fbpx

422. fundur stjórnar SASS haldinn að Austurvegi 56, Selfossi fimmtudaginn 19. mars 2009 kl. 14.00

Mætt: Sveinn Pálsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Margrét Katrín Erlingdóttir, Guðmundur Þór Guðjónsson, Reynir Arnarson, Unnur Brá Konráðsdóttir Elliði Vignisson (í fjarfundasambandi) og Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

Dagskrá

1. Fundargerð Velferðarmálanefndar frá 19. janúar sl.

Fundargerðin staðfest.

2. Fundargerð Samgöngunefndar frá 30. janúar sl.

Stjórn SASS ítrekar þá stefnu samtakanna að öll leiðin frá Selfossi til Reykjavíkur verði tvöfölduð bæði vegna sívaxandi umferðar og aukins umferðaröryggis. Stjórn SASS minnir á að umrædd leið er hættulegasti vegarkaflinn í íslenska vegakerfinu þegar litið er til alvarlegara slysa undanfarna áratugi og engin samgönguframkvæmd brýnni. Samtals hafa orðið 870 umferðarslys og óhöpp á þessari leið á árabilinu 2002 til 2008, þar af 12 banaslys og 28 alvarleg slys. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga leggja gríðarlega áherslu á að stjórnvöld standi við markaða stefnu um tvöföldun vegarins.

Samþykkt að óska eftir fundi með samgönguráðherra um málið.

Fundargerðin staðfest.

3. Fundargerðir Fagráðs Sérdeildar Suðurlands frá 9. október og 15. janúar sl.

Til kynningar.

4. Bréf frá Sveitarfélaginu Ölfusi, dags. 2. mars 2009., um Suðvesturlínur ásamt umsögn til Skipulagsstofnunar.

Stjórn SASS tekur undir það sjónarmið Sveitarfélagsins Ölfuss að nýta beri orku sem framleidd er á Suðurlandi eins og kostur er í landshlutanum og brottflutningur hennar geti staðið í vegi fyrir uppbyggingu atvinnutækifæra á Suðurlandi. Stjórnin ítrekar í þessu sambandi ályktun Ársþings SASS sem haldið var í nóvember sl.:

,,Ársþing SASS 2008 telur í ljósi alvarlegs efnahagsástands enn meira áríðandi en nokkru sinni áður að standa vörð um sunnlenskt samfélag, sunnlenskt atvinnulíf og sunnlenskar auðlindir. Til að verja þessa mikilvægu, en viðkvæmu hagsmuni, lýsir ársþing SASS 2008 því yfir að ekki verði fallist á að sunnlensk orka verði nýtt til stóriðjuuppbyggingar utan landsfjórðungsins. Auðlindanýting og orkuframleiðsla á Suðurlandi krefst fórna, sem ekki er ásættanleg, nema með áþreifanlegum ávinningi fyrir sunnlenskt samfélag. Sunnlensk auðlindanýting á að leysa úr læðingi sunnlenskt frumkvæði og verða segull nýrra hugmynda og fjármagns til að hlúa að, efla og byggja upp sunnlenskt atvinnulíf.“

5. Bréf frá undirbúningshópi Starfsendurhæfingar Suðurlands, dags. 15. febrúar 2009, þar sem óskað er styrks vegna stofnunar Starfsendurhæfingarinnar.

Samþykkt að óska eftir frekari upplýsingum áður en afstaða er tekin.

6. Bréf frá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra Suðurlandi, dags. 16. febrúar 2009, þar sem óskað er tilnefningar SASS á fulltrúa í Svæðisráð Suðurlands.

Samþykkt var að tilnefna Grím Hergeirsson í svæðisráðið.

7. Ný vegaskrá.

a. Minnisblöð frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

b. Upplýsingar frá Vegagerðinni.

c. Bréf frá Grímsnes- og Grafningshreppi, dags 19. febrúar 2009, um nýja vegaskrá og snjómokstur á tengi- og héraðsvegum, ásamt fylgiskjölum.

Stjórn SASS leggur til að gildistöku nýrrar vegaskrár verði frestað þar til kostnaðarmat hefur farið fram og samkomulag við sveitarfélögin liggur fyrir.

8. Bréf frá formanni Samgönguráðs Degi B. Eggertssyni, dags. 3. mars 2009,um fundi með sveitarfélögum, ásamt minnisblaði.

Fundur fyrir Suðurland verður haldinn 2. apríl nk.

9. Sameining heilbrigðisstofnana.

a. Afrit af bréfi Sveitarfélagsins Hornafjarðar, dags. 14. janúar 2009, til Heilbrigðisráðuneytisins varðandi áform um sameiningu heilbrigðisstofnana.

b. Afrit af bréfi Eyglóar Harðardóttur alþingismanns, dags. 12. febrúar 2009.

c. Skipan nefndar um samhæfingu starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Landspítala.

Framkvæmdastjóri sagði frá starfi nefndar sbr. lið c. Stjórn SASS ítrekar afstöðu sín frá 9. janúar sl. þar sem lýst var andstöðu við sameiningaráformin og ekki síður þá skerðingu á þjónustu sem fyrirhuguð er skv. tillögum Heilbrigðisráðuneytisins. Stjórnin lýsir sérstökum áhyggjum vegna fyrirhugðar skerðingar á sjúkraflutningum sem er ein af grunnstoðum í öryggisþjónustu fyrir íbúa svæðisins.

10. Afrit af bréfi Flóahrepps, dags, 27. janúar 2009, til Vegagerðarinnar um tengivegi í Flóahreppi.

Stjórn SASS tekur undir sjónarmið Flóahrepps um nauðsyn úrbóta á tengivegum í Flóahreppi sem og annars staðar á Suðurlandi.

11. Ársreikningur SASS.

Til kynningar.

12. Endurskoðun fjárhagsáætlunar.

Fjárhagsnefnd hefur ekki lokið störfum en boðað verður til fundar með formönnum stjórna í næstu viku og álit nefndarinnar kynnt.

13. ART verkefni, drög að samningi.

Framkvæmdastjóri gerði grein fyrir málinu. Stjórnvöldum hefur ekki verið kynnt fyrirliggjandi tillaga. Stjórn SASS lýsir sig samþykka tillögunni.

14. Endurnýjun menningarsamnings.

Óskað hefur verið eftir endurnýjun samningsins og jafnframt hefur Sveitarfélagið Hornafjörður óskað eftir viðræðum við menntamálaráðuneytið um tilfærslu úr menningarsamningi Austurlands yfir í menningarsamning Suðurlands. Fundur um þessi mál verður haldinn með fulltrúum ráðuneytisins í lok þessa mánaðar.

15. Erindi frá Alþingi þar sem óskað er umsagnar um eftirfarandi þingmál:

a. Frumvarp til laga um endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES samninginn. 258. mál.

Stjórn SASS leggst gegn samþykkt frumvarpsins þar sem ekki hefur verið metinn kostnaður sveitarfélaganna af þeim breytingum sem það hefur í för með sér. Flest bendir þó til að kostnaður sveitarfélaganna muni aukast vegna þess að heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna eru falin ný verkefni án þess að þeim sé bættur sá kostnaðarauki sem af því hlýst. Jafnframt leiða breytingarnar til aukinnar skörunar eftirlits Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga sem mun hafa aukinn kostnað í för með sér fyrir fyrirtækin sem í hlut eiga og hið opinbera eftirlit.

b. Tillaga til þingssályktunar um breytta skipan gjaldmiðilsmála, 178. mál.

Lagt fram.

c. Frumvarp til laga um rannsóknarnefnd til að gera úttekt á fiskveiðiheimildum, 21. mál.

Lagt fram.

d. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húsitunarkostnaðar, 397. mál.

Mælt er með samþykkt frumvarpsins, en bent á að þörf er á áframhaldandi stofnstyrkjum til nýrra hitaveitna og jarðhitaleitar.

16. Efni til kynningar.

a. Fundargerðir og annað efni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

b. Efni frá landshlutasamtökunum.

Fundi slitið kl. 16.10

Sveinn Pálsson
Sigurður Ingi Jóhannsson
Elliði Vignisson
Margrét K. Erlingsdóttir
Guðmundur Þór Guðjónsson
Reynir Arnarson
Unnur Brá Konráðsdóttir
Þorvarður Hjaltason