fbpx

Nýtt útilistaverk eftir Halldór Ásgeirsson verður  afhjúpað á Borg í Grímsnesi  laugardaginn  1. nóvember kl. 16
Í Listasafni Árnesinga má fá nánari innsýn í listferil hans á sýningunni VEGFERÐ – listamannsspjall kl. 14

Á fjölbreyttri dagskrá Safnahelgar á Suðurlandi vill Listasafn Árnesinga benda sérstaklega á afhjúpun útilistaverks laugardaginn 1. nóvember kl. 16 á Borg í Grímsnesi. Listaverkið er eftir Halldór Ásgeirssn og hægt er að kynnast list hans betur á sýningunni VEGFERÐ í Listasafni Árnesinga og hann verður með listamannsspjall í safninu þennan laugardag kl. 14 að lokinni opinni æfingu Kammerkórs Suðurlands kl. 12-14.

Það er alltaf stórviðburður þegar útilistaverk er afhjúpað og myndlist þannig gerð aðgengileg fleirum. Útilistaverkið á Borg samanstendur af hringlaga flöt sem er í heild tíu metrar í þvermál með hraunsteini fyrir miðju sem er um það bil tveir metrar á hæð og breidd. Hluti hraunsins er logsoðið en við það umbreytist það í svartgljáandi glerung. Í kringum hraunsteininn er hellulögð stétt og á hellurnar eru máluð hrauntákn í ýmsum stærðum með svörtum lit og eru að grunni teikningar sem listamaðurinn hefur dregið upp af svartgljáandi glerungi sem verður til þegar bræddur hraunsteinninn kólnar.  Ljóskösturum með ljósdíóðum í mismunandi litum verður beint að hraunvörðunni eftir að dimma tekur þannig að hraunglerungurinn glitrar. Verkið endurspeglar kulnaðan jarðeldinn sem umlykur staðinn þar sem hraunsteinninn er fulltrúi eldfjallsins og hringlaga stéttin með máluðu táknunum stendur fyrir tungumál jarðar. Einskonar samtal náttúrunnar við sköpunarkraft mannsins. Listaverkið er unnið fyrir Grímsnes og Grafningshrepp með styrk frá Listskreytingasjóði

Sýningin VEGFERÐ er umfangsmikil dagbókarfærsla sem veitir innsýn í upplifun Halldórs Ásgeirssonar á náttúrunni þar sem hann vinnur einkum út frá hinum fornu frumefnum eldi, vatni, jörð og lofti. Með því að velja verk frá mismunandi tímum á hans ferli má sjá samfellu í hans listsköpun þó um sé að ræða ólíkar útfærslur á tilraunum hans með sjálfsprottna skrift, gjörninga og tilraunir með bráðið hraun, en með þeim gjörningi hefur Halldór skapað sér ákveðna sérstöðu. Halldór var einnig þátttakandi í því umróti sem átti sér stað í íslensku listalífi uppúr 1970 sem tekið er fyrir á sýningunni UMRÓT sem samtímis er til sýnis í Listasafni Árnesinga í samstarfi við Listasafn Íslands.

Listasafn Árnesinga er í eigu allra sveitarfélaganna í Árnessýslu. Það er opið fimmtudaga – sunnudaga kl. 12-18, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir, líka á viðburðina. Einnig eru allir velkomnir að vera viðstaddir afhjúpun útilistaverksins.

safnahelgi2014_A4