fbpx

6.10.2023

Alþingi samþykkti fyrir tveimur árum nýtt ákvæði við sveitarstjórnarlög sem fjallar um þjónustustefnu í byggðum og byggðarlögum sveitarfélags. Ákvæðið kveður m.a. á um að sveitarstjórn skuli móta stefnu fyrir komandi ár og næstu þrjú árin þar á eftir um það þjónustustig sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðarlögum fjarri stærstu byggðakjörnum viðkomandi sveitarfélags. Þróunarsvið Byggðastofnunar vann leiðbeiningar að beiðni innviðaráðuneytisins í samstarfi við sveitarfélagið Norðurþing og voru þær birtar 29. september síðastliðinn.

Markmið ákvæðisins er að gera stefnu sveitarfélaga gagnvart viðkvæmari byggðum sínum skýrari og taka um hana sérstaka umræðu.

Það er á ábyrgð sveitarstjórnar að móta heildarstefnu fyrir hverja byggð eða byggðarlag fyrir sig og gera grein fyrir ætluðu þjónustustigi vegna einstakra verkefna sem sveitarfélagið hyggst veita á viðkomandi svæðum, t.d. skólahald, ferðir skólabíla, opnunartímar sundlauga, rekstur félagsheimila svo dæmi séu tekin.  Sveitarfélagið ákvarðar sjálft hvernig svæði verða skipt frekar upp með tilliti til þjónustustigs s.s. með því að flokka svæði eftir ákveðinni fjarlægð frá byggðakjarna eða miða við eldri skipan sveitarfélaga eða hreppa. 

Sjá leiðbeiningarnar hér  Leiðbeiningar um gerð þjónustustefnu sveitarfélags

Fréttin er tekin af vef Byggðastofnunar.