fbpx

 

Markmið með starfi NORA (Norræna Atlantssamstarfsins) er að styrkja samstarf á Norður-Atlantshafssvæðinu. Ein leið að því markmiði er að veita verkefnastyrki tvisvar á ári til samstarfsverkefna á milli Íslands og a.m.k. eins annars NORA-lands, þ.e. Grænlands, Færeyja, strandhéraða Noregs. Nú er komið að fyrri úthlutun ársins 2023. 

Norræna ráðherranefndin stefnir að því að Norðurlöndin verði heimsins sjálfbærasta og græna svæði árið 2030. Umsóknir um styrk ættu að taka mið af þessari norrænu sýn sem á sér stoð í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og birtist jafnframt í þeim sex áherslusviðum sem má finna í stefnu NORA fyrir árin 2021-2024, sjá https://nora.fo/skipulagsaaetlun?_l=is

Umsóknarfrestur er til og með mánudagsins 6. mars 2023.

Hámarksstyrkur er 500.000 dkr. Lengst er unnt að veita styrki til 3ja ára og aðeins sem hluta af heildarfjármögnun verkefnis, gegn mótframlagi viðkomandi aðila. Umsóknir skulu fela í sér samstarf á milli a.m.k. tveggja NORA-landa. Í umsóknunum skal taka mið af samstarfsáætlun NORA 2021-2024, auk ofangreindra atriða.

Þau svið sem helst eru styrkt að þessu sinni eru eftirfarandi:

  • Lífhagkerfi: Nýsköpunarverkefni þar sem lögð er áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda lands og sjávar. Verkefni þar sem virðiskeðjan einkennist af nýsköpun með nýju hráefni, nýrri framleiðsluvöru, matvöru sem hefur ekki farið um langan veg, sælkeravöru sem framleidd er út frá sjálfbærri nýtingu staðbundinna hráefna.
  • Sjálfbær ferðaþjónusta: Sjálfbær ferðaþjónusta þar sem byggð er upp atvinnugrein í heimabyggð og tekjur haldast í heimabyggð. Sérstök áhersla á ferðaþjónustu framtíðarinnar.
  • Hringrásarhagkerfi: byggir á því að við nýtingu náttúruauðlinda tapist sem minnst verðmæti. Í forgangi eru verkefni í samstarfi sveitarfélaga og á milli landa.
  • Flutningar: Samstarf um bættar og grænar lausnir í flutningum sem jafnframt tengja lönd og svæði betur saman. Á Norður-Atlantshafssvæðinu er mikið hafsvæði og í forgangi verða verkefni þar sem nýttar eru grænir og endurnýjanlegir orkugjafar í flutningum á hafinu.
  • Orka: Þróun endurnýjanlegrar orku og rafrænna lausna í dreifbýli, lausna sem tryggja aðgengi að orku fyrir samfélög á svæðinu. Í forgangi eru verkefni sem beinast að sértækum orkulausnum sem ekki eru háð aðgangi að stærra orkuneti.
  • Samfélag: það er mikilvæg undirstaða búsetu að fólki líði vel í sínu samfélagi og til staðar sé góð þjónusta. Sérstök áhersla er á verkefni þar sem ungt fólk er virkjað í samfélaginu.
  • Verkefni á byrjunarreit. Ekki eru styrkt verkefni sem eru alfarið menningarverkefni eða rannsóknaverkefni.

Við mat umsókna eru eftirfarandi þættir sérstaklega til skoðunar:

  • Tenging og þýðing verkefnisins út frá þeim sjö sviðum sem lýst er hér að ofan.
  • Raunhæfni verkefnishugmyndar.
  • Nýsköpun og ný hugsun sem framlag til búsetu á svæðinu
  • Samsetning þátttakenda og hlutverk þeirra og framlag í verkefninu
  • Hvert er notagildið í norrænu samhengi
  • Raunsæ og gegnsæ fjárhagsáætlun
  • Hvernig nýtast niðurstöður verkefnisins

 Umsóknir verða að uppfylla eftirfarandi kröfur:

  • Samstarfsaðilar skulu vera frá a.m.k. tveim NORA löndum. Samstarfsaðilar frá öðrum nágrannalöndum eru einnig leyfilegir. Þeir njóta þó ekki styrks frá NORA og teljast ekki með til þess að uppfylla skilyrði um a.m.k tvö NORA-lönd. Að auki skal eignarhald og aðkoma samstarfsaðila að verkefni vera jafnt.
  • Hámarksstyrkur er 50% af heildarfjármögnun verkefnisins, en þó aldrei hærri en 500.000 dkr. á ári og 1.500.000 dkr. á þriggja ára tímabili.
  • NORA þarf að hafa heimild til að kynna árangur verkefnisins á sínum vettvangi

Ef umsóknin uppfyllir ekki þessi skilyrð verður henni vísað frá.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu NORA, www.nora.fo                      Rafrænt umsóknarform hefur nú verið opnað gegnum heimasíðu NORA, sjá: https://umsokn.com/dk/app/nora

Tengiliður NORA á Íslandi: Sigríður K. Þorgrímsdóttir, sigga@byggdastofnun.is

Á heimasíðu NORA má finna nánari leiðbeiningar um útfyllingu umsóknar undir flipanum „PROJEKTSTØTTE“.