fbpx

Frumkvöðlasetrið FRUSS opnaði formlega á Selfossi fimmtudaginn 27. nóvember. Frumkvöðlasetrið er samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og SASS, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og er staðsett í húsakynnum SASS við Austurveg 56 á Selfossi.

Á frumkvöðlasetrinu geta frumkvöðlar fengið aðstöðu til að vinna að framgangi hugmynda sinn gegn vægu gjaldi. Einnig stendur þeim til boða aðstaða á öðrum starfsstöðvum SASS á Suðurlandi, sem og á öðrum frumkvöðlasetrum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Fyrir frumkvöðla og fyrirtæki er fjölbreytt þjónusta í boði svo sem handleiðsla, fagleg ráðgjöf og stuðningur frá sérfræðingum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, skapandi umhverfi, öflugt tengslanet og aðgangur að fræðsluneti Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Þá geta þeir nýtt sér aðgengi að Fab Lab smiðjum víðsvegar um landið, fengið aðstoð við leit að samstarfsaðilum erlendis og fengið aðstoð við markaðssetningu og ráðgjöf við umsóknaskrif.

„Það er von aðstandenda setursins að opnun þess verði til þess að frumkvöðlar á Suðurlandi nýti sér þjónustuna til fulls og komi á laggirnar verkefnum og fyrirtækjum sem í senn verði atvinnuskapandi og auðgandi fyrir samfélagið á Suðurlandi. Tækifærin liggja víða og má þar nefna aukinn ferðamannastraum um Suðurland, ýmsar nýjungar tengdar matvælaiðnaði, fullvinnslu og margt fleira. Hugmyndaríkir einstaklingar hafa nú aðstöðu til að framkvæma hugmyndir sínar með faglegum stuðningi og leiðsögn“ sagði Sigríður Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, við opnun FRUSS frumkvöðlaseturs í gær.

Hægt er að sækja um aðstöðu á setrinu hér

025 035 033  022 019037