fbpx

 

Þann 5. september nk. kl. 9-12  á Grand Hótel mun Byggðastofnun, ásamt Veðurstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Reykjavíkurborg og innviðaráðuneyti standa að baki fræðsluviðburðinum Aðlögun að breyttum heimi – hefjum samtalið. Dagskráin er spennandi og mun henni ljúka með pallborðsumræðum sem stýrt verður af Sævari Helga Bragasyni. Dagskrána má finna hér.  

Markmið viðburðarins snúa fyrst og fremst að því að hefja umræðu um aðlögun að loftslagsbreytingum fyrir alvöru með fulltrúum sveitarfélaga landsins, sem og öllum þeim sem láta sig málið varða. Mikilvægt er að stuðla að aukinni umræðu og fræðslu um eðli og mikilvægi aðlögunarvinnu á öllum stigum stjórnsýslunnar, ekki síst sveitarstjórnarstigi, vegna áhrifa loftslagsbreytinga. Tilgangur viðburðarins er því fyrst og fremst eftirfarandi:

  • Fræða sveitarstjórnarfulltrúa, aðila innan íslenskrar stjórnsýslu og aðra áhugasama um aðlögun að loftslagsbreytingum, hvað slíkt felur í sér og hvaða verkefni séu fram undan til þess að takast á við áhrif loftslagsbreytinga á byggðir landsins.
  • Vekja athygli á nýrri stefnu íslenskra stjórnvalda í aðlögun og hlutverki sveitarstjórna innan hennar, sem og nýrri aðgerð C.10 í Byggðaáætlun, um aðlögunarvinnu á sveitarstjórnarstigi.
  • Vekja umræðu um mikilvægi þess að hefja skipulagningu aðlögunaraðgerða á sveitarstjórnarstigi, m.a. með því að veita fræðslu um mögulegar afleiðingar loftslagsbreytinga á sveitarfélög, atvinnuvegi og byggðir landsins.

 

Skráning fer fram hér, en viðburðurinn verður einnig í streymi. Ekki er þörf á að skrá sig í streymið, sem mun fara fram á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Um takmarkað sætaframboð er að ræða og því mikilvægt fyrir áhugasama að hafa hraðar hendur.

Nánari upplýsingar má finna á vef Byggðastofnunar.