fbpx

 

Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir hefur starfað sem ráðgjafi og verkefnastjóri á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) frá árinu 2015. Í því hlutverki hefur hún verið starfsmaður Nýheima þekkingarseturs á Höfn í Hornafirði. Nú hefur Guðrún Ásdís verið ráðin til starfa sem verkefnisstjóri og kynningarfulltrúi hjá SASS.

Guðrúnu Ásdísi þekkja margir þeir sem að koma að starfsemi samtakanna þar sem hún hefur unnið að verkefnum þvert á landshlutann, sinnt ráðgjöf, komið að umsjón með Uppbyggingarsjóði Suðurlands og aðstoðað við undirbúning og framkvæmd ársþinga samtakanna svo eitthvað sé nefnt. Guðrún Ásdís býr að mikilli reynslu úr frumkvöðlastarfi, hvort sem er úr ráðgjafahlutverkinu eða úr eigin rekstri og er með mastersgráðu á sviði markaðsmála frá Háskólanum á Bifröst. Guðrún Ásdís er búsett í Hornafirði ásamt fjölskyldu sinni og verður áfram með starfsstöð í Nýheimum. 

Samstarf Nýheima og SASS heldur áfram og hefur nýr samningur verið gerður um hlutverk byggðaþróunarfulltrúa í Hornafirði. Kristín Vala Þrastardóttir verkefnastjóri og Hugrún Harpa Reynisdóttir forstöðumaður Nýheima munu sinna hlutverkum byggðaþróunarfulltrúa í sveitarfélaginu Hornafirði. 

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga bjóða Guðrúnu Ásdísi velkomna til starfa.