fbpx

Menntaverðlaun Suðurlands 2014 voru afhent í gær á hátíðarfundi í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.  Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, veitti verðlaunin.  Alls bárust tilnefningar um 11 verkefni og voru þær mjög fjölbreyttar.  Verðlaunin hlaut Njálurefillinn, verkefni sem unnið er að í Sögusetrinu á Hvolsvelli.  Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) skipaði starfshóp til að fjalla um tilnefningarnar, en hann skipuðu: Kristín Hreinsdóttir verkefnastjóri hjá SASS, Elín Einarsdóttir varaformaður SASS og Magnús H Jóhannsson sviðsstjóri Þróunarsviðs Landgræðslunnar í Gunnarsholti.  Niðurstaðan var eftirfarandi:

Njálurefillinn hlýtur menntaverðlaun Suðurlands 2014. Verkefnið „Njálurefillinn“ felst í að Brennu-Njálssaga er saumuð með refilsaumi í 90 m langan refil. Hönnuður refilsins er Kristín Ragna Gunnarsdóttir listakona og bókmenntafræðingur, en Christina M Bengtsson og Gunnhildur E. Kristjánsdóttir eiga veg og vanda af verkefninu. Það er mat starfshópsins að verkefnið sé einstakt hvað varðar fræðslugildi. Sagan verður ljóslifandi í höndum þeirra sem að verkinu koma og gamla handverkið er endurborið. Það gildir um alla aldurshópa hvort sem þeir eru í skóla eða ekki, Íslendinga sem aðra, að þátttaka þeirra í verkefninu fræðir viðkomandi og hver þeirra eignast hlut í verkinu. Starfshópurinn telur að verkefnið megi kynna miklu víðar og vonast til þess að verðlaunin nýtist í það að einhverju leyti.

Meðfylgjandi eru myndir af Njálureflinum og frá afhendingu Menntaverðlauna Suðurlands 2014.  Gunnhildur E. Kristjánsdóttir tók við verðlaununum fyrir hönd hópsins sem stendur að gerð refilsins.  Sjá einnig fréttatilkynningu á vef Rangárþings eystra

clear1x1 NjálurefillNjalurefillinn(1)AfhendingÓlafur Ragnar Grímsson og Gunnhildur E. Kristjánsdóttir