fbpx

Ísland ljósvætt – mikilvægasta hagsmunamál landsbyggðanna

Landshlutasamtökin skora á þingheim og yfirvöld að tryggja aukna fjármuni til verkefnisins „Ísland ljóstengt“. Það er ekki bara sanngirnismál að allir íbúar landsins, hvort sem þeir búa í þéttbýli eða dreifbýli, eigi kost á ljósleiðaratengingu sem stenst nútímakröfur heldur er það beinlínis forsenda uppbyggingar atvinnulífs og byggðar.

Í skýrslu starfshóps um alþjónustu í fjarskiptum og útbreiðslu háhraða nettenginga á Íslandi eru háleit markmið sem landshlutasamtökin hafa fagnað en nokkuð hefur skort á að fjármagn væri í samræmi við markmiðin. Sömuleiðis kom það nokkuð á óvart við úthlutun Fjarskiptasjóðs árið 2016 að byggðasjónarmið skyldu ekki vera höfð að leiðarljósi.

Það er einróma álit landshlutasamtakanna að við framtíðarúthlutanir verði að vera svigrúm fyrir sértækar aðgerðir þar sem horft er til tenginga þeirra svæða þar sem erfiðar aðstæður og/eða lágar tekjur sveitarfélaganna koma í veg fyrir þátttöku í uppboði á samkeppnisforsendum. Þessu hafa landshlutasamtökin komið á framfæri við Fjarskiptasjóð, starfshóp um alþjónustu í fjarskiptum og útbreiðslu háhraða nettenginga á Íslandi og innanríkisráðuneytið.

Nú er til umræðu á Alþingi fjármálaáætlun fyrir útgjöld ríkisins til næstu fimm ára. Því gefst einstakt tækifæri til að festa í framtíðaráætlunum hins opinbera fjárframlag sem dugar til að markmið um ljósleiðaravæðingu landsins á næstu fjórum árum nái fram að ganga, um einn milljarð króna. Til þess þarf áræði sem landshlutasamtökin eru reiðubúin að styðja með ráðum og dáð. Sömuleiðis eru þau, hér eftir sem áður, tilbúin til viðræðna um þetta mikilvægasta hagsmunamál landsbyggðanna.

 

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæði Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi
Fjórðungssamband Vestfirðinga Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Eyþing Samband sveitarfélaga á Austurland
Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum