fbpx

Haldnir verða átta þjóðfundir í öllum landshlutum á tímabilinu 30. janúar til 20 mars. Fundirnir eru hluti af sóknaráætlun 20/20 sem ætlað er að ná fram samstöðu um lykilákvarðanir og framtíðarsýn fyrir atvinnulíf og samfélag sem skili okkur til móts við bjartari og betri tíma eins hratt og örugglega eins og kostur er. Á fundunum  munu koma saman fulltrúar landshlutanna, sérfræðingar og fulltrúar hagsmunaaðila ásamt jafnmörgum einstaklingum úr röðum heimamanna sem valdir verða með úrtaki úr þjóðskrá líkt og gert var fyrir Þjóðfundinn í Laugardalshöll yfir landið í heild. Búist er við 100 til 200 manns á hvern fund í landshlutunum. Mynd af skiptingu landshluta Verkefnið á þjóðfundum landshlutanna verður að setja fram hugmyndir um framtíðaráform á viðkomandi svæði til eflingar atvinnulífs og samfélags á grundvelli sérstöðu og styrkleika svæðanna. Þessi vinna verður grundvöllur að áætlun hvers landshluta innan þeirrar sóknaráætlunar sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að gerð verði og tillaga til þingsályktunar hefur verið lögð fram um á Alþingi. Gert er ráð fyrir að 2-3 ráðherrar úr ríkisstjórninni verði á hverjum þjóðfundi í landshlutunum ásamt fulltrúum allra stjórnmálaflokka. Undirbúningur er í höndum stýrihóps um sóknaráætlun en framkvæmd þjóðfundanna átta verður á vegum landshlutasamtaka á hverjum stað.Skipaðir verða samráðshópar í öllum landshlutum og unnar samþættar áætlanir fyrir hvert svæði um sig sem hafa sameiginlega skírskotun til eflingar atvinnu, menntunar og opinberrar þjónustu innan svæðisins.

  • Sunnlendingar hittast til þjóðfundar, laugardaginn 6. mars í Fjölbrautaskóla Suðurlands

Vefsvæði 20/20 Sóknaráætlunar er á vefslóðinni www.island.is en þar getur almenningur fylgst með framvindu sóknaráætlunarinnar. Á vormánuðum verða jafnframt boðaðir opnir fundir undir merkjum sóknaráætlunar um umbætur og endurskipulagningu í opinberri þjónustu, menntamál, atvinnustefnu, bætta samkeppnishæfni, umhverfismál og náttúruvernd auk fundar þar sem dregnar verða saman sóknaráætlanir landshlutanna. Í stýrihópi Sóknaráætlunar 20/20 eru Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kristján L. Möller samgönguráðherra, Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, Sigrún Björk Jakobsdóttir, formaður bæjarráðs á Akureyri og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra