fbpx
1. september 2009

Stofnfundur hagsmunasamtaka í þágu barna og unglinga með tal- og málþroskaröskun.

 

Í undirbúningi er stofnun hagsmunasamtaka í þágu barna og unglinga með tal- og málhömlun. Í undirbúnings -hópnum eru 10 manns, þar af 6 af Suðurlandi. Þetta er hópur vaskra foreldra ásamt þremur talmeinafræðingum sem láta sig velferð barna með málþroskaröskun varða og eru tilbúin að leggja á sig mikla vinnu til að hrinda af stað samtökum sem hafa það markmið

 

•      að vekja athygli á nauðsynlegri þjónustu við börn með tal- og málhömlun,

•      að fræða aðstandendur um tal- og málhömlun,

•      að vinna að  auknum “réttindum” barna með tal- og málhömlun,

•      að hvetja til rannsókna á tal- og málhömlunum.

Flest börn eru svo lánsöm að ná málþroska á eðlilegum tíma. Því miður er það ekki svo með öll börn. Hópur barna, eða allt að 7% eru haldin svokallaðri málþroskaröskun. Þetta er meðfæddur vandi sem liggur oft í ættum. Málþroskaröskun fylgja námserfiðleikar af einu eða öðru tagi-, oftast leshömlun auk annars námsvanda s.s. í stafsetningu, ritun, málfræði eða stærðfræði. Hægt er að finna stóran hluta barna með þessa röskun strax í leikskóla og með góðri þjálfun og markvissri vinnu þar er hægt að draga úr líkum á miklum námserfiðleikum. Mörg barnanna þurfa þó áframhaldandi þjálfun upp eftir grunnskólanum. Talmeinafræðingur á Skólaskrifstofu sinnir ráðgjöf og greiningu, en ekki meðferð, og vísar því málum sem þarfnast meðferðar áfram.  Nánast engin meðferð vegna talmeina er í boði á Suðurlandi nú eftir að talmeinafræðingur sem starfaði við þjálfun barna hætti og þess vegna þarf að leita til Reykjavíkursvæðisins eftir meðferð. Því fylgir verulegur kostnaður og vinnutap fyrir forráðamenn.  Þetta hefur haft þær afleiðingar að fjöldi barna hefur ekki fengið neina  meðferð talmeinafræðings við meinum sínum. Þetta er óásættanlegt ástand og þessu viljum við breyta. Á síðasta skólaári var 146 börnum vísað í greiningu, 70 grunnskólabörnum og 76 leikskólabörnum, þetta er dágóður hópur barna sem hefur greinst á einu ári og flest þeirra eru í þörf fyrir meðferð talmeinafræðings.

Það er ósk okkar að húsfyllir verði á stofnfundinum til að sýna svart á hvítu hve fjölmennur þessi hópur er sem fær allt of litla þjónustu.

Við hvetjum því alla þá fjölmörgu foreldra hér á Suðurlandi sem eiga börn með þennan vanda eða önnur talmein að mæta. Við hvetjum einnig fagfólk eins og kennara á öllum stigum, þroskaþjálfa, talmeinafræðinga og alla sem vinna að velferð þessa barna og unglingahóps að mæta.  Þannig getum við gert okkur sýnileg og orðið sterkur þrýstihópur í baráttu fyrir þjónustu fyrir börnin okkar.

Fundurinn verður haldinn þann 16. september 2009 kl. 20 í fyrirlestrarsalnum Skriðu við Stakkahlíð fyrrum Kennaraháskóla Íslands (nú Menntavísindasvið Háskóla Íslands) .