fbpx

Á fundi stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem haldinn var 12. febrúar sl., var fjallað um þá ákvörðun umhverfisráðherra að synja aðalskipulagi Flóahrepps og aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps staðfestingar.

 

Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða:

,,Stjórn SASS gagnrýnir harðlega þá niðurstöðu umhverfisráðherra að synja  aðalskipulagi sveitarfélaganna beggja staðfestingar.

Sú niðurstaða er ekki í samræmi við stjórnsýslu umhverfisráðherra á undanförnum árum sem hefur margsinnis staðfest aðalskipulagstillögur þar sem þeir aðilar sem að framkvæmdum standa hafa kostað breytingar á aðalskipulagi.  Greinilegt er að jafnræðis hefur ekki verið gætt og nauðsynlegt er því að ráðherrann geri sérstaklega grein fyrir því misræmi.  Réttaróvissa um fyrri staðfestingar umhverfissráðherra á aðalskipulagi hefur einnig  skapast sem sveitarfélögin geta ekki búið við.

Þá er synjun ráðherrans í algjöru ósamræmi við markaða stefnu umhverfisráðherra og umhverfisráðuneytisins sem hefur tvisvar frá árinu 2007  lagt fram frumvörp þar sem gert er ráð fyrir að sveitarfélögin geti lagt á  gjöld til að mæta kostnaði við skipulagsvinnu. Almenn samstaða var um þetta sjónarmið enda þótt frumvörpin hafi ekki verið afgreidd. Raunar er ekkert í núverandi lögum sem bannar slíkt.  Afar…

óeðlilegt er að að slíkur kostnaður sé greiddur af almennu skattfé og þar með íbúum viðkomandi sveitarfélaga. Ljóst má vera að gjaldtökuheimild frumvarps til skipulagslaga sem lagt var fram á vorþingi 2008,  en varð ekki að lögum á því þingi, er mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra og hljóta sveitarfélögin því að leggja áherslu á að áfram verði gert ráð fyrir slíkri lagaheimild þrátt fyrir fyrrgreindar ákvarðanir umhverfisráðherra.

Þá vekur athygli að umhverfisráðherra sem réttlætir ákvörðun sína með vísan til skipulagslaga skuli  á sama tíma brjóta skýr fyrirmæli laganna um þann tímafrest sem ráðherra  hefur til að taka ákvörðun um staðfestingu aðalskipulags.  Aðalskipulagstillögur sveitarfélaganna voru samþykktar annars vegar fyrir 11 mánuðum og hins vegar fyrir 14 mánuðum, en ráðherrann hefur 6 mánað frest skv. lögunum.

Stjórn SASS átelur einnig harðlega að  ráðherrann skuli með ákvörðunum sínum leggja stein í götu virkjanaframkvæmda sem hafa mikla efnahagslega þýðingu fyrir þjóðfélag í miðri efnahagskreppu.  Fyrir liggur að Landsvirkjun hefur þegar frestað viðræðum við fyrirtæki um sölu á orku.  Stjórn SASS vekur sérstaka athygli á að um  virkjun endurnýjunarlegrar orku er að ræða.  Samkvæmt fyrri hluta rammaáætlunar frá 2003 þá er ljóst að virkjunarkostir  í neðri hluta Þjórsár  eru meðal þeirra allra vænlegustu m.t.t. til umhverfissjónarmiða auk þess sem um hagkvæma virkjunarkosti er að ræða.

Að endingu mótmælir stjórn SASS sérstaklega þeim ávirðingum sem fram koma í úrskurði ráðherrans um að sveitarstjórnarmenn hafi þegið greiðslur frá Landsvirkjunar vegna funda í tengslum við skipulagsgerðina.   Upplýst er að svo hafi ekki verið  og hafði ráðuneytinu verið grein fyrir því áður en úrskurðurinn var upp kveðinn.”
Ályktunin hefur verið send umhverfisráðherra og  viðbragða hans  og skýringa óskað.