fbpx

Dagana 28. – 30. júní verður haldin sönghátíða á Klaustri. Dagskráin verður sem hér:

Tónleikar föstudaginn 28.6. kl. 21:00, laugardaginn 29.6. kl. 17:00 og sunnudaginn 30. 6. kl. 15:00 í Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri. Tónlistarsmiðja fyrir börn laugardaginn 29.6. og sunnudaginn 30.6.

Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri hylla röddina í margvíslegum birtingarformum undir merkjum Sönghátíðar helgina 28. til 30. júní. Hátíðin, sem er haldin árlega, leitast við að fara ótroðnar slóðir.

Jafnhliða tónleikahaldinu er 5-10 ára börnum boðið að taka þátt í skapandi tónlistarsmiðju undir stjórn Elfu Lilju Gísladóttur. Þau fara í tónlistarleiki, spinna og taka svo þátt í lokatónleikum hátíðarinnar með öllum tónlistarmönnum hennar.

Kvennakraftur? Kventónskáld, kvenljóðskáld, kvennakór og kveneinsöngvari!

Bára Grímsdóttir, staðartónskáld Kammertónleikanna í ár, samdi verkið Dame la mano til frumflutnings á hátíðinni. Ljóðið er eftir Gabrielu Mistral frá Chile, sem var fyrsti rithöfundurinn frá Suður-Ameríku til að hljóta Nóbelsverðlaunin. Hinn rómaði kvennakór Vox feminae, undir styrkri stjórn Margrétar J. Pálmadóttur, frumflytur verkið, ásamt Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur mezzósópransöngkonu, á tónleikum með alíslenskri efnisskrá. Þetta er í fyrsta skipti sem kvennakór kemur fram á hátíðinni.

Gissur Páll Gissurarson hlaut nýverið Íslensku tónlistarverðlaunin sem Söngvari ársins, en hann flytur lútulög endurreisnartónskáldsins John Dowland og samtíðarmanna hans frá tímum Shakespeare. Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari brýtur upp efnisskrána með óvenjulegu verki eftir samtímatónskáldið Thomas Adès, sem hann lýsir sem sprengingu á lútulaginu In darknesse let mee dwelle eftir Dowland.

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Francisco Javier Jáuregui eru röddin og gítarinn á geisladisknum English and Scottish Romantic Songs for Voice and Guitar sem var að koma út hjá spænsku útgáfunni EMEC, og Naxos dreifir á heimsvísu. Hátíðin hefst einmitt á flutningi nokkurra sönglaga sem er að finna á disknum. Henni lýkur hins vegar með flutningi allra listamannanna á ítalskri tónlist eftir bel canto meistarana Bellini, Rossini og Donizetti.

Allar nánari upplýsingar má finna á vef hátíðarinnar www.kammertonleikar.is