fbpx

Fundargerð:

4. fundur verkefnastjórnar Sóknaráætlunar – 2017

Austurvegi 56, 30. maí, kl. 13:30

 Mætt á fundinn Unnur Þormóðsdóttir formaður verkefnisstjórnar, Páll Marvin Jónsson (í fjarfundi), Runólfur Sigursveinsson, Bryndís Björk Hólmarsdóttir og Sveinn Sæland. Einnig sátu fundinn Bjarni Guðmundsson og Þórður Freyr Sigurðsson sem jafnframt ritaði fundargerð.

Undir 1. lið komu inn á fundinn ráðgjafar á vegum SASS, þau Ingunn Jónsdóttir, Hrafnkell Guðnason, Hrafn Sævaldsson, Guðlaug Ósk Svansdóttir (í fjarfundi), Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir (í fjarfundi) og Elísabet Björney Lárusdóttir.

Uppbyggingarsjóður:

  1. Auka fjárveiting til sóknaráætlunar Suðurlands

Verkefnastjórn Sóknaráætlunar fjallaði um tillögur að ráðstöfun á auka fjárveitingu sóknaráætlunar upp á 16,4 mkr. Verkefnastjórnin leggur til að fjárveitingunni verði ráðstafað til bæði nýrra verkefna, breytingu á þegar samþykktum verkefnum og með aukinni ráðstöfun til Uppbyggingarsjóðs Suðurlands í síðari úthlutun þessa árs, skv. tillögu stjórnar SASS.

Fyrirséð er að eftirstöðvar verði af verkefninu „Starfamessa 2017“ upp á 2 mkr.  Lagt er til að tilfærsla verði á eftirstöðvunum til aukningar verkefnisins um Uppsetningu á FabLab verkstæði á Selfossi.

Ný verkefni:

  1. Innviðagreining Suðurlands II. áfangi (5,5 mkr.)
  2. Kortleggja umhverfismál á Suðurlandi – innviðgreining (1,8 mkr.)

 Breytingar á verkefnum (upphæðir eru viðbótarfé til þegar samþykktra verkefna.)

  1. Hönnun á fræðsluefni fyrir söfn og sýningar á Suðurlandi (2,5 mkr.)
  2. Íbúakönnun á Suðurlandi (0,2 mkr.)
  3. Ráðstefna um sjálfbært Suðurland (0,2 mkr.)
  4. Uppsetning á FAB LAB verkstæði á Selfossi – gerð rekstraráætlunar til fjögurra ára (2,0 mkr.)

Lagt er til að mismunurinn á samþykktum fjárveitingum til verkefna og auka fjárveitingarinnar eða 6,2 mkr. verði ráðstafað til úthlutunar úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands í síðari úthlutun ársins.

Tillaga um ofangreinda ráðstöfun fjármagns verður send til stjórnar SASS og til stýrihóps stjórnarráðsins um byggðamál til samþykktar.

  1. Samráðsvettvangur sóknaráætlunar 2017

Ákveðið er að halda fund samráðsvettvangsins 1. september á þessu ári. Megin áhersla fundarins að þessu sinni verður á kynningu til handa þátttakendum í samráðsvettvangnum.

[Innskot sviðsstjóra í fundargerð 1.6.2017 : Dagsetning ráðstefnunnar um sjálfbært Suðurland var síðan færð til 7. september og fundur samráðsvettvangsins færður til 8. september.]

Unnið verður að samantekt á áhersluverkefnum, stöðu þeirra og mati á árangri verkefnanna og hversu vel hefur tekist til með að uppfylla sett markmið sóknaráætlunar landshlutans. Samantekt verður send þátttakendum fyrir fundinn og verður kallað eftir mati þátttakenda á fundinum á árangrinum til þessa. Verður mat samráðsvettvangsins lagt til grundvallar við endurskoðun á markmiðum og áherslum sóknaráætlunar Suðurlands á árinu 2018.

Ákveðið er að boða alla þátttakendur samráðsvettvangsins til fundarins, auk allra kjörinna fulltrúa sveitarfélaga á Suðurlandi, stjórnar SASS og verkefnastjórnar sóknaráætlunar. Ráðgjafar á vegum SASS munu koma að framkvæmd fundarins.

  1. Önnur mál

Næstu fundir verkefnastjórnar eru áætlaðir 23. júní og 1. september, sem jafnframt er fundur samráðsvettvangs sóknaráætlunar.

 

Fundi slitið kl. 15:15.