fbpx

 

572. fundur stjórnar SASS

fjarfundur

3. september 2021, kl. 10:00 – 13:00

Þátttakendur: Ásgerður Kristín Gylfadóttir formaður, Lilja Einarsdóttir, Arna Ír Gunnarsdóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Helgi Kjartansson, Friðrik Sigurbjörnsson, Eva Björk Harðardóttir sem varamaður Einars Freyrs Elínarsonar og Brynhildur Jónsdóttir sem varamaður Ara Björns Thorarensen. Grétar Ingi Erlendsson forfallaðist. Hildur Jónsdóttir frá Sigurhæðum tekur þátt undir dagskrárlið 2 og Margrét Blöndal og Guðmundur Óli Gunnarsson frá Sinfóníhljómsveit Suðurlands undir dagskrárlið 3. Þá taka þátt Þórður Freyr Sigurðsson og Bjarni Guðmundsson framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritar fundargerð. Fundarmenn tengjast fundinum í gegnum fjarfundarhugbúnað.

1. Fundargerðir

Fundargerð 571. fundar staðfest og undirrituð.

2. Sigurhæðir

Hildur Jónsdóttir fyrirsvarsmaður verkefnisins Sigurhæða kynnir verkefnið sem gengur út á að samhæfa þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis í sunnlensku nærsamfélagi. Frumkvöðull að stofnun þess var Soroptimistaklúbbur Suðurlands og starfsemin hófst í mars sl. Samtökin eru aldargömul alþjóðleg samtök kvenna sem vinna að jafnrétti, mannréttindum, bættri stöðu kvenna og sjálfbærri þróun í heimabyggð, heimalandi og á alþjóðavettvangi. Sigurhæðir bjóða samhæfða ráðgjöf, stuðning og meðferð á forsendum þeirra sem þangað leita. Í boði er einstaklings- og hópmeðferð ásamt sérhæfðri áfallameðferð. Þá er lögregla til staðar innan Sigurhæða til að veita ráðgjöf og upplýsingar og sömuleiðis er lögfræðileg ráðgjöf í boði. Markþjálfun er einnig aðgengileg og loks fræðsla um eðli og afleiðingar ofbeldis. Konur búsettar á Suðurlandi og aðstandendur þeirra geta komið, hringt og pantað viðtöl til að fá stuðning, ráðgjöf og upplýsingar. Töluverð ásókn er í þjónustuna.

Sigurhæðir eru að leita eftir fjárhagsstuðningi samtakanna og sveitarfélaganna á Suðurlandi.

Formaður þakkar Hildi fyrir kynninguna. Niðurstaða stjórnar er að nánar verði fjallað um verkefnið í milliþinganefnd og á komandi ársþingi samtakanna.

3. Sinfóníuhljómsveit Suðurlands

Margrét Blöndal framkvæmdastjóri og Guðmundur Óli Gunnarsson stjórnandi sveitarinnar kynna verkefnið. Sinfóníuhljómsveit Suðurlands var stofnuð á haustdögum 2020. Guðmundur Óli kom að stofnun Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands fyrir 28 árum síðan og var stjórnandi hennar í 22 ár. Hljómsveitin hélt sína fyrstu tónleika 16. september 2020 og voru það grunnskólanemendur í Þorlákshöfn, Hveragerði og uppsveitum sem fengu að njóta þeirrar dagskrár sem boðið var uppá. Síðan hafa nokkrir tónleikar verið haldnir s.s. á Oddahátíðinni í sumar og framundan eru tónleikar í skólum á Suðurlandi.

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands er að leita eftir fjárhagsstuðningi samtakanna og sveitarfélaganna á Suðurlandi.

Formaður þakkar Margréti og Guðmundi Óla fyrir kynninguna. Niðurstaða stjórnar er að nánar verði fjallað um verkefnið í milliþinganefnd og á komandi ársþingi samtakanna.

4. Ársþing SASS 2021

a. Dagskrá ársþings og aðalfundar

Formaður kynnir uppfærð drög að dagskrá ársþings samtakanna sem fram fer á Stracta hótelinu á Hellu í Rangárþingi ytra 28. – 29. október nk. Áfram er unnið með að þema ársþingsins og áherslur verði Látum verkin tala. Framkvæmdastjóra falið að uppfæra dagskrá til samræmis við umræður á fundinum.

Lagt er til að fulltrúar Rangárþings ytra verði fundarstjórar á þinginu og að Rósa Sif Jónsdóttir, Sveitarfélaginu Árborg verði fundarritari og var það samþykkt.

Formaður fer einnig yfir undirbúning milliþinganefndar og hvað til umfjöllunar verður hjá þeim en formenn, þingfulltrúar og rágjafar á vegum SASS hafa verið skipaðir í nefndir.

b. Starfsskýrsla SASS 2020 – 2021

Er í vinnslu hjá starfsmönnum samtakanna.

c. Tillaga að launum stjórnar, ráða og nefnda

Gert er ráð fyrir að tillaga að launum stjórnar, ráða og nefnda á vegum SASS verði óbreytt frá fyrra ári. Stjórn samþykkir tillöguna.

d. Drög að fjárhagsáætlun SASS 2022

Framkvæmdastjóri kynnir að undirbúningur sé hafinn að gerð fjárhagsáætlunar samtakanna fyrir árið 2022. Farið yfir forsendur áætlunarinnar en stjórn SASS hefur töluverðar áhyggjur af að fjárframlög ríkisins til atvinnuráðgjafar fylgi ekki breytingu á launavísitölu en á árabilinu 2015 til 2021 hækkaði framlagið til SASS um 20% en á meðan hækkaði launavísitalan um 56%. Mismunurinn hjá SASS er í krónum talið 9 m.kr. Eðli málsins samkvæmt er minnkandi fjárframlag ríkisins áhyggjuefni og hefur neikvæð áhrif á getu samtakanna til að veita atvinnuráðgjöf á Suðurlandi.

Samþykkt að fela framkvæmdastjóra að leggja drög að fjárhagsáætlun 2022 fyrir næsta fund stjórnar. Fyrir þann fund verða einnig lagðar fram skýringar með fjárhagsáætlun.

5. Menningarverðlaun Suðurlands 2021

Stjórn SASS samþykkir að halda áfram veitingu Menningarverðlauna Suðurlands og skipar Magnús Karel Hannesson, Björk Grétarsdóttur og Dagný Huldu Jóhannsdóttur í valnefnd um úthlutun verðlauna 2021. Til vara eru Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Kristján Guðnason. Sigríður Lind Þorbjörnsdóttir hjá SASS verður nefndinni til aðstoðar.

6. Menntaverðlaun Suðurlands 2021

Stjórn SASS samþykkir að skipa Ingunni Jónsdóttur og Einar Frey Elínarson í samstarfshóp um úthlutun Menntaverðlauna Suðurlands 2021. Til vara er Arna Ír Gunnarsdóttir og Friðrik Sigurbjörnsson. Sigríður Lind Þorbjörnsdóttir hjá SASS verður nefndinni til aðstoðar.

7. Sóknaráætlun Suðurlands

Formaður, framkvæmdastjóri og sviðsstjóri kynna stöðuna. Formaður rifjar upp fjárhagsgrunn Sóknaráætlunar Suðurlands 2021. Með breyttri skiptareglu Sóknaráætlana, sem tók gildi 2020, lækkaði árlegt framlag SASS um tæplega 16 m.kr. frá 2019. Eðli málsins samkvæmt hefur lækkað framlag áhrif á hversu mikið Sóknaráætlun Suðurlands getur stutt við samfélagið í landshlutanum. Gerð var athugasemd við breytta skiptareglu þegar hún tók gildi en ekki var tekið tillit til ábendinga samtakanna. Sumarið 2020 þegar ríkið ákvað að veita auknu fjármagni til Sóknaráætlana var hins vegar ljóst að áhrif COVID-19 voru strax mikil á Suðurlandi enda varð tekjufallið hjá ferðaþjónustunni algjört í upphafi faraldursins. Af þeirri ástæðu m.a. fengu samtökin aukið fjárframlag frá ríkinu það ár. Á yfirstandandi ári kom einnig viðbótarframlag til landshlutasamtaka frá ríkinu. Þrátt fyrir það er framlag ríkisins til Sóknaráætlunar Suðurlands fyrir árið 2021, í krónum talið, að nálgast framlagið sem veitt var árið 2015.

Stjórn SASS áréttar mikilvægi Sóknaráætlunar Suðurlands fyrir sunnlenskt samfélag. Áhrif COVID-19 á ferðaþjónustuna í landshlutanum var algjört í upphafi faraldursins í mars 2020 og höggið var því mikið í landshlutanum. Tekið var tillit til þessara sérstöku aðstæðna sumar 2020 við úthlutun ríkisins á framlagi sínu til sóknaráætlana. Stjórn SASS telur forsendur skiptareglu frá 2019 brostnar og að nauðsynlegt sé að endurskoða regluna eða bæta við verulegu fjármagni til landshlutans líkt og gert var sumarið 2020 og 2021.

8. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerðir m.a. stjórna annarra landshlutasamtaka

Lagðar fram til kynningar, fundargerð 28. fundar stjórnar SSNE, fundargerð 770. fundar SSS og fundargerð 900. fundar stjórnar sambandsins.

b. Kynnisferð til Danmerkur

Formaður kynnir uppfærð drög að dagskrá fyrir kynnisferð sveitarstjórnarmanna á Suðurlandi til Danmerkur. Áfram er gert ráð fyrir að ferðin verði farin frá mánudeginum 15. til fimmtudagsins 18. nóvember nk. en þann 16. nóvember nk. fer fram kosning til
sveitarstjórna í Danmörku. Hafi COVID-19 ekki áhrif á ferðaáætlun mun dagskrá taka mið af kosningarundirbúningi í Danmörku.

c. Skýrsla framkvæmdarstjóra

Framkvæmdastjóri kynnir helstu verkefni í liðnum mánuði.

d. Fjármálaráðstefna sveitarfélaga

Formaður fer yfir skipulag komandi fjármálaráðstefnu sambandsins en ráðstefnan fer fram 7. – 8. október nk. á Nordica hótelinu. Gert er ráð fyrir að sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi hittist að kvöldi fimmtudagsins 7. október nk.

 

Næsti fundur stjórnar verður haldinn strax að aflokinni fjármálaráðstefnu sambandsins eða föstudaginn 8. október nk. kl. 14:00 á Nordica hótelinu.

 

Fundi slitið kl. 12:00.

 

Ásgerður Kristín Gylfadóttir

Helgi Kjartansson

Lilja Einarsdóttir

Einar Freyr Elínarson

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir

Friðrik Sigurbjörnsson

Arna Ír Gunnarsdóttir

Eva Björk Harðardóttir

Grétar Ingi Erlendsson

572. fundur stj. SASS