fbpx

Lýsing

Verkefnið er að gera fræðsluefni og skemmtun fyrir börn sem heimsækja gestastofur þjóðgarðsins á Kirkjubæjarklaustri. Gerð var stutt gestagata/göngugata með stöðvum þar sem ungir gögnugarpar geta leyst þrautir við hæfi. Við götuna verða leikmunir tengdir jarðsögunni: landreki, eldgosum og landnámi dýra. Einnig voru gerð kort og merkingar við götuna. Til stendur að gera sambærilegt verkefni við gestastofuna á Höfn sem tengist jöklinum og umhverfi. Stefnt er að því að hafa texta einnig á ensku fyrir erlenda gesti og skólahópa.

Markhópur

Markhópur gestagötunnar sem nú hefur fengið nafnið „Leikum með landið“ er grunnskólabörn frá 8 til 16 ára. Í almenna hluta Aðalnámskrár grunnskóla 2011 segir: „Umhverfið og þar með náttúran umlykur allt mannlegt samfélag. Sjálfbær þróun getur ekki átt sér stað nema innan þeirra takmarka sem vistkerfi jarðar setur okkur. Þannig þurfa nemendur að þekkja, skilja og virða náttúruna, bæði vegna sjálfgildis hennar og þeirrar þjónustu sem hún innir af hendi við mannfólkið. Umhverfisvernd, lofstlagsbreytingar og lífbreytileiki er dæmi um úrlausnarefni.“ (bls 18). Settar verða upp 6 stöðvar við stíginn. Sú fyrsta kynnir flekakenninguna og bendir á tilurð Íslands. Næsta stöð kynnir landrekið og tengir það við Eldgjá. Þriðja stöðin setur upp áhrif eldgosa og náttúrunnar á líf fólks með skemmtilegu slönguspili þar sem nemandinn sjálfur er peð og er velgengni hans í spilinu háð duttlungum náttúrunnar sem í þessu tilfelli er einfaldur spilateningur. Fjórða stöðin tengir jökla, jökulár og jökulhlaup þar sem nemendur framkalla jökulhlaup með því að bera vatn á líkan af jökli sem síðan lyftist svo vatnið rennur undan honum. Sú fimmta fer í landnám dýra eftir ísöld og útdauða einnar tegundar, geirfuglsins. Loks er sjötta þrautin sem lýsir hvernig jarðlagastafli getur myndað há fjöll eins og Lómagnúp, Hægt verður að púsla saman berglögunum í Lómagnúp og taka í sundur og ofan í hvert þeirra eru teiknaðar gróðurleifar sem ímyndaðir steingerfingar.. Þessi verkefni tengjast ýmsum hæfniviðmiðum aðalnámskrárinnar fyrir náttúrugreinar svo sem „…[getur nemandi] gert sér grein fyrir hvernig maðurinn er hluti af náttúrunni og lífsafkoma hans byggist á samspilinu við hana“ (bls 170).

Afurð og ávinningur

Stígurinn nýtist nemendum og öðrum sem heimsækja gestastofuna og eykst skilningur þeirra á ýmsum jarðfræðilegum þáttum auk skemmtanagildis. Í gestastofunni sjálfri er sýningin Mosar um Mosa frá Mosum til Mosa en hún fjallar um mosa og landnám mosa á nýrunnum hraunum. Í gestastofunni er einnig sýnd heimildarmyndin Eldmessan. Hvorutveggja er hugsað fyrir fullorðna einstaklinga en með því að setja upp leikmuni fyrir börn er auðveldara að vekja áhuga á efninu og tengja efni gestagötunnar við sýninguna innandyra. Landverðir sem starfa í gestastofunni munu einnig nýta stíginn í fræðslugöngum sínum.

Skaftárstofa, gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs

Verkefnastjóri: Jóna Björk Jónsdóttir
Tövlupóstur: jonabjork@vjp.is
Heimasíðan: vatnajokulsthjodgardur.is
Simi: 4700402

Hvert og eitt safn kynnti verkefni sín á sameiginlegri kynningu 31. maí 2018 og má finna öll kynningarmyndböndin hér.