fbpx

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra auglýsir eftir umsóknum um framlög til verkefna á sviði almenningssamgangna. Framlög verða veitt á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024 vegna verkefna sem tengjast aðgerð A.10 Almenningssamgöngur um land allt. Markmiðið er að styðja við þróun almenningssamgangna, þá sérstaklega út frá byggðalegum sjónarmiðum.

Til ráðstöfunar verða allt að 30 milljónir króna, styrkupphæð getur numið allt að 80% af heildarkostnaði við verkefni og miða skal við að verkefnum verði lokið fyrir árslok 2022.

Styrkhæf verkefni geta t.d. verið tengd þjónustu, markaðsmálum, og rannsóknum og þróun. Veitt verða framlög til verkefna sem nýtast einstökum landsvæðum, landshluta í heild, og/eða landinu öllu.

Verkefna sem hlutu styrk á sviði almenningssamgangna árið 2020 voru:

  • Frístundaakstur og almenningssamgöngur þar sem Sveitarfélagið Hornafjörður hlaut styrk til áframhaldandi þróunar á frístunda- og tómstundaakstri milli Hafnar og Suðursveitar annars vegar og Hafnar og Lóns hins vegar.
  • Rannsóknar- og þróunarverkefni á sviði almenningssamgangna á Suðurlandi þar sem Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hlutu styrk til að greina þjónustu almenningssamgangna á landsbyggðinni sem unnt verður að nýta í öðrum landshlutum. Sem og til þess að kanna ferðahegðun meðal íbúa og gesta á Suðurlandi.
  • Samþætting skóla- og tómstundaaksturs og almenningssamgangna þar sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hlutu syrk til að kortleggja möguleikana á því að tengja saman skólaakstur í grunn- og framhaldsskóla á Vesturlandi sem og tómstundaakstur þar sem hann er við almenningssamgöngur í landshlutanum, sem og að vinna tillögu að leiðakerfi.
  • Efling þjónustu og atvinnusóknar á norðanverðum Vestfjörðum þar sem Vestfjarðastofa ses. hlaut styrk til að efla almenningssamgöngur til og frá Flateyri með það að markmiði að bæta þjónustu við íbúa á Flateyri, en horfa jafnframt til samlegðaráhrifa fyrir nágrannabyggðarlögin Suðureyri, Flateyri og Þingeyri.
  • Sambíllinn þar sem Vestfjarðastofa ses. hlaut styrk til að greina möguleika þess að efla almenningssamgangnaakstur með því að nýta þjónustu sem þegar er í boði, s.s. skólaakstur og þjónustuakstur.
  • Pöntunarakstur þar sem Vestfjarðastofa ses. hlaut styrk til að koma upp akstri til og frá Reykhólahreppi og Drangsnesi og tengja samgönguneti almenningssamgangna.
  • Fýsileikakönnun almenningssamgangna á Norðurlandi vestra þar sem Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra fengu styrk til að kanna þróun almenningssamgangna innan og/eða milli vinnusóknarsvæða á Norðurlandi vestra.
  • Samlegð farþega og póstflutninga á Norðausturlandi þar sem Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra fengu styrk til að samnýta póst- og farþegaflutninga frá Húsavík til Þórshafnar.
  • Fólk og farmur á Austurlandi þar sem SvAust hlaut styrk til að kortleggja þá aðila á Austurlandi sem sinna fólks- og/eða farmflutningum og kanna möguleika á að tengja gildandi leiðarkerfi SvAust við aðrar stofnleiðir á hringveginum.
  • Farveita þar sem SvAust hlaut styrk til að skilgreina þjónustuþörf á Austurlandi og þróa smáforrit sem gerir farþegum kleift að tengjast inn á áætlunarkerfi SvAust með pöntunarþjónustur.

 

Umsóknafrestur er til miðnættis föstudaginn 10. september 2021.

Nánari upplýsingar má finna hér.