fbpx

soknaraaetlunHvað er sóknaráætlun Suðurlands?
Sóknaráætlun Suðurlands er sértæk byggðaáætlun fyrir Suðurland og jafnframt samheiti yfir samning landshlutasamtakanna við hið opinbera um fjármögnun sóknaráætlunar og Uppbyggingarsjóðs Suðurlands. Sóknaráætlun Suðurlands byggir á lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta nr. 69/2015.

Hvaða málefni eru tekin fyrir í sóknaráætlun Suðurlands?
Málefnasviðin eru eftirfarandi en landshlutasamtökum er í sjálfsvald sett hvort þau séu fleiri en þau geta ekki verið færri en eftirfarandi:
• Atvinnuþróun og nýsköpun
• Menntamál, mannauður og lýðfræðileg þróun svæða
• Menningarmál

Hver er aðkoma sveitarfélaga að sóknaráætlun Suðurlands?
Sveitarfélögin á Suðurlandi hafa öll tilnefnt fulltrúa í samráðsvettvang sóknaráætlunar sem saman stendur af 40 fulltrúum alls frá samtals 15 sveitarfélögum á Suðurlandi. Samráðsvettvangurinn er stefnumarkandi fyrir gerð sóknaráætlunar og hefur m.a. komið að mótun framtíðarsýnar, megin áherslna og markmiða sóknaráætlunar. Einnig hefur samráðsvettvangurinn komið að tillögugerð áhersluverkefna. Samráðsvettvangurinn kemur saman að lágmarki einu sinni á ári.

Hver er aðkoma almennings að sóknaráætlun Suðurlands?
Allir geta sent inn tillögu að áhersluverkefni á vegum sóknaráætlunar. Tillagan er send í gegnum vef SASS (www.sass.is). Tillagan kemur þá fyrir augum verkefnastjórnar sóknaráætlunar sem tekur afstöðu til hennar. Innsendar hugmyndir eða tillögur geta verið nýttar að hluta eða í heild.

Hvað eru áhersluverkefni?
Áhersluverkefni eru verkefni á vegum sóknaráætlunar, sem ákveðið er að hrinda í framkvæmd til að uppfylla markmið landshlutans á því málefnasviði.

Hver velur áhersluverkefni sóknaráætlunar Suðurlands?
Stjórn SASS skipar verkefnastjórn sóknaráætlunar sem fer fyrir verkefninu. Verkefnastjórnin velur verkefnin sem þurfa að falla að stefnumörkun landshlutans en stjórn SASS og stýrhópur stjórnarráðsins um byggðamál þurfa einnig að staðfesta þau.

Hvað eru miklir fjármunir til verkefna í sóknaráætlun Suðurlands?
Heildarupphæðin ræðst af fjárlögum hvers árs. Á árinu 2018 eru um 120 mkr. sem koma frá hinu opinbera. Framlög sveitarfélaga á Suðurlandi eru um 12,5 mkr. Af þessum fjármunum fara 9 mkr. til reksturs en annað er til úthlutunar í gegnum Uppbyggingarsjóð Suðurlands og til áhersluverkefna sóknaráætlunar.

Er hægt að sækja um fjármagn til verkefna í gegnum sóknaráætlun Suðurlands?
Það er ekki talað um að sækja um fjármagn til tiltekinna verkefna í gegnum sóknaráætlun. Hins vegar geta allir lagt fram tillögur að verkefnum. Það er síðan verkefnastjórnar að meta og ákvarða hvort unnið verði að tilteknu verkefni og hverjum yrði falið að framkvæma það. Uppbyggingarsjóður Suðurlands tekur hins vegar á móti umsóknum um verkefnastyrki á sviði nýsköpunar- og menningarmála tvisvar sinnum á ári.

Hvað ná sóknaráætlanir yfir langt tímabil?
Núgildandi sóknaráætlun er sóknaráætlun Suðurlands 2015 til 2019. Tímabil sóknaráætlunar endurspeglast í þeim samningi sem landshlutasamtökin gera við hið opinbera. Landshlutasamtökum er frjálst að endurskoða áætlunina óháð því tímabili og sérhvert áhersluverkefni getur náð til eins eða fleiri ára innan þessa tímabils.

 

Soknaraaetlanir_einblodungur_október 2021