fbpx

Í gær var bein útsending frá úthlutun styrkja úr Matvælasjóði en nokkur eftirvænting hefur verið eftir þessari fyrstu úthlutun sjóðsins. Við stofnun sjóðsins leggjast af Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS. Það voru samtals 62 verkefni sem hlutu styrk að fjárhæð allt að 480 milljónir. Alls bárust 266 umsóknir um styrki upp á 2.7 ma.kr. Hlutverk sjóðsins er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landsbúnaðar- og sjávarafurðum. Um er að ræða fjóra styrkjaflokka; Bára, Afurð, Fjársjóður og Kelda.

Það voru fimm verkefni á Suðurlandi sem hlutu beina styrki og önnur fimm verkefni sem eru að hluta unnin á Suðurlandi eða í samstarfi við sunnlenska aðila. Beinir styrkir numu samtals 33,7 m.kr. og aðrir styrkir upp á 55,4 m.kr. Samtals runnu því beint og óbeint 90 m.kr. til sunnlenskra verkefna úr þessari fyrstu úthlutun.

Ráðgert er að veita að nýju styrki úr sjóðnum á fyrrri hluta næsta árs. Eru frumkvöðlar og fyrirtæki hvött til að fylgjast vel með og leita aðstoðar hjá ráðgjöfum á vegum SASS við mótun og þróun verkefnaumsókna.

Verkefni á Suðurlandi sem hlutu styrk eru eftirfarandi;

GMATT ehf – CODD WINGS/Þorskvængir. Verðmæta aukning á vannýttri afurð, kviðugga á þorski. Styrkur 3 m.kr.-
R&F ehf – Hampur og jarðhiti. Styrkur 3 m.kr.-
Aldingróður ehf – Ræktun ætra blóma árið um kring. Styrkur Kr. 730.000. –
Marpet ehf – Heilsumolinn. Framleiðsla á heilsusnarli úr síld fyrir gæludýr. Styrkur 8 m.kr.-
Sandhóll bú ehf – Þróun íslenskrar haframjólkur. Styrkur 19 m.kr.-

Önnur verkefni sem tengjast Suðurlandi og fleirum landshlutum og fengu styrk eru eftirfarandi;

Eimverk ehf – Íslenskt malt edik. Styrkur 3 m.kr.-
Björn A. Hauksson – Kaffi kóla. Styrkur 3 m.kr.-
Punktur ehf – Kæling lýstra gróðurhúsa. Styrkur 15 m.kr.-
Matís – Bætt gæði, geymsluþol og minni sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis. Styrkur 18.4 m.kr. –
Sildarvinnslan – Ný þráavarnarefni og stöðuleiki makrílsmjöls. Styrkur 16 m.kr. –

Samtals 55.400.000.-

Fram kom ávarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við úthlutunina að áætlað er að Matvælasjóður muni hafa 628 milljónir til umráða á næsta ári og stefnt er á að opna fyrir umsóknir í mars 2021 og úthlutað verði í maí 2021.

 

Gréta María Grétarsdóttir, formaður stjórnar Matvælasjóðs og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra