fbpx

Þann 13. nóvember verður haldin fyrsta Íslandsmeistarakeppnin í matarhandverki. Keppnin verður haldin í Norræna húsinu. 
Þátttökugjaldið í keppninni er 3.000 kr. og gildir það fyrir eina vöru. Verð fyrir hverja vöru umfram eina er 2.000 kr. Skráningin er bindandi og verður reikningur sendur til þátttakenda þegar skráningu er lokið.

Ekki verður tekið á móti óskráðum vörum á keppnisdegi.

Til þess að vara verði samþykkt í keppnina þá þarf að skrá hana innan skráningartímabilsins. Í skráningunni þarf að passa upp á að skrá nöfnin á öllum vörunum sem eiga að keppa sem og innihaldslýsingu á öllum vörunum.
Ekki er nauðsynlegt að vera viðstaddur keppnina sjálfa. Hægt er að skrá vörurnar sínar í keppnina og senda þær til:

Matís c/o Gunnþórunn Einarsdóttir
Vínlandsleið 12
113 Reykjavik

Skráning í keppnina fer fram hér. 

Skráningu lýkur 6. nóvember.

Keppnisflokkar, sjá reglur hér.

Mjólkurvörur
Dæmi um vörur:
Mjúkir ostar, harðir ostar, mysingur, hvít- eða blámygluostar, ostar marineraðir í olíu, smjör, ostakaka, jógúrt, ís og skyr.

Kjöt
Dæmi um vörur:
Ferskar pylsur, hitameðhöndlaðar pylsur, hitameðhöndlað kjöt, þurrkaðar/marineraðar/reyktar pylsur, þurrkað kjöt, paté, lifrarpylsur og blóðmör.

Fiskur & sjávarfang
Dæmi um vörur:
Heit- og kaldreyktur fiskur, grafinn fiskur, niðurlagður fiskur, þurrkaður fiskur, fiskipaté, fiskipylsur, þangpestó, fiski-, krabba, eða humarbollur.

Bakstur
Dæmi um vörur:
Súrdeigsbrauð úr rúgi eða hveiti, hrökkbrauð, sætabrauð (sætabrauð þar sem ger eða súrdeig er notað, t.d. sætt hveitibrauð og vínarbrauð).

Ber, ávextir og grænmeti
Dæmi um vörur:
Safi, glögg, nektar, klassísk sulta, krydduð sulta, klassískt marmelaði, kryddað marmelaði, hlaup,  chutney, súrsað grænmeti, sinnep.

Nýsköpun í matarhandverki
Matarhandverk óháð flokki. Varan þarf að vera nýstárleg að mati keppnishaldara. Sömu grundvallarreglur gilda eins og í öðrum flokkum.

Afhending vöru í keppni
Keppnisvöru skal afhenda keppnishöldurum í síðasta lagi degi fyrir keppni, þ.e. 12.11.2014. Afhenda skal tvö eintök af vörunni og skulu umbúðir vera heilar og óopnaðar. Eintakið sem ætlað er að meta í keppninni skal vera í ómerktum umbúðum þannig að það sé ekki hægt að rekja það til framleiðanda en innihaldslýsing skal fylgja. Annað eintak er ætlað til sýnis á matarmarkaði Búrsins sem haldin er 15 – 16. nóvember og skal það vera í merktum umbúðum og tilbúið til sýningar. Ef varan er ekki tilbúin til neyslu við afhendingu þurfa leiðbeiningar að fylgja um eldun/hitun/blöndun eða aðra meðferð sem þarf til að gera vöruna hæfa til neyslu.

Ekki er tekið við vörum sem ekki hafa verið skráðar í keppnina fyrir tilskilinn frest (06.11.2014) og greitt þátttökugjald fyrir 11.11.2014.

Allar frekari upplýsingar um keppnina og reglur um matarhandverk má fá með því að senda fyrirspurnir á netfangið gunna@matis.is.

matís logo