fbpx

Ögmundur Jónasson samgönguráðherra sturtaði fyrsta hlassinu fyrir nýja akbraut vegna tvöföldunar Suðurlandsvegar í gær 22. september.  Áður hafði Hannes Kristmundsson fært honum skóflu sem Ögmundur tók fyrstu skóflustunguna með og mun hann varðveita skófluna til hvatningar um að halda verkinu áfram. Lengd framkvæmdakaflans er um 6,5 km og það er Ingileifur Jónsson ehf sem sér um framkvæmdirnar. Að vestan tengist vegkaflinn núverandi þriggja akreina vegi upp Lögbergsbrekku og að austan tengist vegurinn núverandi þriggja akreina vegi um Svínahraun. Um er að ræða … tvöföldun á stærstum hluta kaflans en breikkun í þriggja akreina veg á hluta hans. Auk þess eru innifaldar í verkinu breytingar á núverandi vegamótum við Bláfjallaveg, Bolaölduveg og við Litlu kaffistofuna. Þá skal gera undirgöng fyrir gangandi og ríðandi umferð vestan við Litlu kaffistofuna og breikka núverandi brú á Fóelluvötn á Sandskeiði. Nýja akbrautin á að vera tilbúin 20. september á næsta ári en breytingum og frágangi á núverandi vegi á að vera lokið 20. júlí 2012. Áætlað er að vinna standi fram að jólum ef veður verður ekki óhagstætt.