Markmið
Að styðja við áframhaldandi þróun almenningssamgangna á Suðurlandi og viðhalda skipulagðri akstursþjónustu í landshlutanum.
Verkefnislýsing
Stutt verði við leiðir sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna út frá byggðalegum sjónarmiðum og stutt við skólaakstur úr dreifbýli í þéttbýli og til höfuðborgarsvæðisins. Einnig verði hugað að nýtingu vistvænna orkugjafa.
Tengsl við sóknaráætlun 2015-2019
Verkefnið tengist beint eftirfarandi megin áherslum Sóknaráætlunar Suðurlands:
- Auka samvinnu á milli sveitarfélaga í sem flestum málefnum
- Skapa jákvæða ímynd af Suðurlandi sem byggir á gæðum og hreinleika
- Vinna að umhverfisvakningu með sjálfbærni að leiðarljósi og auka sjálfbæra nýtingu á orku og auðlindum
- Auka fjölbreytni í atvinnulífi, mannlífi, menningu og menntun
Lokaafurð
Bætt almenningssamgangnakerfi á Suðurlandi.
Staða verkefnis
Verkefnið styður við áframhaldandi þróun almenningssamgangna á Suðurlandi og viðhaldi skipulagðra akstursþjónustu í landshlutanum. Fyrirhugað er að stutt verði við leiðir sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna út frá byggðalegum sjónarmiðum og stutt við skólaakstur úr dreifbýli í þéttbýli og til höfuðborgarsvæðisins. Einnig verði hugað að nýtingu vistvænna orkugjafa. Almenningssamgöngur og hreyfing fótgangandi og á hjólum eru raunhæfir valkostir sem draga úr umhverfisáhrifum, samgöngukostnaði og bæta lýðheilsu ásamt því að draga úr orkuþörf samgangna. Varðandi tvo síðarnefndu samgöngumátana verður þó að hafa í huga að þeir eru vart raunhæfir valkostir þegar ferðast er um langan veg í rysjóttu tíðarfari. Eitt af markmiðum í nýsamþykktri samgönguáætlun 2019 – 2033 er að íbúar landsbyggðarinnar eigi kost á að komast til höfuðborgarsvæðisins á um 3,5 klst. samþættum ferðatíma, akandi, með ferju og/eða í flugi. Annað markmið stjórnvalda er að almenningssamgöngur verði umhverfislega sjálfbærar og að þær dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Framgreind markmið hafa verið leiðarljós við vinnslu verkefnisins á síðustu mánuðum en ljóst er að til að tryggja aðgengi að þjónustu, þ.m.t. nauðsynlegri opinberri þjónustu, auka hreyfanleika og áreiðanleika, styrkja og stækka vinnusóknarsvæði þarf skilvirkar almenningssamgöngur. Auk þess sem þær eru liður í lífskjarasamning stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
Tilgangur þess að efla almenningssamgöngur er að:
• fjölga valkostum í samgöngum og bæta hreyfanleika og aðgengi að þjónustu
• draga úr þörf fyrir dýrar, rýmisfrekar samgönguframkvæmdir
• draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum
Aldraðir, börn og ungmenni nýta sér almenningssamgöngur meira en aðrir hópar. Með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar á komandi áratugum mun fólki með skerta hreyfigetu fjölga og því brýnna að huga að aðgengi fyrir alla við hönnun samgöngumannvirkja og samgöngutækja. Rekstur almenningssamgangna hefur verið erfiður síðustu ár. Forgangsverkefni er að viðhalda lítt breyttu þjónustustigi gagnvart íbúum og gestum og það er gert með því að standa vörð um núverandi leiðakerfi og tíðni ferða.
Verkefnastjóri
Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS
Framkvæmdaraðili
SASS
Samstarfsaðili
SASS, sveitarfélögin og Vegagerðin
Heildarkostnaður
9.000.000
Þar af framlag úr Sóknaráætlun
9.000.000
Ár
2019
Tímarammi
Verkefnið verður unnið á árinu 2019
Árangursmælikvarði/ar
Viðhalda og styrkja leiðarkerfi almenningssamgangna á Suðurlandi.
Staða
Verkefninu er lokið