fbpx

Menningarmiðstöð Hornafjarðar hlýtur Menningarverðlaun Suðurlands árið 2023 en viðurkenningin var veitt á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) í Vík 26. október sl. Í rökstuðningi dómnefndar segir að Menningarmiðstöð Hornafjarðar hafi unnið glæsilegt starf í þágu menningar í Sveitarfélaginu Hornafirði og gefið einstaklega jákvæða mynd af Austur- Skaftafellssýslu, menningu og menningararfi sýslunnar.

Mynd er frá afhendingunni á Hótel Vík en á myndinni eru frá hægri Ásgerður K. Gylfadóttir formaður SASS, Eyrún Helga Ævarsdóttir forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar, Carmen Diljá Eyrúnardóttir og Tim Junge starfsmenn Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar.

Verðlaunin eru samfélags- og hvatningarverðlaun SASS á sviði menningar á Suðurlandi.

Alls bárust 19 tilnefningar um 14 verkefni af öllu Suðurlandi. Mikil breidd var í tilnefningum og gæðum þeirra. Tilnefningarnar eru aðeins toppurinn af ísjakanum í því mikla menningarstarfi sem á sér stað í fjórðungnum.

Starf Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar er metnaðarfullt þar sem áhersla er lögð á samfélagið, börnin og fjölmenningu. Menningarmiðstöðin starfrækir ýmis söfn, meðal annars bóka- og héraðsskjalasafn ásamt Svavarssafni sem er listasafn Svavars Guðnasonar listmálara. Kjarni safneignarinnar eru verk eftir Svavar og fleiri hornfirskra málara.

Söfn Menningarmiðstöðvarinnar stuðla að aukinni menningarþekkingu barna og fullorðinna með fjölbreyttri fræðslu og viðburðarhaldi. Menningarmiðstöðin hefur um árabil boðið upp á margbreytilegt barnastarf svo sem listasmiðjur og krakkaklúbba á söfnum stofnunarinnar, einnig sumarstarf þar sem börn eru kynnt fyrir náttúru, umhverfi, listum og öðrum fróðleik.
Árlega eru fjölmargar sýningar og annað viðburðahald sem gera menningu hátt undir höfði og hefur Menningarmiðstöðin vakið athygli á landsvísu fyrir sitt öfluga starf. Gott samstarf er við fjölmörg félagasamtök og einstaklinga.