fbpx

Fundargerð
aðalfundar SASS
haldinn á Stracta hótelinu á Hellu
28. og 29. október 2021

Setning ársþings

Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður SASS setur fundinn og býður fulltrúa velkomna á ársþing SASS. Ræðir hún um tímann frá síðasta SASS þingi, en flestir fundir stjórnar voru í fjarfundi. Þakkar hún Rangárþingi ytra fyrir móttökurnar.

Kosning fundarstjóra og fundarritara

Formaður tilnefnir Ágúst Sigurðsson og Björk Grétarsdóttur sem fundarstjóra og Rósu Sif Jónsdóttur sem fundarritara. Er það samþykkt samhljóða.

Í lok máls felur formaður fundarstjórum stjórn fundarins.

Björk Grétarsdóttir tekur til máls og býður fundargesti velkomna í Rangárþing ytra á aðalfund SASS.

Kosning kjörbréfanefndar

Björk Grétarsdóttir tekur til máls og leggur fram svohljóðandi tillögu stjórnar SASS að kjörbréfanefnd.

Kjörbréfanefnd                                               Sveitarfélag

Aldís Hafsteinsdóttir                                       Hveragerðisbær
Ari Björn Thorarensen                                   Sveitarfélagið Árborg
Kristján S. Guðnason                                    Sveitarfélagið Hornafjörður

Er tillagan samþykkt samhljóða og tekur kjörbréfanefnd þegar til starfa.

Starfsskýrsla 2019 -2020

Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður flytur skýrslu stjórnar. Fer hún yfir skipan stjórnar og skipurit SASS. Fastráðnir starfsmenn SASS eru sjö. Fjöldi er af samstarfsaðilum og ráðgjöfum sem starfa á þeirra vegum og dreifðir eru um allt Suðurland, en ráðgjafaþjónusta er mikilvægur þáttur í starfi SASS. SASS vinnur mikið á sviði atvinnu- og byggðaþróunar í nánu samstarfi við samstarfsstofnanir á svæðinu, unnið er m.a. að því að efla menningar- og listsköpun, ásamt fræðslu, endurmenntun og atvinnu- og nýsköpun.Aukið fjármagn kom frá ríkinu við COVID-19 faraldurinn sem hefur verið nýtt í verkefni hjá Sóknaráætlun Suðurlands. Mikil aðsókn er í Uppbyggingarsjóðinn og verið er að yfirfara umsóknir vegna haustsins 2021 en 112 umsóknir bárust.

Markmið og áherslur Sóknaráætlunar Suðurlands er að bæta menningu, velferð og samstarf svo að lífsgæði eflist og mannlíf á Suðurlandi blómstri. Það geta allir sent inn tillögur að áhersluverkefni í gegnum vef SASS og hvetur hún Sunnlendinga til að senda inn sínar hugmyndir.

Áfangastaðastofa hefur verið mikið til umræðu. SASS líkt og önnur landshlutasamtök undirrituðu samstarfsamning við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið í byrjun árs um stofnun áfangastaðastofu á Suðurlandi.

Unnið er að mótun móttökuáætlana á miðsvæðinu en með þeim skuldbinda sveitarfélögin sig til að taka ábyrgð á samþættingu erlendra íbúa við samfélagið. Verkefnið er styrkt af byggðaráætlun. Þá nefnir formaður Lóu nýjan nýsköpunarsjóð fyrir landsbyggðina sem styrktur er af ríkinu, 5 aðilar af svæðinu fengu styrk úr sjóðnum. Rætt er um hvað verkefnið Sumarstöf námsmanna tókst vel.

 

Helstu áhersluverkefni ársins 2021 eru:

  • Orkídea, markmiðið er að efla nýsköpun í orkutengdri matvælaframleiðslu og líftækni á svæðinu. Samstarfssamningur um verkefnið var undirritaður 2020.
  • Úthafsfiskeldi við Vestmannaeyjar, þar er aflað mikið af gögnum um vistkerfi og veðurfar og í framhaldi kannað hvort að hægt sé að starfrækja arðbært fiskeldi í hafinu út af Suðurlandi. Verkefnið hófst 2020.
  • Hamingjulestin, stuðlar að fræðslu og hefur það markmið að stuðla að geðheilbrigði sem leiðir til aukinnar hamingju og vellíðunar íbúa á Suðurlandi, unnið er í samstarfi við heilsueflandi sveitarfélög á svæðinu.
  • Ölfus Cluster, þar koma inn bæði stór og smá atvinnuþróunarverkefni.
  • Sóknarfæri, leiðin á markað, er námskeið sem haldið var í fjarnámskeiði og eru fyrirlesarar aðilar sem tengjast fyrirtækjarekstri.
  • Katla geopark er eitt af áhersluverkefnum þar sem unnið er að svæðismörkun áfangastaðar.
  • Þekkingarsetur á Laugarvatni um úrgangsmál, undirritaður var samningur milli SASS og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis í haust og er tilgangurinn að aðstoða sveitarfélög við innleiðingu hringrásakerfis til að endurnýta úrgang og draga úr urðun heimilisúrgangs. Markmiðið er að leiða saman sveitarfélög til að gera enn betur í þessum málaflokki.
  • Svæðisskipulag Suðurlands, unnið er áfram að verkefninu.

 

Önnur áhugaverð verkefni sem SASS vann að á tímabilinu eru:

  • Menntaverðlaun Suðurlands en kennarar í Vestmannaeyjum fengu verðlaunin fyrir árið 2020, verið er að auglýsa eftir tilnefningu fyrir árið 2021.
  • Menningarverðlaun Suðurlands Rut Ingólfsdóttir og Björn Bjarnson hlutu verðlaunin 2020 og verðlaunin 2021 verða afhent síðar í dag.
  • Ungmennaráð Suðurlands hefur skilað miklum og góðum árangri í þágu ungmenna á svæðinu.

Skrifað hefur verið undir þriggja ára samning við félagsmálaráðuneytið um ART verkefnið og ber að fagna því, með samningnum er árlegri óvissu um verkefnið lokið í bili.

Áskoranir SASS á komandi starfsári eru m.a. Þjóðvegur 1, mál sem varðar öryggi íbúa og ferðamanna, heilbrigðisþjónusta, hjúkrunarheimili, hærra menntunarstig, öflugra atvinnulíf, sterkari rödd Suðurlands, orkunýtingin, en tryggja þarf aðgang að forgangsorku til svæðisins og að endurreisa samfélagið eftir COVID-19.

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

Starfskýrslan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Niðurstaða kjörnefndar um lögmæti fundarins

Aldís Hafsteinsdóttir formaður kjörnefndar kveður sér hljóðs og kynnir niðurstöður um lögmæti fundarins. Kemur fram að kjörnir fulltrúar eru 66 en gild kjörbréf eru fyrir 66 fulltrúa. Alls eru 55 aðalfulltrúar mættir, 2 varamenn og 9 fjarverandi. Fundurinn úrskurðast því lögmætur.

Ársreikningur SASS 2020

Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri kynnir ársreikning SASS fyrir árið 2020. Tekjur SASS 2020 voru 164,3 m.kr., rekstrargjöld tæplega 166,8 m.kr. og fjármunatekjur um 100 þús.kr. Rekstrartap ársins var því 2,5 m.kr.

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

Ársreikningur SASS 2020 er borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða.

Fjárhagsáætlun SASS 2021

Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri, kynnir fjárhagsáætlun SASS fyrir árið 2021 og fer yfir forsendur tekju- og gjaldaliða en gert er ráð fyrir að gjald á íbúa hvers sveitarfélags sem aðild á að samtökunum sé óbreytt á milli ára.

Fundarstjóri gefur orðið laust, Helgi Kjartansson og Sæmundur Helgason taka til máls.

Fjárhagsáætlun SASS 2021 er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

TILLAGA UM LAUN STJÓRNAR OG NEFNDA/RÁÐA

Helgi Kjartansson kynnir tillögu stjórnar um laun stjórnar, ráða og nefnda.

Tillaga til aðalfundar SASS 28. október 2021 um laun stjórnar, ráða og nefnda sem send var út með fundarboði.

  1. Laun stjórnar skulu nema 4% af þingfararkaupi fyrir hvern fund. Föst mánaðarlaun formanns skulu nema 10% af þingfarakaupi en auk þess fær formaður 4,5% af þingfararkaupi fyrir hvern stjórnarfund. Fyrir aðra fundi í ráðum og nefndum skulu þau nema 3% af þingfarakaupi fyrir hvern fund.
  2. Laun fulltrúa í ráðum og nefndum skulu nema 3% af þingfararkaupi fyrir hvern fund. Laun formanns ráðs eða nefndar skulu nema 4% af þingfarakaupi fyrir hvern fund.
  3. Fulltrúar í stjórnum, ráðum og nefndum skulu fá greitt fyrir akstur til og frá fundarstað skv. akstursdagbók í samræmi við reglur RSK um aksturskostnað.

Breytt tillaga allsherjarnefndar til aðalfundar kynnt um laun stjórnar, ráða og nefnda. Lagt er til að breyta tölulið 1 og 2 og svo bætist skýringartexti með hvernig hækka á þóknunina samkvæmt launavísitölu.

  1. Laun stjórnar skulu nema kr. 51.416.- fyrir hvern fund. Föst mánaðarlaun formanns skulu nema kr. 128.541.- en auk þess fær formaður kr. 57.843.- fyrir hvern stjórnarfund. Fyrir aðra fundi í ráðum og nefndum skulu þau nema kr. 38.562.- fyrir hvern fund.
  2. Laun fulltrúa í ráðum og nefndum skulu nema kr. 38.562.- fyrir hvern fund. Laun formanns ráðs eða nefndar skulu nema kr. 51.416.- fyrir hvern fund.
  3. Fulltrúar í stjórnum, ráðum og nefndum skulu fá greitt fyrir akstur til og frá fundarstað skv. akstursdagbók í samræmi við reglur RSK um aksturskostnað.

Framangreind þóknun skal uppreiknuð þann 1. janúar ár hvert. Í fyrsta skipti 1. janúar 2022 og þá skal miða við breytingu á launavísitölu frá 1. nóvember 2021.

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

Breytingartillaga um laun stjórnar, ráða og nefnda borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

Kosning í stjórn og nefndir
Tillaga kjörnefndar er kynnt með öðrum nefndartillögum síðar í dag.

Umræður
Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

 

Áfangastaðastofa

Dagný Hulda Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands tekur til máls og ræðir um breytingar sem fylgja því að MSS taki við verkefnum tengdum Áfangastaðastofu. Fer hún yfir helstu hagaðila en aðildarfyrirtæki borga aðildargjöld til MSS, einnig er samstarfssamningur við SASS. Árið 2016 fóru markaðsstofur í stefnumótunarvinnu og mörkuðu sér framtíðarsýn. Ákallið er mikið úr öllum áttum, mismunandi skilningur er á verkefninu en skiptir máli að unnið sé á forsendum svæðanna sjálfra, og að ríkið komi fyrr að málum svo að hægt sé að taka ákvarðanir fyrr. Fjármagn frá ríkinu hefur farið til Ferðamálastofu sem hefur svo útdeilt því. Gerður hefur verið samningur við Íslandsstofu og ber að fagna því, nú kemur fjármagn samkvæmt samningi.

Helstu markmið með Áfangastaðastofu er að efla stoðkerfi og stuðla að jákvæðum framgangi ferðaþjónustunnar. Samningur um stofnun Áfangastaðastofu er á milli ANR og SASS og drög að samningi á milli MSS og SASS liggur fyrir fundinum.

Á aðalfundi MSS var bókuð eftirfarandi ályktun:

Aðalfundur Markaðsstofu Suðurlands er samþykkur því að haldið sé áfram með þá vegferð að stofna Áfangastaðastofu Suðurlands sem samstarfsverkefni ferðaþjónustu, sveitarfélaga og ríkis á grunni Markaðsstofu Suðurlands. Aðalfundur skorar á öll sveitarfélög og aðila í greininni á Suðurlandi að taka þátt í þeirri vegferð að stofna Áfangastaðastofu á Suðurlandi. Með stofnun Áfangastaðastofu er haldið áfram að vinna með það góða samstarf mismunandi hagaðila á Suðurlandi um þróun og kynningu á landshlutanum sem eftirsóknarverðum áfangastað fyrir ferðamenn.Mikilvægt er að hlúa að greininni sérstaklega á lokametrum COVID-19. MSS hefur verið fengin til að veita álit um mál frá nefndarsviði alþingis. Unnið er að stefnumótun og áætlunum á landsvísu, ásamt vöruþróun, nýsköpun o.fl. Til að geta markaðsett áfangastað þarf vilji svæðisins að vera til staðar. Ferðamenn eiga að fara ánægðir frá landinu og það er mikilvægt að vinna í því.

Hvað fá fyrirtæki/sveitarfélög fyrir Markaðsstofuna? Ferðaþjónustufyrirtæki eru mörg hver í samtali við MSS sem veita fyrirtækjunum ráðgjöf. Markaðstofan í samstarfi við sveitarfélög og ferðaþjónustuaðila eru með kynningar og fara í upplifunarferðir með ferðaheildsölum sem síðan selja svo ferðamönnum þannig ferðir. Það er mikilvægt að vera með heimamenn í þessum móttökum, það skilar sér enn betur í upplifun kaupenda/söluaðila. Sveitarfélögin þurfa að koma með hugmyndir, áherslur og innlegg í umræðurnar, huga að hverju þarf að berjast fyrir, t.d. varðandi samgöngur. Sveitarfélögin byggja upp áfangastaðina og þá skiptir máli hver opnunartími er og að aðgangur að áfangastöðunum sé góður. Suðurland skarar fram úr í ánægju ferðamanna sem heimsækja landið en niðurstöður kannana sýna að um 84% ferðamanna eru ánægðir með landshlutann. Það þarf að viðhalda ánægju ferðamannsins og þetta er svo sannarlega samstarfverkefni allra.

 

Ágúst Sigurðsson fundarstjóri tekur við stjórn fundarins.

Fundarstjóri gefur orðið laust Trausti Hjaltason og Íris Róbertsdóttir taka til máls.

 

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands

Margrét Blöndal framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands og Guðmundur Óli Gunnarsson hljómsveitarstjóri taka til máls. Margrét þakkar SASS fyrir frábærar móttöku á verkefninu frá fyrstu stundu, gaf það tóninn fyrir góðu samstarfi. Markmið verkefnisins er að búa til grundvöll fyrir klassískar hljómsveitir á Suðurlandi.

Guðmundur ræðir um að tilkoma sinfóníuhljómsveitar breyti menningarlífi á Suðurlandi og er þetta mikilvægt verkefni fyrir tónlistarskólana á svæðinu. Það er stefnan að gefa lengra komnum tónlistarnemendum tækifæri á að taka þátt í tónlistarverkefnum, einnig er áætlað að gefa þeim sem styttra eru komnir tækifæri til að taka þátt með atvinnutónlistarmönnum. Fyrrum nemendum verður boðið að taka þátt, en það eru fullt af aðilum sem eiga hljóðfæri inni í skáp sem eru ónotuð.

Verkefni sem þetta eflir samskipti og samvinnu við aðra tónlistarmenn og aðrar listgreinar, og bætir ímynd landshlutans, sjálfsmynd íbúanna, og stuðlar að fjölbreytni. Það er skemmtilegt að vera með hljómsveit sem er „okkar hljómsveit“ eða „mín hljómsveit í minni sveit”. Þessi starfsemi stuðlar einnig að fjölbreytni m.a. í störfum, en sagt er að skapandi greinar verði lykill í fjórðu iðnbyltingunni.

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands tók þátt í Oddahátíð í sumar og heppnaðist það mjög vel. Auk þess voru haldnir skólatónleikar í 12 af 15 sveitarfélögum í landshlutanum. Skólatónleikar eru einn meginþáttur starfsins. Tónlistarfólkið og krakkarnir nutu vel á öllum stöðunum og var undirbúningur og móttaka í skólanum góð. Þetta er gott veganesti fyrir hljómsveitina. Framundan eru jólatónleikar í Skálholtskirkju þar sem 50 hljóðfæraleikarar af Suðurlandi koma fram. Þá taka þátt stutt og langt komnir nemendur tónlistaskólanna.

Byrjað er að skipuleggja konunglega nýárstónleika í Hveragerði í samstarfi við Listasafn Árnesinga og Matkrána. Diddú mun syngja einsöng og leikfélag Hveragerðis tekur þátt. Í febrúar á að halda í austur átt, þar verða vínartónleikar á Klaustri og Höfn og er ætlunin að leita samstarfs við aðila á svæðinu.

Skólatónleikarnir voru m.a. fjármagnaðir af SASS. Þau hafa sótt um styrki en það þarf meira fjármagn í verkefnið og því þarf að finna fjárhagslegan grundvöll. Mennta- og menningarmálaráðuneytið er búið að lofa 10 m.kr. á ári í verkefnið á næstu 3 árum. Þetta er verkefni sem þau vilja vinna áfram með og fyrir samfélagið, og vonandi verður þetta að veruleika, það er a.m.k. nóg af hæfileikaríku tónlistarfólki í landshlutanum sem vill taka þátt. Að lokum spyrja þau, hvað vilja sveitarfélög á Suðurlandi gera?

Í lokin sýna þau tónlistaratriði sem tekið var upp á Oddahátíð sem fram fór í sumar með Karlakór Rangæinga og Sinfóníuhljómsveit Suðurlands.

Fundarstjóri gefur orðið laust, Ásta Berghildur Ólafsdóttir, Kjartan Björnsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Hrafnkell Guðnason og Margrét Harpa Guðsteinsdóttir taka til máls.

 

Sigurhæðir

Hildur Jónsdóttir frá Soroptimistaklúbbi Suðurlands og verkefnisstjóri Sigurhæða tekur til máls og segir frá nýrri þjónustu fyrir þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi. Það voru 24 konur sem stofnuðu úrræðið í heimabyggð. Soroptimistaklúbbur Suðurlands er 12 ára og vinnur að því að bæta heiminn og heimabyggð, vinnur klúbburinn að jafnrétti fyrir konur, gegn ofbeldi, og stuðlar að menntun kvenna. Hildur telur að nú sé komið að því að gera eitthvað fyrir konur í heimabyggð og því urðu Sigurhæðir til.

Fer hún yfir tölulegar upplýsingar og ræðir um Me too byltinguna þegar „Skilum skömminni” hljómaði um allt samfélagið. Í upphafi fékkst undirbúningsstyrkur frá sveitarfélögum, ríkinu og góður stuðningur frá öðrum aðilum til að stofna Sigurhæðir. Það hefur orðið mikil vakning á þessum málum að undanförnu en það má ekki gleyma að karlar eru einnig að lenda í kynbundnu ofbeldi. Það hefur því miður orðið umtalsverð aukning í skráningu á heimilisofbeldi á árinu 2018-2019 á landsvísu er aukningin mest á Suðurlandi.

Eftir ákvörðun um að stofna Sigurhæðir var farið út í að huga að því hvernig mætti vinna að sérstöðu verkefnisins og varð úr að þar yrði bæði tekið á heimilis- og kynferðisofbeldi. Hjá Sigurhæðum er beitt sérmeðferð sem heitir EMDR (Eye Movement Desensitization and Reprocessing) og er það úrræði aðeins í boði hjá þeim, enn sem komið er. Árangurinn af meðferðinni er góður. Skjólstæðingar eru leiddir í gegnum inntökuviðtal, þar eru upplýsingar fengnar og í framhaldi er þeim komið í hendur fagaðila sem fylgir EMDR meðferðinni eftir, í lokin fá aðilar þá eftirfylgni sem þarf.

Samstarfsaðilar að verkefninu eru m.a. Soroptimistaklúbbur Suðurlands, öll sveitarfélög á Suðurlandi, velferðarþjónusta sveitarfélaga, lögreglan á Suðurlandi, HSu, Kvennaráðgjöfin og Mannréttindaskrifstofa Íslands. Þetta er vettvangur grasrótarsamtaka og helstu fagaðila á Suðurlandi. Það er mjög mikilvægt að þessi þjónusta sé skoðuð í nærsamfélögunum. Sigurhæðir er fyrst og fremst verkfæri í verkfærakistu fagaðila. Sjálfboðaliðar Soroptimistaklúbbsins sjá um tímabókanir og móttöku í Sigurhæðum. Flestar eru þetta sunnlenskar konur. Hjá Sigurhæðum starfa þrír meðferðafulltrúar allir með mikla reynslu.
Eftir fyrstu mánuðina eru skjólstæðingar á áttunda tuginn. Framundan er að afla fjármagns til verkefnisins. Hún biðlar því til sveitarstjórnarfólks að huga vel að því að veita fjármunum í verkefnið.

Fundarstjóri gefur orðið laust, Arna Ír Gunnarsdóttir og Aldís Hafsteinsdóttir taka til máls.

 

Ungmennaráð Suðurlands

Nói Mar Jónsson fráfarandi formaður ungmennaráðs Suðurlands tekur til máls. Ungmennaráð Suðurlands fagnar fimm ára afmæli, en margt hefur verið gert á þessum tíma. Handbók ungmennaráðs var útbúin og er aðgengileg á netinu, ráðstefnur ungmennaráða, þátttaka í nefndum og ráðum hjá SASS, jafningjafræðsla, og haldnir hafa verið vor- og haustfundir. Hafa þau verið með fulltrúa í samgöngunefnd og einnig í undirbúningnefnd fyrir heimavist við FSu.

SASS mun ekki styðja við jafningjafræðsluna á komandi ári og finnst honum það miður en þau leita leiða til að halda fræðslunni áfram, því hún hefur skilað góðum árangri. Stefnt er að halda málþing á næstunni og efla með því ungmennaráð á Suðurlandi. Sveitarfélög eru hvött til að tilnefna ungmenni til setu í ráðinu.

COVID-19 hefur haft áhrif á ungmennaráð og hafa þau einungis hist á fjarfundum. Ungmennaráðið hefur áhyggjur af brotthvarfi úr skólum og þá sérstaklega hjá drengjum og börnum innflytjenda. Þau vilja hvetja til þess að fjármálalæsi verði kennd í skólum enda sé það mikilvægur liður í undirbúa ungt fólk fyrir lífið.

Óttast hann þá aukna vanlíðan meðal ungmenna. Mikið er lagt upp úr hollri næringu og hreyfingu, en jafnframt er mikilvægt að leggja áherslu á fræðslu um geðheilbrigði ungmenna og samskiptahæfni. Hvetur hann skóla til að leggja meira upp úr kennslu í þeim efnum.

Fundarstjóri gefur orðið laus. Enginn tekur til máls.

 

Umræður

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

Björk Grétarsdóttir fundarstjóri tekur við stjórn fundarins og kynnir breytingu á dagskrá en Sigurður Ingi Jóhannsson mun flytja ávarp sitt síðar á fundinum.

 

Ávarp

Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Aldís Hafsteinsdóttir tekur til máls en í upphafi fer hún yfir áherslur sveitarfélaganna í landinu. Við gerð nýs stjórnarsáttmála er öllum þingmönnum sendur tölvupóstur. Þar er fyrst og fremst lögð áhersla á að tekjur og tekjustofnar geti staðið undir þeim verkefnum sem fyrir sveitarfélögin eru lögð. Hún minnir nýkjörna þingmenn sem hafa verið í sveitarstjórn á að muna eftir hvað þeim finnst vanta frá ríki til sveitarfélaga.

COVID-19 hafði áhrif á sambandið eins og á aðra, en undirbúningur að störfum án staðsetningar var byrjaður áður en COVID-19 skall á. Í dag vinna fjórir starfsmenn sambandsins í fjarvinnu, en talið er að fjarvinna muni aukast og sambandið leggur mikla áherslu á starfræna framþróun. Nú þegar eru 65 sveitarfélög í samstarfsverkefni um starfræna þróun og er búið að kjósa um hvaða verkefnum eigi fyrst að huga að.

Sambandið í samvinnu við ríkið unnu að viðspyrnuáætlun og lögðu þau til 26 aðgerðir og hafa flestar fengið jákvæðan framgang. Ræddi hún um samkomulag við ríkið um lof um að skuldir sveitarfélaga hækki ekki frá árinu 2025. Mjög mikilvæg verkefni eru í vinnslu s.s. endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga, endurskoðun reglna Jöfnunarsjóðs, þróun kostnaðar í þjónustu við fatlað fólk, kostnaður við öldrunarþjónustu og málefni barna með fjölþættan vanda.

Fjárhagsstaða sveitarfélag er betri en þau bjuggust við eftir COVID-19 og hafa margar aðgerðir haft jákvæð áhrif á útsvarsstofninn beint og óbeint. Sveitarfélög eru þó rekin með halla og það er enginn afgangur í augsýn fyrr en árið 2024. Framkvæmdir á vegum sveitarfélaga gengu ekki eftir árið 2020 en aftur á móti eru mörg stór verkefni í gangi í ár. Sýnir hún skuldahlutfall sveitarfélaga á Suðurlandi 2020, eðlilegt er að það sé aukið skuldahlutfall A-hluta hjá þeim sveitarfélögum sem eru í örum vexti. Það er hægt að skulda með mörgum hætti bæði með peningum og framkvæmdum. Það eru endalausar kröfur gerðar á sveitarfélögin og eru kjarasamningar farnir að hafa mikil áhrif. Það þarf að passa upp á fjármuni sveitarfélaga. Fer hún yfir veltufé frá rekstri sveitarfélaga á Suðurlandi 2020.

Atvinnuleysi á svæðinu er að minnka sem er jákvæð þróun en það er nauðsynlegt að vera á tánum. Úrræði í atvinnumálum hefur virkað nokkuð vel. Rætt um kjaraviðræður við kennara og þrjú félög innan BHM sem eru að fara í gang. Hún ítrekar að sambandið er með samningsumboðið í kjaraviðræðum fyrir sveitarfélögin og ekki sé gott að aðilar semji beint, slíkt getur búið til ný viðmið sem erfitt sé fyrir önnur sveitarfélög að mæta.

Verið er að stækka umdæmi barnaverndarnefnda, miðað er við að hvert svæði sé með yfir sex þús. íbúa, og tryggja þarf umboð til þeirra sem vinna málin. Ræðir hún um menntastefnuna, það þarf að passa upp á að nægt fjármagn fylgi til að hægt sé að vinna eftir stefnunni.

Loftslagsmál og heimsmarkmiðin, búið er að vinna verkfærakistur fyrir sveitarfélögin til að vinna með í mótun loftslagsstefnu.

Það verður að breikka og styrkja tekjustofna sveitarfélaga og tryggja fjármagn m.a. í samþættingu velferðarþjónustu í þágu farsældar barna og aukna samvinnu milli þjónustukerfa. Það er mikilvægt að horfa til heilsueflingar í sveitarfélögum fyrir allan aldur. Við viljum það besta fyrir fólkið okkar.

Það er aukin krafa í fráveituaðgerðum og um meðhöndlun úrgangs. Meðhöndlun úrgangs mun kosta sveitarfélögin meira en þau gera í dag, það er einnig spurning hvort rukka eigi eftir vigt í framtíðinni.

Hækka þarf daggjöld hjúkrunarheimila, huga þarf að móttöku flóttafólks og aðlögun innflytjenda.

Nú eru 25 ár frá því að skólarnir fluttust yfir til sveitarfélaga, farið verður yfir þróun skólamála á skólaþingi sem haldið verður 8. nóvember nk.

Sveitarstjórnarkosningar verða haldnar 14. maí nk. og í framhaldi verður formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga kosinn. Unnið er að undirbúningsnámskeiðum sem verða í boði fyrir nýliða og sveitarstjórnarmenn eftir kosningar. Það er hátt endurnýjunarhlutfall í sveitarstjórnum og hefur það verið yfir 50% í síðustu þremur kosningum. Hún hvetur sveitarstjórnarmenn til að bjóða sig fram til áframhaldandi starfa.

Fundarstjóri gefur orðið laust Ari Björn Thorarensen, Gunnar Egilsson og Kjartan Björnsson taka til máls.

 

Yfirskrift ársþingsins er Suðurland í sókn – Látum verkin tala. Undir þessum lið kynna formenn milliþinganefnda niðurstöður nefndastarfsins.

Samgöngunefnd

Friðrik Sigurbjörnsson formaður samgöngunefndar tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar.

Umferðaröryggi (einbreiðar brýr, yfirborð vegar)

Ársþing SASS 2021 áréttar niðurstöður Samgönguáætlunar SASS 2019-2029 er varðar öryggi á vegum en fagnar þeim úrbótum sem gerðar hafa verið og voru tilteknar í áætluninni.
Ítrekað er mikilvægi þess að fyrirhuguðum áformum varðandi úrbætur á þjóðvegakerfinu gangi eftir um að tryggja umferðaröryggi s.s. merkingar á vegum. Einnig verði hugað að öryggi hjólandi umferðar, hesta umferðar o.s.frv. Er bent á mikilvægi þess að fara í átak í umferðarfræðslu/forvörnum og gæslu. Upplýsingaveitur eru lykilatriði í að fræða ferðamenn til að draga úr slysahættu á vegum landsins.

Ársþing SASS 2021 leggur áherslu á að litið verði til þeirra forgangsverkefna sem fyrrgreind skýrsla samtakanna tekur til og eiga að vera kláraðar. Einbreiðar brýr á Suðurland á þjóðvegi 1 eru 19 talsins. Þeim verður að útrýma. Slysahætta er mikil af einbreiðum brúm og því nauðsynlegt að gera úrbætur þar á. Ársþing SASS 2021 hvetur Vegagerðina til að auka eftirlit og heflun, og annað viðhald á malarvegum frá því sem nú er.

Grynnslin og aðrar hafnir á Suðurlandi

Ársþing SASS 2021 ítrekar fyrri ályktanir um að tryggja nægt fjármagn til viðhalds, rannsókna og uppbyggingar hafna á starfssvæði samtakanna. Vísað er til Samgönguáætlunar Suðurlands 2019-2029 þar sem ítarlega er gert grein fyrir þessum þáttum.

Ársþing SASS 2021 leggur áherslu á að stjórnvöld tryggi áframhaldandi fjármagn til eflingar og uppbyggingar hafnar í Þorlákshöfn. Höfnin í Þorlákshöfn er orðin gríðarlega mikilvæg hvað varðar atvinnuuppbyggingu fyrir Suðurland í heild.

Flug

Flugsamgöngur þarf að tryggja áfram til Hornafjarðar og Vestmannaeyja með opinberum stuðningi. Þær eru mikilvægar almenningssamgöngur og tryggja aðgengi íbúa að öruggri heilbrigðisþjónustu og sérfræðiþjónustu sem ekki fæst heima fyrir og þarf um langan veg að sækja.

Ársþing SASS 2021 telur óásættanlegt að ekki sé áætlunarflug til Vestmannaeyja því það er mikilvægt öryggisatriði að það séu að minnsta kosti tvær samgönguleiðir milli lands og eyja.

Almenningssamgöngur

Ársþing SASS 2021 ítrekar áskorun á ríkisvaldið að standa vörð um almenningssamgöngur í landinu.

Ársþing SASS 2021 skorar á stjórn SASS og stjórnvöld að ráðast í þarfagreiningu á þjónustu almenningssamgangna til að mæta betur þörfum notendahópanna, sem eru m.a. börn, ungmenni og lífeyrisþegar. Almenningssamgöngur bæta búsetuskilyrði í dreifðum byggðum landsins.

Fjarskipti

Ársþing SASS 2021 fagnar stefnu ríkisstjórnar í ljósleiðaravæðingu landsins og leggur áherslu á að haldið verði áfram á sömu braut enda er háhraðatenging forsenda búsetu og uppbyggingar atvinnulífs í landinu. Hingað til hefur áherslan verið lögð á háhraðatengingu í dreifbýli en nú þarf líka að leggja áherslu á háhraðatengingu í þéttbýli. Skorað er á stjórnvöld að það sé tryggð samkeppni á fjarskiptamarkaði og að það sé gott fjarskiptasamband á öllu Suðurlandi. Við hvetjum til að framkvæmd verði á álagstékk og viðkvæmnisprófum á fjarskiptakerfum en einnig viljum við þrýsta á uppsetningu 5G senda vegna öryggishagsmuna allra á Suðurlandi.

Vegtollar og nýframkvæmdir

Ársþing SASS 2021 leggur áherslu á að farið verði strax í stórar nýframkvæmdir s.s. Ölfusárbrú, veg yfir Hornafjarðarfljót og göng gegnum Reynisfjall. Þessar nýframkvæmdir mætti hugsanlega fjármagna með hóflegum veggjöldum að hluta eða öllu leyti. Útfæra þarf aðkomu ríkisins, hvort framkvæmdir verði að fullu greiddar með veggjöldum eða að hluta úr ríkissjóði.

Ársþing SASS 2021 leggur áherslu á að hugmyndir um gjaldtöku verði hugsaðar heildrænt og að gjaldtaka einstakra nýframkvæmda séu teknar til sérstakrar skoðunar. Áréttað er að ávallt sé fær hjáleið við gjaldskylda vegi til að tryggja jafnræði búsetu í dreifðum byggðum landsins.

Þá er lögð áhersla á að skipting núverandi tekjustofna skili sér til samgöngubóta og mikilvægt að skipulagsákvörðunarréttur sveitarfélaga sé virtur við nýframkvæmdir vega.

Ársþing SASS 2021 skorar á stjórnvöld að lokið verði við fullnaðarannsóknir á jarðlögum milli lands og Vestmannaeyja til að kanna hvort möguleikar séu fyrir hendi til gerðar jarðganga.

Kolefnisspor og samgöngur á Suðurlandi

Samkvæmt Landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda frá Umhverfisstofnun má sjá að samgöngur bera mesta ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Kolefnislosun í vegasamgöngum var um 952 þúsund tonn koldíoxíð árið 2019.

Ársþing SASS 2021 hvetur stjórnvöld og einkaaðila til að fjölga rafhleðslustöðvum á Suðurlandi svo að sveitarfélög á Suðurlandi verði leiðandi landshluti í minnkun kolefnislosunar á hringveginum og hvetja þannig til vistvænni samgöngumáta með umhverfisvænni orkuskiptum í samgöngum.

Samgöngunefnd 2021:

Valgerður Sævarsdóttir, Bjarki Guðnason, Tómas Ellert Tómasson, Sveinn Ægir Birgisson, Eydís Þ. Indriðadóttir, Björn Kristinn Pálmarsson, Páll Tómasson, Rafn Bergsson, Hjalti Tómasson, Jón Páll Kristófersson, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Björgvin Skafti Bjarnason, Sæmundur Helgason og formaður nefndarinnar Friðrik Sigurbjörnsson.

Starfsmaður nefndar: Guðný Gígja Benediktsdóttir

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

Ályktanir samgöngunefndar eru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.

Umhverfis- og skipulagsnefnd

Arna Ír Gunnarsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsnefndar tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2021.

Ársþing SASS 2021 kallar eftir samtali og samstarfi við ríkisvaldið í ljósi nýútkominnar stefnu ríkisins um aðlögun að lofslagsbreytingum. Í þeirri stefnu eru sveitarfélög þungamiðjan. Það sem hvílir á sveitarfélögunum er m.a. að draga úr kolefnislosun frá sorpi um 60% til ársins 2030, aukin þörf fyrir öflugri fráveitu vegna aftakaveðra og aftakarigninga, krafa um annars konar nálgun og þekkingu á skipulagsmálum m.a. vegna aukinnar hættu á flóðum, efling brunavarna vegna aukinnar hættu á gróðureldum og efling almannavarna vegna tíðra ofanflóða og annarrar náttúruvár. Allt eru þetta kostnaðarsamar aðgerðir sem sveitarfélögin þurfa að ráðast í og lykilatriði að ríkisvaldið styðji við sveitarfélögin í þessum mikilvæga málaflokki sem loftslagsmálin eru.

Ársþing SASS 2021 skorar á sveitarfélögin á Suðurlandi að samræma sorpflokkun sveitarfélaganna til einföldunar og betri árangurs við endurvinnslu á sorpi. Ljóst er að ólík sorpflokkun á milli sveitarfélaga getur ruglað íbúa og ferðamenn í ríminu og dregið úr þeim árangri sem er nauðsynlegur til þess að draga úr því sorpi sem fer til urðunar. Síðustu ár hafa orðið æ háværari þær raddir sem kalla eftir því að flokkun heimilisúrgangs verði samræmd á landsvísu. Það er flokkun og endurvinnslu til trafala að leiðbeiningar um flokkun til íbúa og ferðalanga er mismunandi eftir því í hvaða sveitarfélagi fólk er statt hverju sinni.

Ársþing SASS 2021 leggur til að verkefnið Umhverfis Suðurland vinni að samræmdum upplýsingum og áskorunum til fyrirtækja á Suðurlandi þar sem þau eru hvött til þess að leggjast á árarnar með sveitarfélögunum í að minnka úrgang, auka flokkun og endurvinnslu. Það er afar mikilvægt að allir leggist á eitt til þess að við náum markmiðunum um að draga úr kolefnislosun frá sorpi og að með aukinni samvinnu finnist bestu lausnirnar í úrgangsmálum fyrir fyrirtækin.

Ársþing SASS 2021 leggur til að nýja þekkingarsetrið á Laugarvatni verði nýtt sem þekkingar- og upplýsingamiðstöð um fráveitumál fyrir sveitarfélög á Suðurlandi. Loftslagsbreytingar, með meiri öfgum í veðri, kalla á breytingar og nýjar lausnir í fráveitukerfum sveitarfélaga, eins og t.d. blágrænni ofanvatnslausn. Mikil þörf er á fræðslu og nýrri þekkingu vegna þessara breytinga og gæti þekkingarsetrið nýst til þess að safna saman þekkingu sem nýtist öllum sveitarfélögum á Suðurlandi.

Umhverfis- og skipulagsnefnd 2021:

Anton Kári Halldórsson, Eggert Valur Guðmundsson, Sigurjón Vídalín Guðmundsson, Þórhildur Ingvadóttir, Axel Sæland, Rósa Matthíasdóttir, Ása Valdís Árnadóttir, Halldóra Hjörleifsdóttir, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Drífa Bjarnadóttir, Harpa Margrét Guðsteinsdóttir, Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, Kristín Magnúsdóttir, Trausti Hjaltason, Ingvar Hjálmarsson, Ásgrímur Ingólfsson og formaður nefndarinnar Arna Ír Gunnarsdóttir.

Starfsmaður nefndar: Elísabet Björney Lárusdóttir

Fundarstjóri gefur orðið laust, Sólveig Þorvaldsdóttir tekur til máls.

Ályktanir umhverfis- og skipulagsnefndar eru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.

Velferðarnefnd

Lilja Einarsdóttir formaður velferðarnefndar tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2021.

ART verkefnið

Ársþing SASS lýsir ánægju sinni með undirritun samstarfssamnings milli Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytisins sem tryggir rekstur ART-verkefnisins næstu þrjú árin. Samningurinn er viðurkenning á ART verkefninu, tryggir starfseminni eðlilegt starfsumhverfi, og börnum og fjölskyldum þeirra öruggt aðgengi að þjónustunni.

Öldrunarþjónusta og hjúkrunarrými

Ársþing SASS 2021 skorar á stjórnvöld að koma skipulagi og stjórnsýslu á málefnum eldra fólks í betra horf. Ársþing SASS telur að lyfta þurfi grettistaki í þessum málaflokki og bendir í því tilliti á skýrslu verkefnisstjórnar um Greiningu á rekstri hjúkrunarheimila sem gefin var út í apríl 2021. Spáð er verulegri fjölgun elstu íbúa landsins næstu áratugi sem mun kalla á umtalsverða fjölgun hjúkrunarrýma með aukinni hjúkrunarþyngd. Fyrirséð er að rekstrarkostnaður við hjúkrunarheimili muni vaxa umtalsvert, sér í lagi ef lögð er frekari áhersla á að bjóða búsetu fyrir þá sem eru elstir og hrumastir, meðan aldraðir sem geta haldið eigið heimili gera það, eftir atvikum með heimaþjónustu og annarri aðstoð.

Þjónusta og stuðningur við aldraða er nærþjónusta sem eðlilegt er að sé á höndum sveitarfélaga en er sinnt með mismunandi hætti um landið. Rekstur hjúkrunarheimila hefur færst frá tveimur sveitarfélögum á Suðurlandi til ríkisins vegna vanefnda ríkisins á fjárframlögum með rekstrinum sem hefur t.d. haft þau áhrif að þjónusta sem áður var samþætt hefur skipst upp á fleiri hendur, orðið flóknari í framkvæmd og fjölgað gráum svæðum milli ríkis og sveitarfélaga. Til að koma í veg fyrir að slíkt verði raunin á fleiri stöðum er mikilvægt að tryggja að fjárframlög ríkisins standi undir rekstri þessa mikilvæga málaflokks auk þess að fullnýta það húsrými sem nú þegar er til staðar á Suðurlandi og tryggja þannig rekstrargrundvöll þeirra heimila sem nú eru starfrækt.

Ársþing SASS fagnar aðgerðaráætlun heilbrigðisráðuneytisins um heilsueflingu aldraðra þar sem lögð eru til mikilvæg skref í útfærslu samstarfs í heilsueflingu aldraðra í heimabyggð. Mörg sveitarfélög hafa sýnt frumkvæði að snemmbærri íhlutun í þessum málaflokki sem mun draga úr kostnaði síðar meir og er brýnt að ríki styðji við það frumkvæði. Samstarf ríkis og sveitarfélaga varðandi heilsueflingu fyrir aldraða þarf að formgerast enn frekar, þar með talið skipulag og fjármögnun fyrir slíkt starf sem þarf að vera tryggt.

Skapa þarf skýra framtíðarsýn í málefnum eldra fólks með því að endurhugsa þjónustuna frá grunni í góðri samvinnu ríkis, sveitarfélaga og þeirra sem sinna þjónustunni í dag. Nauðsynlegt er að tryggja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila án tafar samhliða endurskoðun málaflokksins í heild sinni og gera upp þann kostnað sem ríkinu ber að greiða og sveitarfélögin hafa þurft að bera fram að þessu.

HSu – heilbrigðisþjónusta

Ársþing SASS 2021 leggur áherslu á að fjármagn til rekstrar HSu sé tryggt. Umfang starfseminnar hefur aukist ár frá ári og gríðarlega vaxandi álag á bráðamóttöku er staðreynd. Nauðsynlegt er að það verkefni sé fullfjármagnað svo hægt sé að tryggja þar nauðsynlegan mannafla sem starfsemin krefst.

Einnig áréttar ársþing SASS 2021 mikilvægi öflugrar heilsugæsluþjónustu í héraði, en heilsugæsla ætti ávallt að vera fyrsti viðkomustaður þjónustuþega. Ekki er til staðar kvöld og helgarþjónusta í heimahjúkrun og félagslegri heimaþjónustu á öllu Suðurlandi sem er þó grunnforsenda þess að hægt sé að mæta áherslu stjórnvalda um sjálfstæða búsetu eldri borgara eins lengi og kostur er. Fjarheilbrigðisþjónusta hefur skapað ný tækifæri m.a. til aukinnar sérfræðiþjónustu í dreifðari byggðum sem ætti að nýta enn frekar. Til að heilsugæslustöðvar geti mætt þessari þjónustu þarf að tryggja að nægt fjármagn sé til staðar, hvort sem þjónustan er á hendi ríkis eða sveitarfélaga.

Sjúkraflutningar, þ.m.t. sjúkraþyrlur

Ársþing SASS ítrekar ályktun sína frá 2019 og hvetur heilbrigðisráðherra til þess að hefja hið fyrsta verkefni um rekstur sérhæfðrar sjúkraþyrlu. Brýnt er að slík þyrla verði staðsett á Suðurlandi og sé hluti starfsemi HSu enda hefur mikil aukning ferðamanna átt sér stað á undanförnum árum og samhliða því hefur sjúkraflutningum fjölgað verulega. Þá hafa breytingar á þjónustu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sömuleiðis leitt til þess að í fleiri tilfellum en áður þarf að flytja íbúa dreifbýlisins til Reykjavíkur ef alvarlega sjúkdóma eða slys ber að garði.

Skorað er á ráðherra að draga til baka hugmyndir um að staðsetja þyrluna á suðvesturhorni landsins þar sem slíkt leysir ekki vanda sjúkraflutninga á Suðurlandi þar sem mest þörf er fyrir snöggt viðbragð sjúkraþyrlu, m.a. vegna langra vegalengda í umdæminu og fjarlægðar frá Landspítalanum háskólasjúkrahúsi í Reykjavík.

Úrræði í húsnæðismálum

Ársþing SASS 2021 hvetur til þess að áfram verði unnið að mismunandi úrræðum í samvinnu við sveitarfélögin samkvæmt stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum.

Löggæsla og sýnileiki hennar

Ársþing SASS 2021 telur ljóst að efla þurfi löggæslu enn frekar þrátt fyrir aukið fjármagn á síðustu árum. Nauðsynlegt er að stækka það svæði sem nýtur sólarhringsþjónustu þar sem ekki eru bakvaktir. Samkomulag um styttingu vinnutíma kallar á aukið fé og fjölgun starfsmanna sem vinna í vaktavinnu. Ársþingið vekur einnig athygli á að erfitt hefur verið að ráða menntaða lögreglumenn til starfa og ljóst þykir að skoða þurfi alvarlega mannaflaþörf lögreglunnar og hvernig sé hægt að mæta henni með lögreglumenntuðu starfsfólki. Þá er lögð áhersla á að mikilvægt sé að styrkja frekar löggæslu í Vestur-Skaftafellssýslu.

Sigurhæðir – velferðarverkefni

Ársþing SASS 2021 telur Sigurhæðir sinna mikilvægri þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi. Markmið verkefnisins eru að bjóða konum búsettum á Suðurlandi sem orðið hafa fyrir kynbundnu ofbeldi öruggan vettvang og aðstoð fagfólks til að vinna úr áföllum, að efla samstarf milli aðila sem veita þolendum kynbundins ofbeldis þjónustu á Suðurlandi og að auka vitund og þekkingu á kynbundnu ofbeldi meðal almennings, fagaðila og samstarfsaðila í verkefninu með þjálfun og fræðslu.

Starfsemin hlaut undirbúningsstyrki frá sveitarfélögum á Suðurlandi og hvetur ársþingið sveitarfélögin til að styrkja verkefnið áfram 2022, en auk þess verði verkefninu tryggt grunnfjárframlag frá sveitarfélögunum í gegnum SASS sem útfærist af stjórn SASS. Rekstur Sigurhæða hefur hingað til verið fjármagnaður með styrkjum og enn hafa engir þjónustusamningar verið gerðir. Ársþing SASS 2021 beinir því til ríkisvaldsins að nauðsynlegt sé að fjármagn fáist til lengri tíma svo hægt verði að bregðast við aukinni þörf, tryggja starfseminni eðlilegt starfsumhverfi og þolendum kynbundins ofbeldis öruggt aðgengi að þjónustunni.

Farsæld barna og umdæmisráð í barnavernd

Ársþing SASS fagnar þeim framfararskrefum sem stigin hafa verið í málefnum barna og þjónustu við þau, en leggur einnig áherslu á mikilvægi þess að stuðningur og nægt fjármagn sé tryggt til að kerfisbreytingar gangi farsællega fram. Þar er náið samstarf milli sveitarfélaga og ríkis nauðsynlegt.

Málefni fatlaðra

Ársþing SASS 2021 vekur athygli á því að rekstur málaflokks fatlaðs fólks á Suðurlandi er mjög fjársveltur og að ekki hefur náðst að byggja upp búsetuúrræði í samræmi við þörf. Aukin eftirspurn eftir NPA samningum er auk þess fjárfrekur þáttur sem nauðsynlegt er að mæta, enda hafa með þeim auknar skyldur verið lagðar á sveitarfélögin án þess að nægt fjármagn fylgi. Ársþing SASS mælist til þess að lokið verði endurskoðun á skýrslu Haraldar Líndals sem fyrst og niðurstöður nýttar til að bæta núverandi kerfi.

Ársþing SASS hvetur sveitarfélögin til að kynna sér styrkmöguleika í gegnum Framkvæmdarsjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna úrræða sem í boði eru fyrir verkefni í þessum málaflokki.

Velferðarnefnd 2021:

Steinar Lúðvíksson, Sólveig Þorvaldsdóttir, Brynhildur Jónsdóttir, Bjarney Vignisdóttir, Eyþór H. Ólafsson, Þorbjörg Gísladóttir, Steindór Tómasson, Njáll Ragnarsson, Ásgerður K. Gylfadóttir og Lilja Einarsdóttir sem einnig er formaður nefndarinnar.

Starfsmaður nefndar: Harpa Elín Haraldsdóttir.

Fundarstjóri gefur orðið laust, Aldís Hafsteinsdóttir, Ásgrímur Ingólfsson, Íris Róbertsdóttir, Björgvin Skafti Bjarnason, Arna Ír Gunnarsdóttir, Ari Björn Thorarensen og Árni Eiríksson taka til máls.

Samhljómur er um að aðlaga ályktanir velferðarnefndar að umræðunni.

Sólveig Þorvaldsdóttir tekur til máls og kynnir verkefni sem er í gangi í Árnessýslu og snýr að því að efla þekkingu og færni starfsmanna í almannavarnarástandi.

Ályktanir velferðarnefndar með áorðnum breytingum bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.

Atvinnumálanefnd

Grétar Ingi Erlendsson formaður atvinnumálanefndar tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2021.

  1. Ársþing SASS gerir alvarlega athugasemd um stöðu mála sem varða afhendingaröryggi orku og aðgengi að þriggja fasa rafmagni. Krafa þess eðlis var lögð fram á ársþingi SASS árið 2018 en sums staðar á Suðurlandi er staðan enn óbreytt og stendur í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu í landshlutanum.
  2. Ársþing SASS fagnaði á sínum tíma þeim áformum stjórnvalda að 5% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra yrðu án staðsetningar fyrir árslok 2021 og sú tala ætti að vaxa upp í 10% árið 2024. Ársþing SASS 2021 bendir þó á að niðurstöður nýlegrar könnunar, sem var unnin á vegum þriggja ráðuneyta og birt í ágúst 2021, gefa sterklega til kynna að þessi markmið muni ekki nást. Enn fremur er bent á að nauðsynleg tækni er til staðar og samfélagið hefur öðlast mikla reynslu af fjarvinnu á tímum COVID-19 heimsfaraldursins. Því er ekki hægt að réttlæta tafir í fjölgun starfa án staðsetningar í samræmi við þessi markmið. Ársþingið krefst þess að gripið sé tafarlaust til aðgerða til að bæta þessa stöðu og leggur einnig áherslu á að þess konar vinnufyrirkomulag gæti nýst víðar, s.s. í starfi frumkvöðla og fyrirtækja í nýsköpun, sér í lagi þeirra er starfa í hugverkaiðnaði.
  3. Í framhaldi af öðrum tölulið vill ársþing SASS 2021 benda á eftirfarandi leiðir til að fjölga störfum og auka fjölbreytni í störfum á landsbyggðinni. Annars vegar að þegar nýjar ríkisstofnanir verða til, þá skal staðsetja þær strax úti á landi. Hins vegar í þeim tilfellum þar sem verkefni tengd starfi eru úti á landi, skal skilyrða staðsetningu starfs í viðkomandi sveitarfélagi.
  4. Ársþing SASS bendir á mikil sóknarfæri í ylrækt og matvælaframleiðslu þar sem kjörskilyrði eru til staðar í landsfjórðungnum, þ.m.t. viðeigandi reynsla og þekking á landbúnaði og sjávarútvegi og útflutningshöfn í Þorlákshöfn. Einnig er bent á að skógrækt er vaxandi atvinnugrein á Suðurlandi en huga þarf sérstaklega að nýtingu afurða skóganna og stuðla að aukningu skógræktar á svæðinu í ljósi umræðu um loftslagsmál. Til að nýta þessi sóknarfæri í matvælaframleiðslu og skógrækt sem best, telur ársþingið mikilvægt að efla samstarf fyrirtækja í landshlutanum við háskólastofnanir og styrkja stöðu háskóla sem starfa á Suðurlandi. Ekki síður er mikilvægt að tryggja að landsfjórðungurinn missi ekki störf háskólamenntaðs fagfólks en helst verður að leggja áherslu á fjölgun slíkra starfa hér.
  5. Ársþing SASS fagnar aðgerðum ríkisins tengdum nýsköpun úti á landi, s.s. tilkomu Lóu sjóðs sem veitir nýsköpunarstyrki fyrir landsbyggðina. Ársþingið gerir þó athugasemd að hækka þyrfti heildarupphæð sjóðsins og leyfa lengri verkefni en til eins árs þar sem uppbyggingarverkefni, sérstaklega þau sem byggja á hátækni, eru mjög dýr og tímafrek. Þingið gerir líka athugasemd að við síðustu úthlutun úr Matvælasjóði fékk höfuðborgarsvæðið 27% alls fjár. Á sama tíma var úthlutað eingöngu 15% af heildinni til Suðurlands, landshluta með blómstrandi landbúnað og sjávarútveg og ótal tækifæri til nýsköpunar í matvælaframleiðslu og til tryggingar matvælaöryggis. Þingið krefst að við úthlutun úr slíkum sjóðum verði gætt þess að styrkir fari á staði þar sem verðmætasköpun á sér raunverulega stað. Í framhaldi af þessu leggur ársþingið einnig mikla áherslu á að nýsköpunarverkefni í fjarlækningum verði unnin úti á landi eða a.m.k. að aðilar á landsbyggðinni séu meðumsækjendur í svona verkefnum, enda er aðaltilgangur fjarlækninga að tengja sjúklinga á landsbyggðinni við heilbrigðisþjónustu sem er að mestu leyti staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Þannig er hægt að tryggja að nýjar lausnir, sem til verða í þessum verkefnum, gagnist fólki sem þarf á þeim að halda.
  6. Ársþing SASS 2021 bendir á mikilvægi þess að horfa á Suðurland sem eitt atvinnusvæði og líta á landsfjórðunginn í heild sinni við ákvarðanatöku um framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á svæðinu. Þingið álítur að fyrir blómlegt og fjölbreytt atvinnulíf og verðmætasköpun í fremstu röð, sem byggja á nýsköpun og nýjustu framförum í tækni og vísindum, verði að styrkja hið snarasta mikilvægar stoðir og grunnforsendur slíkrar þróunar, sem eru:
    1. Heilbrigðisþjónusta.
    2. Traustar og öruggar samgöngur en í þessu samhengi krefst þingið þess að bæta vegi í landshlutanum, að klára rannsóknir á göngum, vinna bót á flugsamgöngum og skoða stöðu hafna og möguleika á að auka nýtingu þeirra.
    3. Ljósleiðari.

Atvinnumálanefnd 2021:

Kristján S. Guðnason, Ásta Berghildur Ólafsdóttir, Gunnar Egilsson, Klara Öfjörð Sigfúsdóttir, Kolbeinn Sveinbjörnsson, Hrafnkell Guðnason, Smári Bergmann Kolbeinsson, Ágúst Sigurðsson, Eva Björk Harðardóttir, Íris Róbertsdóttir og Grétar Ingi Erlendsson sem er formaður nefndarinnar.

Starfsmaður nefndar: Evgenía K. Mikaelsdóttir

Fundarstjóri gefur orðið laust, Einar Freyr Elínarson og Íris Róbertsdóttir taka til máls.

Ályktanir atvinnumálanefndar eru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.

Mennta- og menningarmálanefnd

Einar Freyr Elínarson formaður mennta- og menningarmálanefndar tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2021.

Menntunarstig

Ársþing SASS 2021 telur brýnt að ríki og sveitarfélög taki höndum saman við að hækka hlutfall háskólamenntaðra á svæðinu. Ítrekað hefur verið sýnt fram á að hlutfall háskólamenntaðra á Suðurlandi er talsvert undir landsmeðaltali sem gefur vísbendingar um lýðfræðilega veikleika sem mikilvægt er að bregðast við. Einnig hefur verið sýnt fram á að hlutfall stöðugilda á vegum ríkisins á Suðurlandi er það lægsta á landinu en framboð fjölbreyttra starfa sem krefjast háskólamenntunar er ótvírætt mikilvægur liður í að hækka þetta hlutfall.

Í því augnamiði er brýnt að ríkjandi viðhorfum forstöðumanna ríkisstofnana gagnvart dreifingu starfa um allt land verði breytt. Í skýrslunni Störf án staðsetningar – Staða og framtíðarhorfur, sem gefin var út af fjármála- og efnahagsráðuneytinu í ágúst 2021 kom m.a. fram að 63% ríkisstofnana töldu mjög eða frekar ólíklegt að ráðið yrði í starf án staðsetningar á næstu 24 mánuðum. Viðhorf gagnvart störfum án staðsetningar voru auk þess afar breytileg milli ríkisstofnana sem sumar hverjar mátu svo að ekki eitt einasta starf gæti verið án staðsetningar.

Ársþing SASS 2021 skorar á ríkisstjórn Íslands að samræma verklag innan stofnana þegar kemur að skilgreiningu starfa án staðsetningar og að ákveðið verði að þau skuli bundin við landsbyggðirnar. Óljós markmið um að ákveðið hlutfall starfa skuli auglýst sem án staðsetningar innan ákveðins tíma eru ekki að þjóna tilgangi sínum. Þess í stað væri eðlilegra að forstöðumönnum verði gert skylt að rökstyðja sérstaklega hvers vegna starf geti ekki flokkast án staðsetningar. Á liðnum árum hefur verið unnið hörðum höndum að því að byggja upp öfluga fjarskiptainnviði um allt land og mikilvægt að tækifærin sem í því felast séu nýtt.

Ársþing SASS 2021 felur stjórn að skipa starfshóp um hækkað menntunarstig á Suðurlandi sem skili tillögum fyrir ársþing 2022. Viðfangsefni starfshópsins verði að leita leiða til að styrkja vettvang náms, rannsókna og þróunar á Suðurlandi. Tilgreindar verði mikilvægar staðsetningar ólíkra starfsstöðva á Suðurlandi og leiðir til að auðga samskipti og samstarf á slíkum vettvangi.

Framboð og aðgengi að háskólamenntun

Ársþing SASS 2021 leggur áherslu á að jöfnuð verði tækifæri til náms, óháð búsetu.

Mikilvægt er að varðveita þann árangur sem náðist við nútímavæðingu kennsluhátta á tímum heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Ljóst er að framboð af námi á háskólastigi sem kennt er í fjarnámi er afar breytilegt milli skóla. Þannig er einungis lítill hluti náms innan Háskóla Íslands, stærsta háskóla landsins, í boði í fjarnámi. Staðreyndin er sú að skólinn er eftirbátur annarra en ætti sannarlega að vera í fararbroddi. Þörf er á hugarfarsbreytingu enda er raunin sú að flest nám er hægt að kenna í fjarnámi með staðlotum með þeim tæknilausnum sem í boði eru. Í ljósi þess er eðlileg krafa að háskólar rökstyðji sérstaklega hvers vegna ákveðin námskeið geti ekki verið kennd í fjarnámi. Ársþingið skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér í málinu og tryggja háskólum nauðsynlegan stuðning og fjármagn til að nútímavæða kennsluhætti og auka framboð fjarnámsleiða.

Ársþing SASS 2021 vekur jafnframt athygli á þeirri staðreynd að fjarnemar beri meiri kostnað af sínu námi en þeir nemendur sem búa nær sínum skóla, þar sem fjarnemar greiða sérstaklega fyrir lesaðstöðu og próftöku, sem aftur ýtir undir ójöfnuð þegar kemur að tækifærum til náms. Ársþingið skorar á ríkisstjórn Íslands að samræma þann kostnað sem nemendur bera svo jafnræði sé milli nemenda í fjar- og staðnámi.

Ársþing SASS leggur jafnframt til að farið verði í vinnu við að greina mögulega samstarfsfleti við bæði innlenda og erlenda háskóla um nám sem hefur beina tengingu við svæðið og styður við rannsóknir og atvinnulíf á Suðurlandi, með það fyrir augum að efla nám á háskólastigi í heimabyggð.

Miðlun upplýsinga til nýbúa

Ársþing SASS 2021 telur brýnt að hagnýtar upplýsingar til nýbúa á svæðinu verði gerðar áberandi og aðgengilegar. Ötullega hefur verið unnið að vinnslu gagnagrunna fyrir nýbúa til að auðvelda þeim aðlögun að íslensku samfélagi. Þar má nefna verkefnin New in Iceland og Fjölmenningarsetur sem hvoru tveggja hafa það markmið að auðvelda nýbúum að setjast að á Íslandi og veita þeim aðstoð og upplýsingar.

Ársþingið leggur til að send verði könnun til sveitarfélaganna á Suðurlandi þar sem kannað verði með hvaða hætti sé verið að leiðbeina nýbúum og auðvelda þeim að setjast að. Að lokinni greiningu niðurstaðna er stjórn SASS falið að meta hvort ástæða sé til að útbúa leiðbeiningar til sveitarfélaganna sem hefðu það að augnamiði að samræma upplýsingagjöf.

Skjálftinn – hæfileikakeppni grunnskóla á Suðurlandi

Ársþing SASS 2021 leggur til við stjórn SASS að Skjálftinn – hæfileikakeppni grunnskóla á Suðurlandi verði skilgreint sem áhersluverkefni til næstu þriggja ára.

Skjálftinn fór fram í fyrsta skipti árið 2020. Keppnin er byggð á hugmyndafræði Skrekks sem hefur verið haldinn í Reykjavík undanfarin 30 ár. Öllum skólum með unglingadeild í Árnessýslu var boðin þátttaka í verkefninu og af þeim 10 sem hófu þátttöku voru 8 sem kláruðu ferlið. Þrátt fyrir að samkomutakmarkanir vegna heimsfaraldurs hafi haft áhrif á skipulag verkefnisins náðist engu að síður að ljúka því og úrslit voru kynnt í beinni útsendingu á Instagram reikningi Skjálftans.

Ársþing leggur til að hluti árlegs kostnaðar við verkefnið verði fjármagnað sem áhersluverkefni á vegum SASS. Keppnin er í góðu samræmi við áherslur Sóknaráætlunar Suðurlands 2020-2024, s.s. að bæta rými til listsköpunar og fjölgun menningartengdra viðburða á Suðurlandi. Með því að skilgreina keppnina sem áhersluverkefni gæfist grundvöllur til að byggja hana upp og þróa sem framtíðarverkefni.

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands

Ársþing SASS 2021 leggur til við stjórn SASS að stofnun Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands verði skilgreind sem áhersluverkefni til næstu þriggja ára.

Ljóst er að árlegt 10 m.kr. framlag ráðuneytisins nær ekki upp í helming þess kostnaðar sem fellur til við verkefnið. Ársþingið skorar því á mennta- og menningarmálaráðherra að veita verkefninu hærra framlag en þegar var búið að samþykkja svo af því megi verða.

Ársþingið hvetur jafnframt aðildarsveitarfélög SASS til þátttöku í verkefninu sem er í góðu samræmi við áherslur Sóknaráætlunar Suðurlands 2020-2024.

Heimavist við Fjölbrautaskóla Suðurlands

Ársþing SASS 2021 fagnar því að tekist hafi samningar um rekstur heimavistar við FSu. Fleiri umsóknir bárust en unnt var að þjónusta og því er biðlisti eftir herbergjum á heimavistinni. Mikilvægt er að reksturinn sé tryggður til framtíðar og því hvetur ársþingið stjórnendur FSu til að leitast eftir langtímasamning um heimavistina og að herbergjum verði fjölgað.

Garðyrkjuskólinn

Ársþing SASS 2021 skorar á stjórnvöld að tryggja framtíð starfsmenntanáms garðyrkjunnar á Íslandi. Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að hefja iðn- og starfsmenntanám til vegs og virðingar og þá verður ekki við það unað að staða starfsmenntanáms garðyrkjunnar sé vafa undirorpin. Mikilvægt er að starfsmenntanáminu sé tryggð örugg aðstaða í húseignum á Reykjum, enda verður ekki hægt að kenna garðyrkju án húsakosts og svæðis til ræktunar.

Mennta- og menningarmálanefnd 2021:

Elís Jónsson, Elín Grétarsdóttir, Kjartan Björnsson, Gísli Halldór Halldórsson, Bjarni Þorkelsson, Kolbrún Haraldsdóttir, Sigrún Árnadóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Björk Grétarsdóttir, Arndís Harðardóttir, Þrúður Sigurðardóttir, Matthías Bjarnason, Bryndís Björk Hólmarsdóttir og formaður nefndarinnar Einar Freyr Elínarson.

Starfsmaður nefndar: Ingunn Jónsdóttir

Fundarstjóri gefur orðið laust, Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Kjartan Björnsson, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Sólveig Þorvaldsdóttir, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, Íris Róbertsdóttir, Axel Sæland, Matthildur Ásmundardóttir, Aldís Hafsteinsdóttir, Gísli Halldór Halldórsson, Hrafnkell Guðnason, Gestur Þór Kristjánsson og Grétar Ingi Erlendsson taka til máls.

Samhljómur er um að aðlaga ályktanir mennta- og menningarmálanefndar að umræðunni.

Ályktanir mennta- og menningarmálanefndar eru síðan bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.

Allsherjarnefnd

Ari Björn Thorarensen formaður allsherjarnefndar tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2021.

Ályktanir allsherjarnefndar

Ársþing SASS 2021 skorar á ráðherra umhverfismála að leggja fé til sóknaráætlana landshluta. Áskorun sú byggir á því að einn af þremur meginflokkum í nýrri Sóknaráætlun Suðurlands snýr að umhverfismálum. Það er því vilji íbúa og kjörinna fulltrúa á Suðurlandi að umhverfismálin eigi stóran sess í nýrri sóknaráætlun. Eðlilegt er að fjármögnun verkefna á sviði umhverfismála komi að einhverju leyti frá viðkomandi ráðuneyti.

Ársþing SASS 2021 skorar á samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að endurskoða reiknireglu við skiptingu fjármagns milli sóknaráætlunarsvæða.

Ársþing SASS 2021 skorar á ráðherra atvinnumála að framfylgja eigin yfirlýsingum um stuðning við sóknaráætlanir landshluta, eftir niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Að það stuðningskerfi frumkvöðla og atvinnulífs sem hefur verið byggt upp í landshlutunum sé metið að verðleikum og viðurkennt sem hluti af stoðkerfi atvinnuþróunar og nýsköpunar í landinu.

Ársþing SASS 2021 skorar á samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skýra nánar hlutverk og skyldur landshlutasamtaka með lúkningu og framlagningu á frumvarpi, á grunni skýrslu starfshóps um stöðu og hlutverk landshlutasamtaka.

Tillögur allsherjarnefndar

Allsherjarnefnd leggur til við ársþing SASS 2021 að erindi um fjölgun fulltrúa í stjórn SASS verði tekið til umræðu á ársþinginu. Að ársþingið ræði kosti og galla við slíka breytingu en taki jafnframt til umræðu aðrar mögulegar leiðir við að ná fram sömu markmiðum.

Allsherjarnefnd leggur til við ársþing SASS 2021 að taka til umræðu hlutverk og skipulag Áfangastaðastofu Suðurlands og aðkomu sveitarfélaga að verkefninu.

Allsherjarnefnd leggur til við ársþing SASS 2021 að fyrirliggjandi starfsskýrsla stjórnar SASS verði samþykkt.

Allsherjarnefnd 2021:

Ásta Stefánsdóttir, Jón G. Valgeirsson, Ari Björn Thorarensen, Árni Eiríksson, Björgvin Óskar Sigurjónsson og Helga Kristín Kolbeins.

Starfsmaður nefndar: Þórður Freyr Sigurðsson

Umfræður

Ágúst Sigurðsson fundarstjóri tekur við stjórn fundarins.

Fundarstjóri gefur orðið laust, Árni Eiríksson tekur til máls og kynnir nánar hugmyndir oddvitanna sex um fjölgun fulltrúa í stjórn SASS en það gerir hann í fjarveru oddvita Grímsnes- og Grafningshrepps. Árni ræðir kosti þess að öll sveitarfélög eigi fulltrúa í stjórn SASS en með því eru sveitarfélögin upplýstari um stöðu mála og það sem um er rætt á fundum. Einnig ræðir hann um Áfangastaðastofu og hvað er átt við með tilkomu hennar.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir tekur til máls og ræðir um að hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) séu haldnir fundir reglulega þar sem fulltrúar frá öllum sveitarfélögunum eru boðaðir á. Ræðir hún um að það sé möguleiki að taka slíkt upp hjá SASS.

Fundarstjóri gefur orðið laust Halldóra Hjörleifsdóttir, Ásta Berghildur Ólafsdóttir og Margrét Harpa Guðsteinsdóttir taka til máls um fjölgun í stjórn SASS.

Til máls tekur um Áfangastaðastofu Suðurlands, Njáll Ragnarsson.

Til máls tekur Hrafnkell Guðnason um skiptingu á fjármunum í Sóknaráætlun. Það þarf að skoða þann mikla mismun sem er á milli landshluta í úthlutunum.

Ari Björn Thorarensen leggur til fyrir hönd allsherjarnefndar að stofnaður verði starfshópur með fulltrúum úr stjórn SASS og fulltrúa frá þeim sveitarfélögum sem óska eftir að fjölga í stjórn, til að finna lausn sem auðveldar upplýsingaflæði frá samtökunum til sveitarfélaga og öfugt.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir tekur til máls um Áfangastaðastofu.

Samningur milli SASS og ANR um áfangastaðastofu er borin undir atkvæði og samþykktur samhljóða.

Fundarstjóri gefur orðið laust Halldóra Hjörleifsdóttir, Árni Eiríksson, Yngvi Harðarson taka til máls.

Ályktanir allsherjarnefndar eru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.

Lagt er til að Ársþing SASS staðfesti að unnið verði samkvæmt drögum að samningi SASS við Markaðsstofu Suðurlands.

Tillagan er borin undir atkvæði samþykkt með 30 atkvæðum gegn 6 sem eru á móti.

Lagt er til að stofnaður verði starfshópur, tveir fulltrúar úr stjórn SASS og einn fulltrúi frá sveitarfélögunum sem óska eftir að fjölga í stjórn SASS, sem finni leiðir til að auka á upplýsingaflæði til sveitarfélaga sem aðild eiga að samtökunum. Starfshópurinn taki til starfa strax.

Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.

 

Ávarp

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu og sveitarstjórnarráðherra.

Sigurður Ingi Jóhannsson tekur til máls og ræðir um hvað það er ábyrgðarmikið en skemmtilegt hlutverk að vera í sveitarstjórn. Hann hefur haft það að markmiði að hafa samskipti góð milli sveitarstjórnarstigsins og ríkisins. Unnið hefur verið að góðum verkefnum á undanförnum árum. Ræðir hann um kosningarnar í síðasta mánuði og að verið sé að vinna að stjórnarsamstarfi.

Sameiningar sveitarfélaga hafa og eru oft hitamál, fólk er hrætt við að hrófla við því gamla. Árið 1950 voru sveitarfélögin 229 en eru árið 2021 samtals 69. Sveitarfélög eru að þróast í samræmi við framtíðina, það þarf þó að horfa fram í tímann og á það sem framundan er, það eru ótal þættir sem hafa áhrif á lífsgæði fólks. Byggðaáætlunin, sveitarstjórnarstefnan, samgöngur o.fl. Samgöngur eru lífæðin sem tengir æðarnar saman, það hefur verið örlítið tafsamt að keyra ýmsa vegi að undanförnu en við sjáum að leiðin hingað austur mun verða greiðari og sérstaklega öruggari við þær framkvæmdir sem í gangi eru. Það er mikilvægt að tengingar innan svæðisins séu með bundnu slitlagi og það er mikilvægt að bæta þar í og er það hlutverk nýrrar ríkisstjórnar að vinna að greiðari og öruggari samgöngum í samræmi við byggðarþróun.

Með stærri stjórnsýslueiningum höfum við meira að segja um framtíð samfélagsins en lokaákvörðun liggur þó hjá íbúanum sjálfum. Það er hins vegar sveitarstjórnarmanna að tala fyrir skoðunum um hvað er í boði fyrir sveitarfélögin með sameiningu, það eru tækifæri til breytinga en þau verða að vera skýr og verða að snúast um betra og sterkara samfélag. Vilji til að halda fast í það sem við þekkjum er sterkur, það er meira en að segja það að flytja á milli samfélaga.

Það er þannig að 2/3 íbúa búa á einu byggðarhorni landsins og það er hörð samkeppni á milli svæða um fólk. Atvinnumálin og staða sveitarfélagsins skiptir máli þegar að velja á búsetustað. Það er hægt að vera með störf án staðsetningar sem auðveldar að þróa nýtt samfélag. Atvinnugreinar hafa breyst mikið á undanförunum árum og hefur ferðaþjónusta aukist mikið á árinu, einnig er aukning í að kvikmyndagerðafólk komi til landsins og vilji taka upp kvikmyndir. Einnig sækja ferðamenn Ísland heim til að sjá staði sem fram koma í kvikmyndum. Við erum á mjög góðum stað í orkuframleiðslu. Við getum verið leiðandi fyrir lausnir í loftslagsmálum og græna orku. Það var áberandi í kosningarbaráttunni umræðan um loftslagsmál. Það er áhyggjuefni að ungt fólk sjái ekki fyrir sér að eignast börn og mennta sig þar sem að loftslagsmálin eru farin að skipa svo stóran sess í þeirra hugsum.
Það heyrist víða að við höfum lært ýmislegt um veiruna þessa dagana en við getum ekki leyst hana með boðum og bönnum heldur þarf samvinnu allra aðila til að standa saman og vinna í að því að komast yfir hana.

Hann ræðir um að boltinn sé hjá okkur á Suðurlandi, hvernig framtíðin þróast er undir okkur komið. Að lokum segir hann að framtíðin sé björt og verum bjartsýn.

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

 

Fjárhagsnefnd

Helgi Kjartansson nefndarmaður fjárhagsnefndar tekur til máls í fjarveru formanns og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2021.

Ársreikningur SASS 2020

Var afgreiddur af nefndinni án athugasemda fyrir ársþingið og hlaut formlega staðfestingu ársþingsins í morgun.

 

Fjárhagsáætlun 2022

  1. Gert er ráð fyrir 3% hækkun á tekjum og gjöldum en launalið er breytt skv. ákvæði í kjarasamningum
  2. Gjald til SASS á íbúa verði kr. 2.100.- en það var kr. 2.037.- árið 2021
  3. Endursamið verði við samstarfsaðila
  4. Áætlað 2,4 m.kr. tap af rekstri ART verkefnisins verði mætt með lækkuðu eigin fé

 

Tekjustofnar sveitarfélaga

Markmið: Að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og tryggja fjárhagslega sjálfbærni þeirra. Einnig markvissari stuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við fjármögnun lögskyldra og lögheimilaðra verkefna sveitarfélaga.

Megináherslan er á sjálfstæða tekjustofna og tækifæri til staðbundinnar forgangsröðunar.

Áskoranir:

  • álitamál er hvort tekjustofnar standi til lengdar undir verkefnum sem sveitarfélögum er falið
  • sveitarfélög hafa tekið við vanfjármögnuðum verkefnum frá ríkinu t.d. málefni fatlaðra auk þess sem ríkið leggur á ýmsar skyldur
  • öldrun þjóðarinnar kallar á aukna þjónustu við eldra fólk og veikir útsvarsstofn. Enn fremur hefur öldrun áhrif á lífeyrisskuldbindingar eða kallar á stórhækkað mótframlag í lífeyrissjóði

Möguleikar:

  • hækka útsvarsálagningu
  • breyta reglum, flutningur launatekna til fjármagnstekna er t.d. neikvæður fyrir útsvar sveitarfélaga
  • meta öll mannvirki til fasteignaskatts, fella niður undanþágur
  • markvissari stuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga s.s. við rekstur leikskóla
  • útfæra hvaða kostnað má leggja til grundvallar þjónustugjöldum, t.d. fjármagnskostnað sbr. vatnsveitur
  • gistináttagjald til sveitarfélaga
  • aukin hlutdeild í heildarskatttekjum ríkisins
  • sveitarfélög losni við skyldur til að afhenda lóðir án endurgjalds og taka þátt í byggingarkostnaði hjúkrunarheimila og framhaldsskóla

Tekjustofnar sveitarfélaga – Ályktun ársþings

Mikilvægt er að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og tryggja fjárhagslega sjálfbærni þeirra enda standa núverandi tekjur ekki undir þeim lögboðnu verkefnum sem ríkið hefur falið þeim. Áfram verði unnið að endurskoðun á reglum Jöfnunarsjóðs.

Ársþing SASS krefst þess að ríkið bregðist við ákalli sveitarfélaganna um að þeim verði markaður aukinn tekjustofn en með því má tryggja fjárhagslega sjálfbærni þeirra.

Fjárframlög til landshlutasamtaka

Framlög ríkisins til Sóknar- og Byggðaáætlunar

Með breyttri skiptareglu Sóknaráætlana, sem tók gildi 2020, lækkaði árlegt framlag SASS um tæplega 16 m.kr. frá 2019. Eðli málsins samkvæmt hefur lækkað framlag áhrif á hversu mikið Sóknaráætlun Suðurlands getur stutt við samfélagið í landshlutanum. Gerð var athugasemd við breytta skiptareglu þegar hún tók gildi en ekki var tekið tillit til ábendinga samtakanna. Sumarið 2020 þegar ríkið ákvað að veita auknu fjármagni til Sóknaráætlana vegna COVID-19 var hins vegar ljóst að áhrif veirunnar voru strax mikil á Suðurlandi enda varð tekjufallið hjá ferðaþjónustunni í landshlutanum algjört í upphafi faraldursins. Af þeirri ástæðu m.a. fengu samtökin aukið fjárframlag frá ríkinu það ár eða 36 m.kr. Árið 2021 kom einnig viðbótarframlag til landshlutasamtaka frá ríkinu en þá skiptust 100 m.kr. á milli 8 landshlutasamtaka, hver samtök fengu 12,5 m.kr. Þrátt fyrir það er framlag ríkisins til Sóknaráætlunar Suðurlands fyrir árið 2021, í krónum talið, að nálgast framlagið sem veitt var árið 2015.

Ársþing SASS áréttar mikilvægi Sóknaráætlunar Suðurlands fyrir sunnlenskt samfélag. Áhrif COVID-19 á ferðaþjónustuna í landshlutanum var algjört í upphafi faraldursins í mars 2020 og höggið var því mikið í landshlutanum. Tekið var tillit til þessara sérstöku aðstæðna sumarið 2020 við úthlutun ríkisins á framlagi sínu til sóknaráætlana. Ársþingið telur forsendur skiptareglu frá 2019 brostnar og að nauðsynlegt sé að endurskoða regluna eða bæta við verulegu fjármagni til landshlutans líkt og gert var sumarið 2020 og 2021.

Framlög ríkisins til atvinnuráðagjafar, en landshlutasamtökin eru með samning um þetta verkefni við Byggðastofnun, hafa rýrnað verulega á síðustu árum. Breyting á launavísitölu er 56% á árabilinu 2015 til 2021 en framlagið hefur einungis hækkað um 20%. Eigi atvinnuráðgjöf að standa undir nafni er mikilvægt er að hækka framlagið strax.

Áfangastaðastofa. Rætt um aðild sveitarfélaganna að áfangastaðastofu en SASS hefur gert samning við Markaðsstofa Suðurlands (MSS) um að sinna verkefninu. Sveitarfélögin hafa greitt MSS aðildagjald og það var rætt hvort breyta ætti innheimtufyrirkomulaginu og fá SASS til að sjá um innheimtuna.

Fulltrúar í stjórn SASS séu jafn margir og aðildarsveitarfélögin

Við fjölgun á fulltrúum í stjórn SASS úr 9 í 15 má gera ráð fyrir að árlegur kostnaðarauki verði um 7 m.kr.

Fjárhagsnefnd 2021:

Ingibjörg Harðardóttir, Valtýr Valtýsson, Helgi Kjartansson, Elín Fríða Sigurðardóttir, Sandra Brá Jóhannsdóttir, Sylvía Karen Heimisdóttir, Matthildur Ásmundardóttir og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir sem einnig var formaður nefndarinnar.

Starfsmaður nefndar: Bjarni Guðmundsson

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

Ályktanir fjárhagsnefndar eru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.

Kjörnefnd

Aldís Hafsteinsdóttir formaður kjörbréfa- og kjörnefndar tekur til máls og leggur fram tillögur nefndarinnar á ársþingi SASS 2021.

Kjörnefnd starfaði með rafrænum hætti þetta árið enda ekki mörg verkefni sem biðu nefndarinnar.

Eftirfarandi er tillaga nefndarinnar til ársþings SASS:

Stjórn Fræðslunets Suðurlands skipað til 1 árs í senn

Aðalmaður: Ása Valdís Árnadóttir, Grímsnes- og Grafningshreppur
Varamaður: Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppur

Stjórn Markaðsstofu Suðurlands til 1 árs í senn

Aðalmenn:
Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Sveitarfélaginu Hornafirði
Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélagið Ölfus

Varamenn:
Ása Valdís Árnadóttir, Grímsnes- og Grafningshreppur
Friðrik Sigurbjörnsson, Hveragerðisbær

Fagráð Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands til 1 árs í senn

Aðalmaður: Ásta Berghildur Ólafsdóttir, Ásahreppur
Varamaður: Sæmundur Helgason, Sveitarfélagið Hornafjörður

Tilnefningar SASS í skólanefnd Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu á Höfn í Hornafirði, SASS tilnefndi 24. ágúst 2017 en sú skipan hjá ráðuneytinu tók ekki gildi fyrr en 16. maí 2018 og hún gildir því fram til 15. maí 2022. Lagt er til að tilnefna tvo aðalmenn og tvo til vara í skólanefnd FAS.

Aðalmenn:
Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, 880 Kirkjubæjarklaustri
Sæmundur Helgason, 780 Sveitarfélagið Hornafjörður

Varamenn:
Bjarki Guðnason, 880 Kirkjubæjarklaustri
Ragnhildur Jónsdóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður

 

Áfram eru í kjörnefnd SASS

Aðalmenn:
Kristján Sigurður Guðnason, Sveitarfélagið Hornafjörður
Bjarki Guðnason, Skaftárhreppur
Elís Jónsson, Vestmannaeyjabær
Anton Kári Halldórsson, Rangárþing eystra
Ingibjörg Harðardóttir, Grímsnes- og Grafningshreppur
Valgerður Sævarsdóttir, Bláskógabyggð
Helgi Haraldsson, Sveitarfélagið Árborg
Aldís Hafsteinsdóttir, Hveragerðisbær
Steinar Lúðvíksson, Sveitarfélagið Ölfus

Varamenn:
Bryndís Björk Hólmarsdóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Drífa Bjarnadóttir, Mýrdalshreppur
Helga Jóhanna Harðardóttir, Vestmannaeyjabær
Haraldur Eiríksson, Rangárþing ytra
Arna Ír Gunnarsdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Björgvin Skapti Bjarnason, Skeiða- og Gnúpverjahreppur
Árni Eiríksson, Flóahreppur
Eyþór H. Ólafsson, Hveragerðisbær
Gestur Þór Kristjánsson, Sveitarfélagið Ölfus
Formaður: Aldís Hafsteinsdóttir, Hveragerðisbær
Varaformaður: Kristján Sig. Guðnason, Sveitarfélagið Hornafjörður

 

Stjórn SASS verði þannig skipuð

Aðalmenn:
Ásgerður Kristín Gylfadóttir, Sveitarfélagið Hornafjörður
Einar Freyr Elínarson, Mýrdalshreppur
Lilja Einarsdóttir, Rangárþing eystra
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Vestmannaeyjabær
Arna Ír Gunnarsdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Ari Björn Thorarensen, Sveitarfélagið Árborg
Helgi Kjartansson, Bláskógabyggð
Friðrik Sigurbjörnsson, Hveragerðisbær
Grétar Ingi Erlendsson, Sveitarfélagið Ölfus

Varamenn:
Kristján Sigurður Guðnason, Sveitarfélagið Hornafjörður
Bjarki Guðnason, Skaftárhreppur
Njáll Ragnarsson, Vestmannaeyjabær
Björk Grétarsdóttir, Rangárþing ytra
Eggert Valur Guðmundsson, Sveitarfélagið Árborg
Brynhildur Jónsdóttir, Sveitarfélagið Árborg
Ása Valdís Árnadóttir, Grímsnes- og Grafningshreppur
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Hveragerðisbær
Jón Páll Kristófersson, Sveitarfélagið Ölfus

Björk Grétarsdóttir, fundarstjóri tekur við stjórn fundarins.

Fundarstjóri gefur orðið laust. Enginn tekur til máls.

Tillögur kjörnefndar eru bornar undir atkvæði og samþykktar samhljóða.

 

Afhending menningarverðlauna SASS

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, formaður SASS tekur til máls og afhendir menningarverðlaun SASS 2021. Verðlaunin hlýtur Jón Bjarnason, organisti í Skálholtskirkju.

Verðlaunin eru samfélags- og hvatningarverðlaun á sviði menningar á Suðurlandi. Verðlaunin eru nú veitt í þriðja sinn. Alls bárust 8 tilnefningar um 6 verkefni af öllu Suðurlandi. Mikil breidd var í tilnefningunum og einnig í gæðum þeirra. Eru tilnefningarnar aðeins toppurinn af ísjakanum í því mikla menningarstarfi sem á sér stað í fjórðungnum.

Í úthlutunarnefnd sem skipuð er af stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga er Magnús Karel Hannesson, Björk Grétarsdóttir og Dagný Hulda Jóhannsdóttir en auk þess starfar Sigríður Lind Þorbjörnsdóttir hjá SASS fyrir nefndina.

Þakkar hún þeim sem sendu inn tilnefningar. Þær voru fjölbreyttar og gefa góða mynd af því öfluga menningarstarfi sem er á Suðurlandi. Öll sex verkefnin eru þess verðug að fá verðlaunin.

Í ár komst dómnefndin að þeirri niðurstöðu að Menningarverðlaun Suðurlands 2021 hlyti Jón Bjarnason sem er starfandi organisti í Skálholti og hefur bæði í starfi sínu og af áhuga og frumkvæði staðið fyrir ýmsum menningartengdum viðburðum í Skálholti og uppsveitum Árnessýslu. Jón spilar allar tegundir tónlistar og nær þannig til breiðs hóps íbúa og gesta. Hann hefur t.a.m. haldið rokktónleika og spilar gjarnan Rolling Stones og Queen lög á orgelið í Skálholtskirkju, þá hefur hann náð til fermingarbarna með því að hafa lagaval í fermingum eftir áhugasviði barnanna. Jón hefur staðið fyrir ýmsum viðburðum, t.d. Tómatar og tangó, sem eru tónleikar sem haldnir voru í Friðheimum. Nýjasti viðburðurinn sem Jón stendur fyrir er Óskalögin við orgelið. Þetta er vikulegur viðburður sem stuðlar að virkni í tengslum við menningu á meðal barna og fullorðinna á svæðinu. Á þessum kvöldum er ákveðið þema, og geta gestir fengið óskalag sitt spilað á orgelið og sungið með. Þá vekur hann athygli á menningararfi Sunnlendinga þegar erlendir gestir heimsækja Skálholt og spilar þjóðlög í bland.

Segir í rökstuðningi dómnefndar að Jón Bjarnason hafi með eljusemi, dugnaði og áhuga vakið verðskuldaða athygli á menningarviðburðum og gefið jákvæða mynd af Suðurlandi. Hann hefur stuðlað að þátttöku bæði íbúa og gesta á öllum aldri og vinnur ötullega að því að vekja athygli á menningararfi Sunnlendinga í sínu starfi.

Þakkar formaður dómnefndinni fyrir vel unnin störf og óskar Jóni Bjarnasyni innilega til hamingju með menningarverðlaun Suðurlands 2021.

Jón Bjarni tekur til máls og þakkar samtökunum fyrir viðurkenninguna, einnig þakkar hann fyrir úthlutanir sem hann hefur fengið úr sjóðum hjá SASS.

 

Fundarlok aðalfundar SASS kl. 17:00

Ágúst Sigurðsson setur ársþing SASS kl. 8:30 að morgni föstudagsins 29. október.

Björk Grétarsdóttir tekur við stjórn fundarins.

Nú er komið að fundarlokum ársþings SASS og gefur fundarstjóri Ásgerði Kristínu Gylfadóttur formanni orðið. Þakkar hún sveitarstjórnarmönnum fyrir góðan, málefnalegan og gagnlegan fund. Einnig þakkar hún fundarstjórum, starfsmönnum SASS og öðrum starfsmönnum fyrir góðan undirbúning fyrir fundinn og Rangárþingi ytra fyrir viðurgjörning allan.

Fundi slitið kl.: 12:00

Rósa Sif Jónsdóttir fundarritari.

Fundargerð aðalfundar SASS 2021 (.pdf)