fbpx

550. fundur stjórnar SASS 
Haldinn á Hótel Geysi í Bláskógabyggð 
23. október 2019, kl. 18:00 – 21:00 
 

Mætt: Eva Björk Harðardóttir, formaður, Björk Grétarsdóttir, Grétar Ingi Erlendsson, Ari Björn Thorarensen, Ásgerður K. Gylfadóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Helgi Kjartansson og Brynhildur Jónsdóttir sem varamaður Örnu og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir sem varamaður Friðriks. Friðrik Sigurbjörnsson og Arna Ír Gunnarsdóttir boðuðu forföll. Einnig sat fundinn Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritaði fundargerð.

Formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna á fund stjórnar á Hótel Geysi.

.1. Fundargerðir

Fundargerð 549. fundar undirrituð.

2. Drög að dagskrá ársþings og aðalfundar SASS

a. Dagskrá ársþings og aðalfundar

Formaður og framkvæmdastjóri kynntu lokadrög að dagskrá komandi árþings og aðalfundar SASS sem fram fer á morgun. Stjórn staðfesti dagskrárnar.

b. Skipan þingfulltúa í starfsnefndir ársþingsins

Farið yfir verklag starfsnefndanna og hvað helst yrði til umræðu hjá nefndunum.
Eftirtaldir skipaðir til að leiða starfsnefndir ársþingsins:

  • Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, formaður fjárhagsnefndar
  • Ari Björn Thorarensen, formaður allsherjarnefndar
  • Einar Freyr Elínarson, formaður mennta- og menningarmálanefndar
  • Björk Grétarsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsnefndar
  • Lilja Einarsdóttir, formaður velferðarnefndar
  • Grétar Ingi Erlendsson, formaður atvinnumálanefndar
  • Sæmundur Helgason, formaður samgöngunefndar

Aldís Hafsteinsdóttir er formaður kjörbréfa- og kjörnefndar og var hún kosin á síðasta aðalfundi.
Stjórn skipaði þingfulltrúa í starfsnefndir ársþingsins.

3. Önnur mál til kynningar og umræðu

a. Fundargerðir stjórna annarra landshlutasamtaka, stýrihópsins og sambandsins

Lagðar fram til kynningar eftirfarandi fundargerðir: 325. fundar stjórnar Eyþings, 48. fundar stjórnar SSV, 477. fundar stjórnar SSH, 55. fundar stýrihóps Stjórnarráðsins, 5. fundar byggðamálaráðs og 874. fundar stjórnar sambandsins.

b. Umsögn SASS um fjárlagafrumvarp Alþingis 2020

Formaður kynnti umsögn um fjáralagafrumvarpið sem send hafði verið á nefndarsvið Alþingis. Hún sagði líka frá fundi sem hún og framkvæmdastjóri áttu með fjárlaganefnd Alþingis fyrr í dag en á þeim fundi var umsögnin til umræðu.

c. Sóknaráætlun Suðurlands

a. Samningsdrög 2020 – 2024

Formaður og framkvæmdastjóri kynntu drög að samningi um Sóknaráætlun Suðurlands 2020 – 2024.
Formanni og framkvæmdastjóra falið að undirrita samninginn.

b. Skipting grunnframlaga ríkisins til sóknaráætlana landshluta 2020-2024

Formaður og framkvæmdastjóri kynntu niðurstöðu starfshóps stýrihóps Stjórnarráðsins um skiptingu fjármuna til sóknaráætlana landshluta 2020-2024.
Ljóst er samkvæmt nýrri skiptireglu að framlag SASS lækkar um 15,8 m.kr. frá yfirstandandi ári eða um 13,2%. Framlagið m.v. núverandi samning nær ekki að fylgja verðlagsþróun ef miðað er við breytingu á neysluverðsvísitölu frá janúar 2015 til ágúst 2019. Á sama tíma hefur framlag sveitarfélaganna á Suðurlandi til samningsins aukist um ríflega 70%.
Sóknaráætlanir landshlutanna gegna mikilvægu hlutverki við að mæta þeim áskorunum og nýta þau sóknarfæri sem til staðar eru í landshlutunum. Stjórn fagnar að framhald verði á verkefninu. Það veldur stjórn SASS hins vegar töluverðum vonbrigðum að ríkið sé að lækka framlag sitt til sóknaráætlana og að framlagið til Suðurlands sé skert um 13,2% frá yfirstandandi ári.
Stjórn felur formanni og framkvæmdastjóra að yfirfara fyrirliggjandi skiptireglu og ósak eftir að breyting verði gerð á henni.

d. Landfræðilegt og efnahagslegt litróf garðyrkju á Íslandi

Formaður kynnti nýútkomna skýrslu Vífils Karssonar, ráðgjafa hjá SSV, sem ber heitið Landfræðilegt og efnahagslegt litróf garðyrkju á Íslandi.
Meðal niðurstaðna er að rekstrartekjur garðyrkju á Íslandi voru 6,1 ma.kr. árið 2017 á meðan þær voru 73,2 ma.kr. í öllum landbúnaði á Íslandi. Tekjurnar höfðu aukist um 800 m.kr. á tímabilinu 2008-2017 eða 13% að raungildi en 13 ma.kr. í öllum landbúnaði. Sé horft til skiptingar rekstrartekna eftir landshlutum er garðyrkja stærst á Suðurlandi eða um 67% og næst stærst á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum ef þeim var slegið saman eða 14% og Norðurlandi eystra eða 9%. Minnst er hún 1% á Norðurlandi vestra.
Þegar horft var til vægis garðyrkju innan hvers landshluta kom í ljós að hún var mikilvægust á Suðurlandi þar sem hún vó 1,5% af verðmætasköpun landshlutans og 0,2% á Norðurlandi eystra þar sem hún var næst í röðinni. Á þennan hátt hefur hún minnstu þýðingu á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Atvinnugreinin virðist standa vel og eiga góð tækifæri til vaxtar.
Markmið og viðfangsefni skýrslunnar er að veita yfirlit yfir umfang garðyrkju í einstaka landshlutum á Íslandi en þó með áherslu á hlut Suðurlands. Aukinn innflutningur, áskoranir í umhverfismálum, umræða um orkumál og samningar á starfsskilyrðum ýmissa búgreina voru meðal ástæðna þess að ráðist var í skýrslugerðina.
Skýrslan var unnin fyrir Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi og hluti af ritröðinni Deigla.
Stjórn SASS fagnar útkomu skýrslunnar.

e. Haustfundur formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna

Formaður sagði frá fundi formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtakanna sem haldinn var 2. október sl. og frá fundi sem landshlutasamtökin héldu með stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga en sá fundur var haldinn 4. október sl. Báðir fundirnir voru haldnir á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík í sömu viku og fjármálaráðstefna Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldin.

f. Ráðstefna í Brussel

Formaður sagði frá ráðstefnu eða Evrópuviku svæða og borga sem hún sótti í Brussel 7.-10. október sl. Yfirskriftin í ár er Svæði og borgir: Grunnstoðir fyrir framtíð Evrópu. Fulltrúar borga, svæða, sveitarfélaga, atvinnulífs, alþjóðastofnana og háskóla stóðu að rúmlega 150 viðburðum þar sem m.a. var fjallað um hlutverk svæða og borga; sniðugri Evrópa; Evrópa færð nær fólkinu; Grænni Evrópa og Evrópa fyrir alla.

Næsti fundur stjórnar verður föstudaginn 29. nóvember nk. kl. 13:00 að Austurvegi 56 Selfossi.

Fundi slitið kl. 19:50.

Eva Björk Harðardóttir
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir
Björk Grétarsdóttir
Ari Björn Thorarensen
Grétar Ingi Erlendsson
Helgi Kjartansson
Ásgerður K. Gylfadóttir
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Brynhildur Jónsdóttir