Ársþingið beina þeim eindregnu tilmælum til Umhverfisráðherra að sveitarfélögunum verði gert kleift að vinna að málefnum verndarsvæðis Þingvalla á þann hátt að sómi sé að. Því fara sveitarfélögin fram á að ríkið geri þeim unnt að útfæra reglugerð nr. 650/2006 um verndarsvæði Þingvalla þar sem þar eru settar frekari skyldur og ný verkefni á borð sveitarfélaga á verndarsvæðinu án þess að því hafi fylgt nokkurt fjármagn til að framfylgja ákvæðum reglugerðarinnar. Vatnajökulsþjóðgarður Ársþing SASS , haldið á Höfn í Hornafirði 15-16. október 2009 leggur áherslu á að í uppbyggingu og rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs verði uppbygging atvinnulífs og efling byggðar haft að leiðarljósi ásamt náttúruvernd og auknum möguleikum til útivistar.  Frá því að umræða hófst um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hefur verið lögð megin áherslu á að þjóðgarðurinn verði  aflvaki fyrir þróun byggðar á nærsvæði hans. Þjóðgarðurinn getur orðið, sé rétt á málum haldið, mikilvægt afl í uppbyggingu ferðaþjónustu, handverks, hönnunar og fleiri atvinnugreina sem tengjast starfi garðsins.  Slíkt eflir enn frekar þann þrótt sem einkennt hefur uppbyggingu ferðaþjónustu á síðustu árum.  Til þess að þetta geti orðið verður þjóðgarðurinn að efla enn frekar samstarf  við sveitarfélög og landeigendur, t.d. um rekstur gestastofa og landvörslu.  Þá er mikilvægt að beina fjárfestingum garðsins á þá braut að stuðla að merkingu innkomuleiða í þjóðgarðinn,  merkingu gönguleiða, uppbyggingu fjallaskála, upplýsingastöðva og annarrar uppbyggingu er skapað getur tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki að þróa vörur og þjónustu við ferðamenn.   Ársþing SASS hvetur til þess að staðfest verði sú atvinnustefna sem fram kemur í verndaráætlun  Vatnajökulsþjóðgarðs við gildistöku hennar.   Sauðfjárveikivarnarlínur Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. – 16. október 2009 beinir eindregnum tilmælum til  sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, Matvælastofnunar og Yfirdýralæknis að öllum nauðsynlegum sauðfjárveikivarnarlínum verði viðhaldið svo öryggi ósmitaðra svæða sé tryggt.   Loftgæði Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. – 16. október 2009 beinir eindregnum tilmælum til ríkisvaldsins að Ísland setji sér viðmiðunarmörk vegna lofttegunda sem geta haft áhrif á heilsu fólks eins og td. brennisteinsvetni. Í ljósi þess að á Suðurlandi eru starfandi jarðvarmavirkjanir er eðlilegt að gerð sé krafa á íslensk stjórnvöld að þau með reglusetningu tryggi íbúum í nálægð við slíkar virkjanir loftgæði og stuðli þannig að góðri lýðheilsu allra landsmanna. Sjálfbær þróun um nýtingu náttúruauðlinda Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. – 16. október 2009 leggur áherslu á að andi sjálfbærar þróunar verði leiðarljós í áætlunum um nýtingu auðlinda.  Suðurland er ríkt af orkuauðlindum og er sjálfbærni og endurnýjun grundvallarþáttur í útfærslu og framkvæmd áætlana um nýtingu orkuauðlinda landsins. Meðferð skipulagsmála –staðfesting aðalskipulags Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. – 16. október 2009 vill ítreka mikilvægi þess að stjórnvöld fari að lögum í meðferð skipulagsmála.  Óásættanlegt er að aðalskipulagstillögur sveitarfélaga fái ekki afgreiðslu og staðfestingu ríkisvaldsins, í samræmi við lagalega bundna málsmeðferð og tímaramma. Aðalskipulag sveitarfélaga er eitt af grunnstjórntækjum sveitarstjórna og tómlæti við staðfestingu aðalskipulags er óásættanlegt inngrip ríkisvaldsins í skipulagsvinnu þeirra.   Andstaða gegn landskipulagi Ársþing SASS, haldið á Höfn í Hornafirði 15. – 16. október 2009 ítrekar ályktun aðalfundar SASS 2008, þar sem mótmælt er hugmyndum um landsskipulag, sem fram hafa komið í frumvarpi til skipulagslaga. Samkvæmt frumvarpinu var gert ráð fyrir því að umhverfisráðherra láti vinna landsskipulag sem verði æðsta skipulagsstigið og komi jafnframt í stað núgildandi svæðisskipulags miðhálendis Íslands. Hlutverk sveitarfélaga yrði síðan að aðlaga sín aðal- og svæðisskipulög að landsskipulaginu. Með þessu væri verið að taka skipulagsvaldið og forræði í skipulagsmálum af sveitarfélögunum og er það óásættanlegt. Fram hefur komið að frumvarpið er í endurskoðun í umhverfisráðuneytinu og skorar ársþingið á alþingismenn og ráðuneytið að tryggja að í endurskoðuðu frumvarpi verði skipulagsvald sveitarfélagana ekki skert.