fbpx

haldinn að Austurvegi 56, Selfossi, föstudaginn 11. febrúar 2011 kl. 12:00

Mætt: Elfa Dögg Þórðardóttir, Aðalsteinn Sveinsson, Sigríður Lára Ásbergsdóttir, Reynir Arnarson (í síma), Elliði Vignisson (í síma), Guðfinna Þorvaldsdóttir, Elín Einarsdóttir og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

Gestir fundarins: Karl Björnsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, Hermann Sæmundsson skrifstofustjóri í Innanríkisráðuneytinu og Stefanía Traustadóttir sérfræðingur í Innanríkisráðuneytinu.

Dagskrá

 1. Sóknaráætlun fyrir Suðurland.

Lagt fram minniblað Karls Björnssonar framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 10. febrúar 2011, ásamt yfirlitsblaði um verkefnið frá framkvæmdastjóra SASS. Karl, Elva Dögg og Þorvarður gerðu grein fyrir hugmyndum um að hefja vinnu við Sóknaráætlun fyrir Suðurland, helstu verkefnum og því skipulagi sem þyrfti að komast á vegna áætlunarinnar.

Stjórn SASS samþykkir að hefja vinnu við verkefnið að því tilskyldu að þátttaka ráðuneyta og stofnana ríkisins verði tryggð. Verkefnið verði unnið í nánu samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, aðrar sameiginlegar stofnanir sem sunnlensk sveitarfélög eiga aðild að, ríkisstofnanir á svæðinu og fulltrúa vinnumarkaðarins. Settur verði á fót stýrihópur þessara aðila. Formanni og framkvæmdastjóra falið að móta tillögu um skipan stýrihópsins.

 2. Fundargerð velferðarnefndar frá 8. febrúar.

Fundargerðin staðfest.

Samþykkt að óska eftir því að fá álit sýslumanna á áhrifum niðurskurðar á löggæslu á svæðinu fyrir næsta stjórnarfund.

 3. Fundargerð samgöngunefndar frá 9. febrúar.

Fundargerðin staðfest. Samþykkt að óska eftir viðræðum við Innanríkisráðuneytið og Vegagerðina um framkvæmdir við breikkun Suðurlandsvegar.

4. Drög að menningarsamningi fyrir Suðurland.

Stjórn SASS gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð ráðuneytisins við undirbúning þessa samnings.

· Í fyrsta lagi bárust tillögur ráðuneytisins ekki fyrr en 18. janúar sl. enda þótt gildistaka samnings hefði átt að vera 1. janúar sl. Nægur tími var á síðasta ári að ganga frá meginatriðum samningsins enda þótt heildarframlag til menningarsamninga hafi ekki legið fyrir fyrr en við lokaafgreiðslu fjárlaga. Mjög ákveðnar óskir lágu fyrir frá landshlutasamtökum sveitarfélaga um að samningum yrði lokið á síðasta ári.

· Í öðru lagi óskuðu landshlutasamtökin mjög eindregið eftir því að gerðar yrðu gegnsæjar reglur um skiptingu framlaga til menningarsamninganna. Tekið var vel í það af hálfu ráðneytisins en efndir urðu engar.

· Í þriðja lagi var óskað ítrekað eftir skýringum ráðuneytisins á tillögu þess um skiptingu framlaga til menningarsamninganna. Engar skýringar bárust og tölvubréfum þar um ekki svarað einu orði. Vinnubrögð og viðbrögð ráðuneytisisins eru því ekki í anda góðrar stjórnsýslu hvort sem horft er til stjórnsýslulaga eða upplýsingalaga.

· Í fjórða og síðasta lagi gera Samtök sunnlenskra sveitarfélaga athugasemd við tillögu ráðuneytisins um upphæð framlags ríkisins til Suðurlands í samningsdrögunum. Ekki virðist tekið neitt tillit til íbúafjölda svæðisins, mikilla vegalengda innan svæðisins né þess að Sveitarfélagið Hornafjörður kemur nú inn í samninginn fyrir Suðurland í stað Austurlands áður. Jafnræðissjónarmiða virðist ekki hafa verið gætt þegar horft er til tillagna ráðuneytisins um upphæðir til annarra samninga.

Í ljósi alls þessa óska Samtök sunnlenskra sunnlenskra sveitarfélaga eftir fundi með mennta- og menningarmálaráðherra sem allra fyrst til að fara yfir málið og fá viðhlítandi skýringar og í kjölfarið verði gerðar breytingar á samningsdrögunum. Stjórn SASS mun í því skyni leggja fram tillögu að skiptingu framlaga þar sem tillit verðir tekið til margvíslegra þátta. Stjórn SASS bendir í því sambandi á þá aðferðafræði sem beitt var við gerð vaxtarsamninga á síðasta ári. Jafnframt óska samtökin eindregið eftir því að engir menningarsamningar verði undirritaðir fyrr en að þessu undangengnu.

 5. Menntaþing í Gunnarsholti 4. mars nk.

Drög að dagskrá kynnt.

 6. Ráðstefna um orku- og atvinnumál á Suðurlandi 29. apríl nk.

Frumdrög að dagskrá lögð fram og kynnt.

 7. Hjúkrunarými á Suðurlandi – langur biðlisti.

Samkvæmt niðurstöðum vistunarmats á árinu 2010 þá kemur fram að 41 einstaklingur á Suðurlandi er á biðlista og í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými, flestir í Árborg og Vestmannaeyjum. Þörfin er greinilega mest á Suðurlandi en á landinu öllu eru 215 einstaklingar á biðlista. Stjórn SASS leggur áherslu á að fjármunum verði veitt til verulegrar fjölgunar hjúkrunarrýma á Suðurlandi og hafinn verði undirbúningur þegar í stað að uppbyggingu hjúkrunarrýma.

Lagt fram afrit af bréfi þjónustuhóps Rangárþings ytra, Rangárþings eystra og Ásahrepps, dags. 4. febrúar 2011, til velferðarráðherra, þar sem farið er fram á að ákvörðun um að fækka hjúkrunarrýmum á Hjúkrunarheimilinu Lundi um eitt frá síðustu áramótum verði endurskoðuð hið fyrsta.

Stjórn SASS tekur undir efni bréfsins og telur umrædda ákvörðun óskiljanlega í ljósi þess sem að ofan er rakið.

 8. Vegamál í Flóahreppi.

Lagt fram afrit af bréfi Flóahrepps, dags. 3. febrúar 2011, til innanríkisráðherra, þar sem krafist er úrbóta á tengivegum sveitarfélagsins sem eru í afar slæmu ásigkomulagi.

Stjórn SASS styður eindregið þau sjónarmið sem koma fram í bréfi sveitarfélagsins og hvetur ráðherra til að taka þau til alvarlegrar athugunar.

 9. Bókanir Heilbrigðisnefndar Suðurlands á fundi 17. janúar sl. um:

a. Sorpbrennslustöðvar.

Stjórn SASS hvetur þá sem um málið fjalla til að vinna með sveitarfélögum að varanlegri lausn. Sunnlensk sveitarfélög hafa sýnt ríkan vilja til aukinnar umhverfisvitundar og á það ekki síst við um þau mál er tengjast sorphirðu og meðferð þess. Gefa verður sveitarfélögum svigrúm til að vinna að skynsamlegum lausnum. Flýtir og flaustur er ekki líklegur til árangurs og mikilvægt að sá tímarammi sem unnið er eftir skerði ekki getu sveitarfélaga til að komast að skynsamlegustu niðurstöðunum.

b. Loftgæðamælingar.

Til kynningar.

10. Erindi frá Alþingi þar sem óskað er umsagnar eftirfarandi þingmál:

a. Frumvarp til laga um félagslega aðstoð (hámark umönnunargreiðslna), 114. mál.

http://www.althingi.is/altext/139/s/0123.html

Lagt fram.

b. Tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára, 334. mál.

http://www.althingi.is/altext/139/s/0401.html

Lagt fram.

c. Frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu og málefni aldraðra (einbýli), 214. mál.

http://www.althingi.is/altext/139/s/0239.html

Stjórn SASS er sammála markmiðum frumvarpsins en bendir á að um leið og fjölbýli er breytt í einbýli þá fækkar húkrunarrýmum. Til að víðhalda þeim fjölda húkrunarrýma sem nú er til staðar, sem raunar þarf að fjölga verulega í samræmi við niðurstöður vistunarmats fyrir árið 2010, þá þarf ríkið jafnframt að stórauka framlög til uppbyggingar hjúkrunaarrýma.

d. frumvarp til laga um fjöleignarhús (leiðsöguhundar o.fl.), 377. mál.

http://www.althingi.is/altext/139/s/0487.html

Lagt fram.

e. Frumvarp til laga um breyt. á skipulagslögum (skilvirkari afgreiðsla aðalskipulags), 113. mál.

http://www.althingi.is/altext/139/s/0122.html

Stjórn SASS tekur eindregið undir efni frumvarpsins og hvetur til þess að það verði samþykkt.

f. Frumvarp til laga um virðisaukaskatt (endurgreiðsla skatts af refa- og minkaveiðum), 164. mál.

http://www.althingi.is/altext/139/s/0180.html

Stjórn SASS hvetur til þess að frumvarpið verði samþykkt enda um brýnt hagsmunamál margra sveitarfélaga á landsbyggðinni að ræða.

11. Fundargerðir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtökunum.

Til kynningar.

12. Ársþing SASS

Samþykkt að halda næsta ársþing SASS í Vík í Mýrdal seinni hluta októbermánaðar. Nákvæmari tímasetning ákveðin á næsta stjórnarfundi.

Fundi slitið kl. 14:20