fbpx
20. september 2007

Verkefnið Safnaklasi Suðurlands hefur nýlega hlotið styrk frá Vaxtarsamningi Suðurlands og Vestmannaeyja. Helstu markmið með stofnun safnaklasans eru eftirfarandi:

  • · Að efla samstarf safnanna á svæðinu t.d. með sameiginlegum uppákomum og miðlun safnmuna milli safna.
  • · Að kynna öflugt- og fjölbreytt safna- og sýningastarf í sameiginlegum bæklingi og með öðrum hætti.

Undirbúningur þessa samstarfs hófst sl. vor með tveimur fundum sem Atvinnuþróunarfélag Suðurlands og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga boðuðu til í Þorlákshöfn. Á fundina mætti safnafólk af öllu svæðinu og ákvað að snúa bökum saman með myndun klasans. Jafnframt var ákveðið að láta starf safnaklasans ná til allra tegunda safna, setra og sýninga.
Verkefnisstjórn safnaklasans skipa þau Lýður Pálsson hjá Byggðasafni Árnesinga, Margrét I. Ásgeirsdóttir hjá Bæjar- og héraðsbókasafninu á Selfossi, Barbara Guðnadóttir menningarfulltrúi Ölfuss og Martina Pötzsch hjá Skógasafni. Ennfremur starfar Steingerður Hreinsdóttir hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands með verkefnisstjórninni. Ráðinn hefur verið ráðgjafi að klasanum, Gísli Sverrir Árnason sem á að baki margra ára reynslu af safnastarfi. Verkefni

hans verður meðal annars að vinna að stefnumótun og einstökum samstarfsverkefnum svo sem útgáfu sameiginlegs kynningarefnis en rúmlega 60 söfn, setur og sýningar eru starfrækt á Suðurlandi.

 

Til þess að hrinda starfi Safnaklasa Suðurlands formlega af stað er safnafólk á öllu Suðurlandi boðað til fundar í Skógaskóla, þriðjudaginn 2. október kl. 14-17. Fundarefnið er að ræða nánar sameiginleg verkefni og hagsmunamál safna, setra og sýninga á Suðurlandi. Fundarstjóri verður Barbara Guðnadóttir en dagskrá fundarins er svohljóðandi:

  • · Setning og kynning á Safnaklasa Suðurlands. Lýður Pálsson formaður verkefnisstjórnar
  • · Safnastarf á Suðurlandi. Umfang og umgjörð. Gísli Sverrir Árnason
  • · Verkefni sem brýnast er að safnafólk á Suðurlandi vinni saman að. Steingerður Hreinsdóttir
  • · Kaffiveitingar
  • · Almennar umræður með þátttöku fulltrúa í pallborði. Umræðustjóri: Margrét Ásgeirsdóttir
  • Fundir verkefnahópa