fbpx

25. fundur Samgöngunefndar SASS, haldinn miðvikudaginn

26. febrúar 2008, kl. 15:00 að Austurvegi 56, Selfossi

Mætt: Þorvaldur Guðmundsson, Páll Stefánsson, Ólafur Eggertsson, Snæbjörn Sigurðsson og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð.

Dagskrá:

1. Kosning formanns

Ólafur Eggertsson kosinn formaður.

2. Bréf frá samgönguráðherra, dags. 31. janúar 2008, varðandi ályktanir aðalfundar SASS um samgöngumál

Farið var yfir bréfið. Eftirfarandi ályktun var samþykkt: Nefndin þakkar svör ráðherra en gerir athugasemdir við þann kafla bréfsins sem fjallar um fjarskipti. Þar kemur fram að að unnið er að því markmiði að allir landsmenn hafi aðgang að háhraða gagnaflutningskerfi og útboð á vegum Fjarskiptasjóðs vegna þess sé á lokastigi, en þó nái útboðið ekki til þeirra svæða sem hafa aðgang að háhraðatengingum sem fyrirtæki á markaði bjóða. Nefndin bendir á að um er að ræða svæði þar sem boðið er upp á örbylgjutengingar, sem eru mun lakari að gæðum en þær ADSL tengingar sem boðið verður upp á skv. fyrirhuguðu útboði og á það bæði við um afhendingaröryggi og afkastagetu. Nefndin leggur því áherslu á að jafnhliða fyrirhuguðu útboði verði viðkomandi fyrirtækjum gert skylt að tryggja sambærileg gæði á þeim svæðum sem þau bjóða þjónustu sína. Sjái þau sér það ekki fært verði útboð Fjarskiptastofnunar látið ná til þeirra svæða einnig.

3. Almenningssamgöngur

Lagðar fram upplýsingar um nýafstaðið málþing samgönguráðs um almenningssamgöngur. Einnig lagði Þorvaldur Guðmundsson fram upplýsingar frá Vegagerðinni um fyrirhugað útboð á sérleyfinu Reykjavík- Hveragerði -Selfoss og möguleika sveitarfélaganna til að koma á samningum með sambærilegum hætti og þegar Akranesbær samdi við Strætó bs. um aukna þjónustu og sömu gjaldskrá og gildir á höfuðborgarsvæðinu. Nefndin hvetur til þess að þessir möguleikar verði kannaðir ítarlega. Samþykkt að boða fulltrúa hlutaðeigandi sveitarfélaga til fundar um málið sem fyrst.

Fundi slitið kl. 16:30

Þorvarður Hjaltason