fbpx

SAMTÖK SUNNLENSKRA SVEITARFÉLAGA

530. fundur stjórnar SASS
Haldinn að Austurvegi 56, Selfossi
2. mars 2018, kl. 12:00-15:00

Mætt: Gunnar Þorgeirsson formaður, Unnur Þormóðsdóttir, Eva Björk Harðardóttir, Sandra Dís Hafþórsdóttir, Anna Björg Níelsdóttir, Sæmundur Helgason, Ari Thorarensen og Lilja Einarsdóttir. Páll Marvin Jónsson tengdist fundinum með fjarfundabúnaði. Eggert Valur Guðmundsson forfallaðist. Einnig sat fundinn Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, sem jafnframt ritaði fundargerð.

Formaður bauð fundarmenn velkomna á fund stjórnar.

  1. Fundargerð
    Fundargerð 529. fundar undirrituð. 
  1. Almenningssamgöngur
    Framkvæmdastjóri lagði fram og fór yfir minnisblað sem hann, Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður Eyþings og Páll S. Brynjarsson framkvæmdastjóri SSV tóku saman að beiðni landshlutasamtakanna. Í því er fjallað um forsendur þess að landshlutasamtökin sjái áfram um almenningssamgöngur á landsbyggðinni eftir að samningar við Vegagerðina renna út í árslok 2018. Farið er yfir aðdraganda þess að landshlutasamtökin tóku verkefnið að sér, hvernig til hefur tekist á undangengnum árum og hvað sé til ráða varaðandi framhaldið.

    Starfshópurinn lagði fram þrjár tillögur um næstu skref:
    – Að landshlutasamtökin segi upp samningum sínum við Vegagerðina fyrir 31. mars 2018.
    – Að landshlutasamtökin óski eftir viðræðum við Vegagerðina um uppgjör vegna þessa verkefnis sem hafi það að markmið að þau fari skuldlaus frá borði í árslok 2018.
    – Að landshlutasamtökin lýsi sig reiðubúin til viðræðna við Vegagerðina og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið um framhald verkefnisins eftir árið 2018 ef forsendur þess og fjárveitingar verði endurskoðaðar. Samhliða þessari vinnu yrði kannað hvort grundvöllur sé til að stofnað verði sérstakt fyrirtæki um rekstur Strætó á landsbyggðinni.

    Stjórn SASS tekur undir sjónarmið starfshópsins og tillögur um næstu skref. Hún samþykkir framangreindar tillögur samhljóða og felur framkvæmdastjóra að segja samningnum við Vegagerðina upp og undirbúa uppgjör fyrir liðið tímabil. Stjórn SASS lýsir sig reiðubúna til viðræðna við Vegagerðina um framhald verkefnisins að því gefnu að fjármagn til verkefnisins verði tryggt.

    Stjórn fagnaði hugmynd um að landshlutasamtökin héldu opið málþing um almenningssamgöngur en fáir efast um mikilvægi þeirra í byggðaþróun.

    Farið var yfir erindi bæjarráðs Hveragerðisbæjar frá 22. febrúar sl. en vegna tíðra lokana á Hellisheiði það sem af er ári hefur akstur á milli Hveragerðis og Selfoss fallið niður þrátt fyrir að fært sé þar á milli. Framkvæmdastjóra falið að far yfir málið með Strætó og akstursaðila.

  1. Orkunýtingarstefna SASS
    Á ársþingi SASS í október sl. var samþykkt að vísa tillögu orkunýtingarnefndar SASS til umsagnar hjá aðildarsveitarfélögunum. Öll sveitarfélögin hafa nú lokið umfjöllun sinni og samþykkt stefnuna fyrir sitt leyti.
    Formanni og framkvæmdastjóra falið að birta stefnuna og koma henni á framfæri við hagaðila.
  1. Samantekt á íbúakönnunum í landshlutunum
    Vífill Karlsson ráðgjafi hjá SSV og dósent við Háskólann á Akureyri hefur á undanförnum árum framkvæmt íbúakönnun meðal íbúa á ákveðnum svæðum á Íslandi. Hann hefur nú tekið saman skýrslu um stöðu og mikilvægi búsetuskilyrða 19 landsvæða á landsbyggðunum sem ná allt frá Hornafirði í austri að Skagafirði í norðri. Drög að skýrslunni voru lögð fram á fundinum og kallað var eftir ábendingum um það sem betur má fara. Skýrslan verður fljótlega gefin út.
  1. Umsagnarbeiðnir frá Alþingi
    a) Umsögn um frumvarp til laga um helgidagafrið, 134. mál.
    Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0206.html
    Lagt fram til kynningar.

    b) Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, 179. mál.
    Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0253.html
    Stjórn SASS tekur undir nauðsyn þess að uppbygging flutningskerfis raforku sé mikilvæg forsenda í atvinnu- og byggðaþróun svo ekki sé talað um orkuöryggi í dreifðum byggðum. Stjórn SASS varar hins vegar við þröngu orðalagi í grein 4. en þar kemur m.a. fram „Ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið.“ Með framangreindu orðalagi telur stjórnin að lokað sé á þann möguleika að lína verði lögð í jörð yfir hálendið en auk þess er orðið „hálendi“ óskilgreint.

    c) Umsögn um frumvarp til sveitarstjórnarlaga (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn), 190. mál.
    Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0264.html
    Lagt fram til kynningar.

    d) Umsögn um frumvarp til laga um búvörulög og búnaðarlög (undanþágur frá ákvæðum samkeppnislaga, verðjöfnunargjöld o.fl.), 64. mál.
    Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0066.html
    Lagt fram til kynningar.

    e) Umsögn um tillögu til þingsályktunar um samræmingu verklags um fjarfundi á vegum ráðuneyta, 45. mál.
    Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0045.html
    Stjórn SASS tekur undir mikilvægi fjarfunda í rafrænni stjórnsýslu.

    f) Umsögn um tillögu til þingsályktunar um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir, 52. mál.
    Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0054.html

    Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) fagnar framkominni þingsályktun um að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að móta eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir í samvinnu við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.

    Stjórn SASS tekur undir nauðsyn þess að ríkið setji sér eigendastefnu. Það að ríkið hafi ekki sett sér stefnu í málaflokknum hefur staðið í vegi fyrir eðlilegri framþróun landbúnaðar í þeim sveitum þar sem jarðir í eigu ríkisins eru margar. Þetta hefur m.a. birtist í því að góðar bújarðir sem losna úr ábúð eru ekki byggðar aftur og að ábúendur ríkisjarða fá ekki heimild landeigenda til eðlilegrar uppbyggingar sinna bújarða til að mæta auknum kröfum samtímans. Framangreint hefur í för með sér að landbúnaður á þessum jörðum dregst aftur úr hvað mögulega framþróun snertir. Versta birtingarmyndin er sú að bújarðir sem losnað hafa úr ábúð standi ónýttar og séu í niðurníðslu og það hefur slæm áhrif á nærsamfélagið.

    g) Umsögn um tillögu til þingsályktunar um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll, 149. mál.
    Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0222.html
    Stjórn SASS tekur undir framkomna tillögu til þingsályktunar um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll. Stjórn leggur áherslu á að þingsályktunartillagan verði tekin til afgreiðslu og samþykkt. Stjórn tekur undir með bæjarráði Sveitarfélagsins Hornafjarðar um mikilvægi þess að minni vélum í millilandaflugi og ferjuflugi verði veitt heimild til að lenda á Hornafjarðarflugvelli. Slíkt mundi efla atvinnulíf í landshlutanum auk þess að auka öryggi í flugi yfir landið.

    h) Umsögn um frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof (lenging fæðingarorlofs), 98. mál.
    Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0166.html
    Lagt fram til kynningar.

    i) Umsögn um frumvarp til laga um raforkulög og stofnun Landsnets hf. (ýmsar breytingar), 115. mál.
    Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0184.html
    Stjórn SASS leggur til að höfuðstöðvar Landsnets hf. verði fluttar á starfssvæði samtakanna á Suðurlandi.

    j) Umsögn um frumvarp til laga um brottfall laga um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, 138. mál.
    Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0210.html
    Lagt fram til kynningar.

    k) Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á mannvirkjalögum, 185. mál.
    Þingskjal: http://www.althingi.is/altext/148/s/0259.html
    Framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga sendi erindi á sveitarstjórnir 28. febrúar sl. Þar hvetur hann sveitarfélög til að fjalla um breytingar á mannvirkjalögum og taka málið upp til formlegrar umfjöllunar. Þegar fyrir liggi á hverjum stað hvernig bregðast eigi við verði upplýsingar sendar til sambandsins.

    Stjórnin tekur undir mikilvægi þess að hvert og eitt sveitarfélag taki frumvarpið til umfjöllunar í sveitarstjórn og með byggingar- og skipulagsfulltrúum. Að óbreyttu tekur ákvæðið um faggildingu byggingarfulltrúa gildi 1. janúar 2019. Frá þeim tíma þurfa sveitarfélög að hafa faggiltan aðila í starfi til að sinna þessu eða fá utanaðkomandi aðila til þess s.s. hjá löggildingarstofnum. Ljóst er að tilkostnaður sveitarfélaga og/eða byggingaraðila eykst við þetta. Stjórn SASS telur að fresta eigi gildistöku ákvæðisins um faggildinu um óákveðinn tíma.

    Stjórn SASS ítrekar hvatningu til sveitarfélaga um að svara sambandinu og að senda umsögn sína til umhverfis- og samgöngunefndar þingsins.

  1. Önnur mál til kynningar og umræðu
    a) Fundargerðir annarra landshlutasamtaka

    Lagðar fram til kynningar, fundargerð Eyþings frá 26. janúar sl., fundargerð stýrihóps stjórnarráðsins um byggðamál 22. janúar sl. og fundargerð stjórnar Sambandsins frá 23. febrúar sl.

    b) Brú lífeyrissjóður – uppgjör vegna breytinga á A deild
    Framkvæmdastjóri kynnti að sveitarfélögin hefðu gert upp við samtökun og þau síðan við Brú lífeyrissjóð.

    Lögð var fram til kynningar bókun Sveitarstjórn Rangárþings ytra en hún hljóðar svo: „Staðfest uppgjör liggur fyrir frá SASS og hlutur Rangárþings ytra fyrir SASS og undirverkefni auk Heilbrigðiseftirlits Suðurlands er 4.663.891 kr. Óskað er eftir að sveitarfélögin geri upp beint til SASS sem sér um að afgreiða málið gagnvart Brú lífeyrissjóði. Sveitarstjórn vill benda stjórn SASS á að skv. fundargerð stjórnar HES er lagt upp með að HES taki lán fyrir sínum hlut. Vísað er til afgreiðslu málsins undir lið 17.“

    c) Uppbyggingarsjóður Suðurlands
    Auglýst hefur verið eftir umsóknum í fyrri úthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands og er umsóknarfrestur til 13. mars nk. Auglýsingarnar hafa verið birtar í héraðsblöðum, á samfélagsmiðlum og heimasíðu SASS. Auk þess hefur bæklingur verið gerður til að kynna sjóðinn.

    d) Orkugerðin
    Bókun sveitarstjórnar Flóhrepps frá 7. febrúar sl. varðandi Orkugerðina í Hraungerði lögð fram til kynningar.

    e) Fjárhagur SASS
    Framkvæmdastjóri fór yfir fjármál SASS en tap var á rekstri almenningssamgangna á liðnu ári er farið að hafa áhrif á sjóðflæði samtakanna.

    f) Viðaukasamningur við Háskólafélag Suðurlands og Markaðsstofu Suðurlands
    Framkvæmdastjóri kynnt viðaukasamninga við Háskólafélag Suðurlands fyrir árið 2018 að fjárhæð 5 m.kr. og sambærilegan samning við Markaðsstofu Suðurlands að fjárhæð 2 m.kr.

    g) Dagskrá fundar sveitarstjórna með þingmönnum Suðurkjördæmis
    Drög að dagskrá fundar sveitarstjórna á Suðurlandi með þingmönnum Suðurkjördæmis lögð fram til kynningar en fundurinn verður haldinn 7. mars nk.

    h) Fundur með heilbrigðisráðherra og félags- og jafnréttismálaráðherra
    Formaður fór yfir helstu áhersluatriði sem fulltrúar SASS kynntu annars vegar á fundi með heilbrigðisráðherra og hins vegar félags- og jafnréttismálaráðherra.

    i) Hugmyndasamkeppni um nýtingu á varmaorku á Suðurlandi
    Formaður kynnti helstu dagsetningar í tengslum við hugmyndasamkeppni um nýtingu á varmaorku á Suðurlandi. Opnað verður fyrir möguleika á að skila inn tillögum 9. mars, skilafrestur er til 17. apríl og að verðlaunaafhending verði 24. maí nk.

Næsti fundur stjórnar verður haldinn á Selfossi föstudaginn 6. apríl nk. kl. 12:00 – 15:00.

Fundi slitið kl. 15:15.

Gunnar Þorgeirsson
Unnur Þormóðsdóttir
Eva Björk Harðardóttir
Sandra Dís Hafþórsdóttir
Sæmundur Helgason
Anna Björg Níelsdóttir
Ari Thorarensen
Lilja Einarsdóttir
Páll Marvin Jónsson
Bjarni Guðmundsson

530. fundur stjórnar SASS