fbpx

Á ársþingi samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldið var á Hótel Geysi 24.-25. október var Kirkjubæjarstofu á Kirkjubæjarklaustri veitt Menningarverðlaun Suðurlands 2019. Verðlaunin eru samfélags- og hvatningarverðlaun á sviði menningar á Suðurlandi. Um er að ræða fyrstu  menningarverðlaunin sem samtökin veita í þessari mynd, sem ná þvert yfir allan landshlutann.

Það voru alls 19 tilnefningar sem bárust af öllu Suðurlandi, mikil breidd var í tilnefningunum og í gæðum þeirra.

Helgi Kjartansson oddviti Bláskógabyggðar og varaformaður stjórnar SASS afhenti Ólafíu Jakobsdóttur forstöðumanns Kirkjubæjarstofu menningarverðlaun Suðurlands 2019

Í umsögn dómnefndar kemur fram að Kirkjubæjarstofa hefur unnið markvisst að eflingu Kirkjubæjarstofu með fjölbreyttum menningarverkefnum sem eru eins ólík eins og þau eru mörg. Kirkjubæjarstofa hefur auðnast að sinna menningarhluta starfseminnar einstaklega vel þar sem stuðlað er að þátttöku íbúa og gesta meðal annars með fjölbreyttum sýningum og verkefnum. Mörg þeirra eru nýjungar og má þar nefna verndun menningarminja í formi söfnunar á ljósmyndum, þjóðsögum, örnefnum og skrásetningu þeirra. Framsetning afurða þeirrar vinnu hefur verið fjölbreytt, ýmist í formi heimasíðu, bókaútgáfu eða í formi ráðstefna. Þannig hefur Kikjubæjarstofa hefur einnig staðið að fjölda ráðstefna og málþinga undanfarin ár sem vakið hafa athygli og eftirtekt. Kirkjubæjarstofa hefur jafnframt lagt áherslu á menningu hjá börnum og ungmennum og tengt saman kynslóðir af mismunandi uppruna.  

Ólafía Jakobsdóttir tók á móti verðlaununum en hún er forstöðumaður Kirkjubæjarstofu og hefur verið það frá árinu 2003. Verðlaunin eru 300 þúsund krónur sem skulu fara í menningarverkefni á vegum Kirkjubæjarstofu. Hjá Kirkjubæjarstofu starfa fjórir starfsmenn. Kirkjubæjarstofa hefur ásamt fleirum unnið markvisst að því að koma á fót þekkingarsetri á Kirkjubæjarklaustri.Nú hefur verið úthlutað fjármagni úr Byggðaáætlun 2018-2024 samtals kr. 67.500.000.- á næstu þremur árum til þess verkefnis. Þekkingarsetrinu er ætla að vera öflugur vettvangur Kirkjubæjarstofu, Erróseturs, sveitarfélagsins Skaftárhrepps og margra aðila sem koma til með að sinna rannsóknum, fræðslu, listsköpun og menningu og stuðla að eflingu búsetu og atvinnulífs á svæðinu.