fbpx

Landsmenn kynntust því um síðustu helgi hve umferð hefur vaxið gríðarlega og að sama skapi hvað  vegirnir eru vanbúnir til að anna slíkri umferð.   Þannig fóru um 17.000 bílar um Suðurlandsveg síðasta sunnudag og svipaður fjöldi á föstudeginum áður og umferðin gekk vægast sagt hægt fyrir sig.

 

Mikil umræða hefur verið á síðustu misserum um breikkun helstu  samgönguæða út frá höfuðborginni og þá hvort eigi að hafa vegi með tveimur akreinum í hvora átt eða svokallaða 2+1  vegi.  Hafa fylgjendur síðari kostsins sagt að  hann væri nægilegur sérstaklega m.t.t. umferðaröryggis og mun ódýrari þar að auki.    Í þessu samhengi er fróðlegt að átta sig á hvernig umferðin hefur þróast á undanförnum árum um Suðurlandsveg og  við hverju má búast með sama áframhaldi.

 

Veruleg aukning hefur orðið á umferðinni á milli Selfoss og Reykjavíkur það sem af er þessu ári.   Frá áramótum  til 19. júní sl. eða fyrstu 170 daga ársins er umferðaraukningin m.v. sama tíma í fyrra 12.9%.  Ef sú aukning helst út árið má reikna með að um 9.300 bílar fari fram hjá Litlu kaffistofunni að meðaltali á sólarhring.

 

 

Á síðustu 10 árum hefur umferð við Litlu kaffistofuna vaxið um rétt tæp 90% og á síðustu 5 árum um 55%.  Ef aukningin verður svipuð næstu 10 árin verður umferðin árið 2017 um 17.500 bílar að meðaltali á sólarhring en 22.000 ef þróunin verður eins og síðustu 5 ár .  Miðað við sömu forsendur verður umferðin 2017 á bilinu 15.000  til 19.000 bílar við Ingólfsfjall,   14.000 til 17.500 á Hellisheiði og 20.000 – 25.000 við Geitháls.

 

Að mati Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga kemur ekki annað til greina, í ljósi þess sem hér hefur verið rakið,  en að hefja sem allra fyrst tvöföldun Suðurlandsvegar með nýrri brú yfir Ölfusá.  Sú framkvæmd mun duga til næstu áratuga en bygging  2+1 vegar væri  hins vegar dýr bráðabirgðalausn þegar upp er staðið.