fbpx

Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga hefur fjallað um tillögur fagráðs atvinnu og nýsköpunar annars vegar og fagráðs menningar hins vegar, um úthlutun verkefnastyrkja úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Um var að ræða síðari úthlutun sjóðsins á árinu 2020. Umsóknir voru samtals 165, í flokki atvinnu- og nýsköpunarverkefna bárust 72 umsóknir og 93 umsóknir í flokki menningarverkefna.

Að þessu sinni var 40 m.kr. úthlutað, 20 m.kr. í hvorn flokk, til samtals 85 verkefna. Samþykkt var að veita 31 verkefnum styrk í flokki atvinnu- og nýsköpunarverkefna og 54 verkefni í flokki menningarverkefna.

Hæsta styrkinn í flokki atvinnu og nýsköpunar hlaut að þessu sinni Roberto Tariello 1,5 m.kr. í vekefnið „Loftþurrkað rauðvínslambalæri á suður-evrópska vísu“.  Markmið verkefnisins er þróa lambalæri þurrkað á ítalska vísu eftir aldagömlum hefðum. Ráðgert er að þróa það sem framleiðslu- og matvælaiðnaðarvöru án þess að til komi innflutningur og vistspor að nokkru marki.“ Þessi styrkur kemur af stað frekari þróunarvinnu. Roberto hefur rekið fyrirtæki sitt Tariello ehf síðan 2012 í Þykkvabæ og er þekktur fyrir sínar ítölsku salami og guanciale sem eru lykillinn að góðu Carbonara. Þessar handverkuðu sælkeravörur hafa verið á íslenskum boðstólum í smásölu til einstaklinga, verslana, veitingastaða og hótela og fást m.a. í Melabúðinni, Frú Laugu, Fjarðarkaup, Fiskkompaníinu á Akureyri, Sandholtsbakaríi, Hagkaup og nokkrum stærri Krónuverslunum. Í fyrra hlaut rauðvínssalamíið gullverðlaun Asksins.

Í flokki menningarverkefna hlaut Biðukolla ehf., hæsta styrkinn fyrir verkefnið „Skjálftinn“ að upphæð kr. 1,5 m.kr.  Skjálftinn er sunnlensk útgáfa af Skrekk sem er hæfileikakeppni unglinga í grunnskólum í Reykjavík og hefur farið fram í 30 ár. Það er skoðun styrkþega að landsbyggðarkrakkarnir eru að fara á mis við að hafa ekki samskonar batterí sem hvetur þau áfram í sköpun. Það er svo stórkostleg stemning í kringum þetta, allir skólar taka virkan þátt í að hvetja sitt lið áfram og þetta virðist hafa mjög jákvæð áhrif á skólabraginn. Undirbúningsvinnan við Skjálftann er farin af stað.

Lista yfir verkefni sem hlutu styrki má sjá HÉR